Færsluflokkur: Bloggar
22.8.2008 | 14:55
Á gæsaveiðum
Þá er gæsaveiðitímabilið hafið en það hófst sl miðvikudag 20 ágúst og minn fór í opnun að venju í Hrútafjörð og vinur minn Unnsteinn Guðmundsson var byssa nr 2. Gríðarlegt magn var af gæs daginn áður á svæðinu en spáin var ferlega leiðinleg, logn og sól, sem er eins konar "opnunar-martröð" á gæs. Þá sér hún betur og hangir á sjónum og fer síðan í hlíðarnar í berjamó. Og það var nákvæmlega það sem gerðist þennan miðvikudagsmorgunn. Hún lét varla sjá sig yfir túnunum en um hádegið voru komnar 5 gæsir í tún og útlitið ekki bjart.
Við Unni fórum í klukkustundar pásu og skildum gervigæsirnar eftir á túninu. Fórum með flugustangirnar í sólinni og settum í tvo fallega 1,5 og 2ja punda urriða. Því næst þurfti Unni að keyra heim í Grundarfjörðinn og ég tyllti mér bara aftur í skurðinn og lét fara vel um mig. Skyndilega kom stór hópur yfir og þá náði ég að slíta niður 3 gæsir og stuttu á eftir kom annar ágætur hópur og þá lágu 4 gæsir, þar af tvær í einu skoti. Minn var sáttur með það og í voninni beið ég fram eftir degi en engin kom gæsin.
Daginn eftir hélt ég heim í Kópavoginn og í dag horfði ég á frábærann handboltaleik þar sem okkar menn burstuðu Spánverja og erum komnir í úrslitaleikinn sem verður sýndur á sunnudagsmorguninn næsta. Eins gott að vera ekki á gæs þá. En sem sagt, þá náðust 12 gæsir í fyrstu ferðinni og vonandi verður haustið gott og gjöfult.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2008 | 20:18
Síðasti dagurinn fyrir Vestan
Anna María systir og Gummi buðu mér í gúddbæ-kvöldverð í gærkveldi og minn kom nú ekki að tómu matarborðinu þar, ónei. Gummi var úti að grilla lambalæri og Anna að sýsla við sósugerð og meðlætið. Ég var hrikalega svangur enda varla nennt að elda sl daga því ég hef verið að pakka og ganga frá lausum endum. Ég kom með nokkra vöðva af hreindýri sem var sett á grillið með lambinu. Og að sjálfsögðu smakkaðist lambið frábærlega og hún systir mín er helvítið góður kokkur. Þarna sátum við öll með dætrunum þeirra; Tinnu, Ingibjörgu og Önnu Lind. Ekki man ég hvað ég borðaði mikið en það er langt síðan ég hef látið annað eins af mat ofaní mig. Eftir kjötátið kom Anna með tvær gerðir af ís, fersk jarðaber og kokteilávexti í skál og tvær íssósur að auki. Og minn lét sig vaða á tvær skálar og það vantaði bara einn sentímetra uppá að það þyrfti að kalla á þyrluna. Ég þakka Önnu og Gumma kærlega fyrir að hugsa svona vel um mig, farandverkamanninn, og kveðja mig með þessu eftirminnilega kvöldverði. Sjáumst vonandi sem fyrst aftur.
Dagurinn í dag fór að mestu í að klára að pakka og gera Bismark kláran fyrir brottflutning. Veðrið er ömurlegt úti, haustlægðirnar byrjaðar að herja á landið með rigningu og roki. Sjóstangaveiðimennirnir komust út í gærdag og veiddu nokkrir bátar mjög vel. En í dag og næstu þrjá daga þurfa þeir að vappa hér um kauptúnið og finna sér eitthvað að gera. Ég sá þá á höfninni í dag með veiðistangirnar. Nóg af mansanum og kolanum þar.
Já, svo er ræs kl 06.00 í fyrramálið. Sæki fisk í Íslandssögu kl 06.30 til Grétars frænda og legg svo af stað. Langar til að þakka eftirtöldum heimamönnum og öðrum sem ég hef átt góð samskipti við í sumar:
Þakkir fyrir samveruna:
Elíasi Guðmundssyni og fj, Guðmundi Svavarssyni (sérstaklega) og Lóu, Juliusi Drewes á Flateyri, Grétari og Völu, Oddnýju, Ingólfi og fj, Arnari Guðmundssyni og Þorgerði Karlsdóttur, Kjartani Þór, Svavari og Jónínu, Petru og Leif, Gumma Karvel og Gunný, Maríu Þrastar, Adreasi eiturbrasara á Talsiman , Pálmari og Ölla á höfninni, Steina og Halldóru, Oddi Hannesar, Kalla og Ingu í Bæ, Einari Ómars og Guðna Einars, Valla Hallbjörns, Gumma Ingimars, Einari Karls, Óskari beitara, Óðni Gestssyni, Hilmari Gunnars, Jóa Bjarna, Bjössa Kristmas, Magga Sigga, Dominik Púlara, Gaua og Jóa á Fernandos, Palla Önundar, Sigga Hafberg, Magga Hinriks á Innri Verðará, Svanbergi á Bakka, Gunnari á Ytri Veðrará, Pálma Gestssyni og Dillý í Bolungarvík, Jóni Víði, Ásu Friðbertar, Sollu Leifs og öllum þeim sem ég gleymi hér í þessari upptalningu.
Lokahófið verður síðan á Vagninum í fyrstu viku í september en þá verður húllumhæ og fjör, skálað fyrir góðu sumri og þeim ævintýrum sem drifið hafa á daga okkar allra. Takk fyrir samveruna kæru vinir, sjáumst eldhress í lokahófinu og vonandi aftur næsta sumar.
Þetta er búið að vera frábært sumar og ekki verra að hafa eytt því hér á Suðureyri við Súgandafirði, mínum fæðingarstað. Takk fyrir mig.
Kveðja
Róbert Schmidt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2008 | 17:54
10 rétta villibráðarveisla
Loksins lét ég verða af því að halda almennilega villibráðarveislu hér fyrir vestan. Ég bauð frænku minni, henni Oddnýju Schmidt og Ingólfi til veislu í þeirra húsi sem þakklætisvott fyrir að lána mér og fjölskyldu minni húsið í sumar. Og ég er ekki að tala um litla veislu heldur alvöru villibráðarveislu þar sem öllu er tjaldað til. Læt hér fylgja matseðilinn frá gærkveldinu og nokkrar myndir.
Gestgjafarnir buðu uppá fordrykk, Martini í klaka um sjö leytið. Svo var byrjað að grilla forréttina en þeir samanstóðu af sjávarréttaspjótum og hrefnuspjótum:
Forréttir:
Sjávarréttaspjót í Mango Shutney marineringu (humar, lúða og skelfiskur)
Hrefnuspjót m/ beikoni, papriku og sveppum í Caj P marineringu
Hæstiréttur:
Gæsa- og hreindýraliframús á snittubrauði með Títuberjasultu
Milliréttur:
Beikyreykt stokkandarbringa í Jim Beam Teriyaki sósu
Heitreykt grágæs m/ sætri sojasósu, salatblaði og ristuðum furuhnetum
Aðalréttir:
Villibráðarþrenna
Grillaður hreindýravöðvi með villisveppasósu
Léttsteikt heiðagæsabringa með rifsberjasultu
Svissuð stokkönd með ferskum bláberjum
Eftirréttur:
Frönsk súkkulaðikaka með jarðaberjum, vanilluís og rjóma (sem Oddný gerði)
Kaffi og VSOP Koníak
Vín:
Chateau Timberlay 2003
Bordeaux Supérieur - France
Chateau Moulinat 2003
haut-Médoc- France
Og frá því er að segja að Arnar Guðmundsson, skólabróðir minn mætti í veisluna með Þorgerði sinni og einnig bauð ég vini mínum honum Juliusi Drewes sem étur eins og gámur en það er önnur saga. Við borðuðum frá 19.30 fram til miðnættis. Hvíldum okkur vel á milli rétta, sögðum sögur og hlógum mikið. Frábært matarboð með góðum vinum sem gleymist seint.
Er nú að veltast í timburmönnum frameftir sunnudegi. Skrapp með Gumma Svavars inní fjörð í dag til að leita af lúðum en fundum enga í þetta sinn. Fimm dagar eftir í vertíðarlok. Maður er strax farinn að finna fyrir fararkvíða og það verður erfitt að keyra burtu úr firðinum mínum með öll sumarævintýrin á bakinu og ég veit að ég á eftir að fella nokkur tár á leiðinni suður en svona er lífið. Hlutirnir breytast og lífið heldur áfram sinn vana gang. Vonandi bíða mín fleiri ævintýri í borg óttans.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2008 | 20:21
Góður dagur að baki
Vaknaði kl 06.30 í morgun og dreif mig niður á höfn í þessu fína veðri. Hitti Svíana í bátunum sem voru klárir í slaginn. Svo kom ónefndur heimamaður vel við skál á flotbryggjuna og bað mig um að redda sér nokkrum bjórum því hann hafði eignast stúlkubarn kvöldið áður og konan sín væri á sjúkrahúsinu. Dálítið skondið svona í morgunsárið en ég bjargaði nýkrýnda pabbanum um nokkra öllara svo ég losnaði við hann. Sá fór sáttur með bjórinn heim. En áfram leið morguninn og ég brunaði út með feðgum sem heita Klaus og Johann. Við fórum vítt og breitt um miðin en lítið var af vænum þorski þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.
Undir hádegi rambaði ég loksins á góðan blett og dró 15 kg þorsk sem tók vel í hendurnar. Feðgarnir fengu líka fína þorska eða frá 10-12 kg fiska. Þarna vorum við í rúma tvo tíma og fengum 15 þorska á bilinu 10-15 kg og voru þeir mjög sáttir við aflann enda sá besti sl þrjá daga af sjö hópum á Suðureyri. Veður var ásættanlegt þrátt fyrir smá kaldaskít síðdegis. Og það er alltaf jafnfallegt að sigla inn lygnan Súgandafjörðinn í lok dagsins. Fékk mér einn ískaldann bjór þegar heim var komið og í gríni skálaði ég út í loftið fyrir litlu dömunni sem fæddist kvöldið áður og líklega væri pabbinn nokkuð timbraður í dag en það er allt önnur Ella.
Læt hér fylgja þrjár myndir frá deginum í dag.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 00:26
Villibráðarveisla, sjósókn og undirbúningur fyrir haustflugið suður
Vikan sem er að líða hefur verið góð, fallegt veður og nóg að gera. Að vísu eru bara sjö hópar núna og þeim fer fækkandi með hverri vikunni í ágústmánuði enda vertíðinni senn að ljúka. Eins og áður sagði, þá fer ég suður þann 15 ágúst nk með bátinn í eftirdragi. Sorglegt að þurfa að opinbera það hér að ég hef enn ekki sjósett Bismark í Suðureyrarhöfn í allt sumar en þess í stað hef ég dundað mér við að lagfæra hann og mála. Fleytan lítur nú út eins og ný úr kassanum. En ég hugsa að ég skelli bátnum niður um helgina bara svona til að segjast hafa siglt honum hér um fjörðinn.
Í fyrramálið fer ég út með sænskum blaða-og ljósmyndurum á sjóinn til að finna stóra fiska en þeir settu í 11 kg lúðu (100 sm langa) hér rétt fyrir utan höfnina á Suðureyri í fyrrakvöld sem segir að þessar lúður geta leynst allstaðar. Veðurspáin er góð, logn og renniblíða um allan sjó. Frábært að komast á sjóinn í heilan dag með sérfræðingum frá Svíþjóð en við spyrjum að leikslokum hver verður sérfræðingur á morgun. Vonandi náum við 20 kg + þorskum, skötusel, steinbít og rauðsprettu svo ég tali nú ekki um hlýrann sem þeir hafa á óskalistanum sínum næst á eftir stórlúðunni.
Læt meira hér inn um helgina ef eitthvað markvert gerist á sjónum. Annars er síðan heljarinnar matarboð hjá Oddnýju frænku og Ingólfi en ég bauðst til að halda alvöru villibráðarveislu þar sem boðið verður uppá t.d. sjávarréttaspjót, hrefnuspjót, hreindýrakjöt, reyktar stokkandabringur, heitreykta grágæs, gæsa- og hreindýraliframús, villisveppasósu með púrtvíni og koníaki, léttsteiktar heiðagæsabringur og eðal-rauðvín frá Frakklandi. Kannski að ég segi lítillega frá því líka ef vel tekst til með veisluna.
Nóg að sinni
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2008 | 09:18
Í kóngsins Köben
Við fórum að sjálfsögðu í Tívolíið og í ýmis skemmtileg tæki. Þorðum reyndar ekki í fallturninn en fórum í Krabbann sem var hrikalegur. Vissum ekkert hvaða tæki það var en tylltum okkur bara í sætin og svo fór allt á fullt og við skriðum niður tröppurnar náfölir eftir útreiðina. Við heimsóttum dýragarðinn, Rósagarðinn, sáum lífvarðaskiptin og heimsóttum Hafmeyjuna. Veðrið var frábært, steikjandi hiti og sól. Einnig var farið niður strikið og svo keyrði Gulli vinur okkar á rauða drekanum sínum okkur um allar sveitir sem var einstaklega fræðandi og forvitnilegt. Danmörk er falleg land og Köben hefur margt sögulegt að geyma. Svo var skokkað á Nýhöfnina og fengið sér ís í góða veðrinu. Eitthvað var verslað í Fiskitorfunni eins og venjulega er gert. En ferðin var meira farin fyrir Róbert litla sem naut þess í botn. Eftir það fór öll fjölskyldan vestur í Súgandafjörð á Sæluhelgina en ég mun setja myndir frá henni í albúmið síðar. Þeir sem áhuga hafa á að skoða myndirnar frá Danmörku geta séð þær í Myndaalbúminu t.v. á forsíðunni.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2008 | 22:56
Senn líður að hausti
Það hefur margt skemmtilegt gerst hér í sumar og ég væri alveg til í að koma hingað aftur að ári og halda áfram uppbyggingu og þeirri þróunarvinnu sem átt hefur sér stað með sjóstangaveiðihópana. En tíminn einn mun leiða það í ljós. Fólkið hér er gott og mannlífið er alltaf litskrúðugt og aldrei tómar göturnar. Maður á örugglega eftir að kveðja með söknuði þegar tíminn kemur. Og við tekur borgarstressið, umferðarljósin, flugvélahávaði og fullar verslunarmiðstöðvar af hlaupandi fólki að leita af hlutum sem hafa oft ansi litla þýðingu í lífinu. Já, það er talsverður munur á landsbyggðarfólki og þéttbýlisbúunum. Ekki ætla ég að fjölyrða um muninn en ræturnar hingað styrkjast æ meir eftir því sem dvölin verður lengri. En að sjálfsögðu verður líka gott að komast heima eftir útlegðina og smala saman börnunum í skemmtilegan kvöldverð með fullt af sögum frá hverjum og einum. Þannig matartíma met ég mikils og hlakka alltaf til að sitja. Allir fá að segja frá sínum ævintýrum og framtíðardraumum. Myndir eru skoðaðar og mikið hlegið og skrafað. Ég hef saknað þess ótrúlega mikið og það hefur tekið mest á að hafa ekki fjölskylduna hjá sér.
Um helgina þurftum við Julius vinur minn á Flateyri að fara með einn breta út í Staðardalsá í laxveiði og það þótti okkur nú ekkert sérlega leiðinlegt. Þrátt fyrir laxaþurrð náðum við ágætum bleikjum í efri ánni. Laxinn kemur seint en það hefur sést til nokkurra laxa í Botni sl daga en ekki náðst að setja í neinn ennþá sem komið er. Læt hér fylgja með mynd sem ég tók af Juliusi með fallega 3,5 punda bleikju sem hann náði á flugu.
Ég reikna með að skella mér í bæinn um Verslunarmannahelgina og slaka þar á eins og mögulegt er. Nú eða skreppa eitthvað út í sveit í sólina ef hún sýnir sig. Læt þetta duga að sinni.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2008 | 10:47
Fiskur á hverju færi
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2008 | 16:54
Meira af stórum fiskum
Enn eru þýsku sjóstangaveiðimennirnir að setja í stóra fiska. Síðast liðinn sunnudag setti einn veiðimaður í 18 kg skötusel sem þykir mjög stór skötuselur á sjóstöng, miðað við Íslandsmetið sem var sett í Ólafsvík árið 2005 en það er í dag 10,9 kg. Daginn eftir veiddu aðrir veiðimenn 13 kg skötusel og annan 12 kg og sá þriðji var um 11 kg. Sem sagt margbúið að slá Íslandsmetið hér fyrir utan Vestfirðina. Nokkrir 26 kg þorskar hafa veiðst í sumar og ótal 20 kg þorskar líka. Það er alveg með ólíkindum hversu sumir þorskarnir eru stórir. En ég hef nú uppfært Myndaalbúmið / Sjóstangaveiði all-hressilega og nú geta áhugasamir kíkt á myndirnar til sönnunar um þær sögur sem ég hef látið hér flakka. En meira um það síðar.
Myndina tók Julius Drewes af þýska veiðimanninum sem setti í 18 kg skötuselinn en sá bátur var frá Flateyri (Bobby-bátur frá Hvíldarkletti)
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2008 | 15:40
Brúðkaup í Ósvör
Eftir athöfnina var brunað heim í hús og hafist handa við að grilla átta lambalæri ásamt tilheyrandi meðlæti og brúðkaupskakan beið sem eftirréttur. Við Reynir bróðir sáum um að grilla og ég gerði 4 lítra af villisveppasósu sem kláraðist svo til alveg. Stelpurnar sáu um salatið og annað meðlæti. Farið var í karókí og nokkrar ræður haldnar. Fullt fiskikar af ís var í garðinum með kampavíni og bjór, stórt veislutjald með bekkjum og borðum, fulldekkað, tók á móti brosandi gestum seinni partinn og sólin skein langt frameftir kvöldi eins og alltaf í Víkinni. Boðið var uppá rauðvín og hvítvín með matnum og svo var gítarinn tekinn fram og Gummi tók nokkur lög ásamt Tinnu dóttur sinni sem er mögnuð söngkona aðeins 13 ára gömul en hún og pabbi hennar eru búin að æfa mikið í gegnum tíðina og sungið saman. Ingibjörg systir hennar var eins og drottning í hvíta kjólnum sínum og Anna Lind skoppaði um með rauða hárið sitt og beit sig svo í tunguna í veislunni svo pabbinn þurfti að setja ísmola í munninn hennar en allt fór vel að lokum. Meiriháttar skemmtilegt brúðkaup þar sem yfirbragðið var með heimilislegum og fjölskylduvænum blæ. Það gerist ekki betra og skemmtilegra.
Um miðnættið var haldið á Ísafjörð á dansleik þar sem veislugestir stigu villtan dans fram eftir nóttu við undirleik Euróbandsins. Læt hér fylgja nokkrar myndir frá brúðkaupin og mun setja fleiri myndir í myndasafnið von bráðar. Enn og aftur til hamingju litla systir og Gummi.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)