Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Og meira af lúðum

Lúðuveiðin hér vestra byrjar vel því í gærdag veiddist 13,1 kg lúða út frá Flateyri á sjóstöng. Það varIMG_8731maður að nafni Dieter frá þýskalandi sem setti í lúðuna og það tók hann 20 mín að landa henni. Lúðan mældist 108 sm að lengd. Dieter er 68 ára gamall og hefur veitt lúður í Kanada en þessi lúða er sú stærsta á hans ferli og var hann að vonum glaður með fenginn sinn. Einnig veiddist lítil lúða út frá Suðureyri í fyrradag en sú lúða vó 5 kg og mældist 86 sm að lengd.

Einnig veiddist 33 kg lúða á sjóstangaveiðibát frá Súðavík, þannig að þær eru að týnast upp blessaðar. Ýsu fiskiríið er að glæðast en á þessum árstíma kemur ýsan á grunnslóðina. Heimabátar eru að veiða vel en Hrefna ÍS kom að landi í dag með rúm 5 tonn af blönduðum afla. Þar voru nokkrir vænir hlýrar í kari og fékk ég hann Nonna til að lyfta einum vænum upp fyrir myndavélina.IMG_8701

Lífið er dásamlegt hér. Ég held svei mér þá að ég sé að breytast í sveitakall aftur. Það er spurning hvort ég nái mér suður í ágúst eða ekki. Ne, segi bara svona. En hér er gott að vera, mannlífið blómstrar og maður er farinn að komast vel inní þessa daglegu rútínu. Allir heilsa úti á götu og brosa. Samfélagið er lítið en þægilegt. Hér er ekkert stress í gangi, sólin skín og allir taka lífinu með stóískri ró. Hvað er hægt að biðja um betra?

Kveðja að vestan

Róbert


Auðvitað náði hún prófinu stelpan

Það fór eins og ég vissi, Þórunn Hanna náði bílprófinu í dag með stæl. Fékk 10 í einkunn og ég held að það hafi verið eitt atriði sem hún gleymdi en það breytti ekki glæsilegri niðurstöðu hennar. Enn og aftur til hamingju elsku dúllan mín Wink  Og hún var nú ekki lengi að skella sér í bíltúr á nýja bílnum sínum með glóðvolgt ökuleyfið í rassvasanum. Hún sagði mér í gær að bíllinn (Wv) eyddi bara 6 lítrum á hundraði sem er ansi gott.

Bíð spenntur eftir að fá mynd af bílnum hennar.

Kveðja

Róbert

Þórunn Hanna er 17 ára í dag

Stjúpdóttir mín, hún Þórunn Hanna er 17 ára í dag (28. maí)  Wizard  Til hamingju með afmælið elsku IMG_5157dúllan mín og nýja bílinn sem þú varst að kaupa. Í dag mun hún jafnframt taka verklega prófið í ökunáminu en hún er búin að vera ansi dugleg í vetur að keyra með mér á jeppanum og ykkur að segja, þá er hún mjög góður ökumaður. Nú getur maður loksins látið skutla sér hingað og þangað hehe....! Ég talaði við hana rétt eftir miðnætti í gær og þá var hún að koma heim eftir að hafa þrifið bílinn sinn hátt og lágt, ryksugað og bónað. Hún sefur út í glugga og fylgist með bílnum sínum með öðru auganu. Nú er þetta eins og að eiga lítið barn. Ég er sannfærður um að hún verði fyrirmyndar ökudama og það er öruggt að reykingar verða ekki leyfðar í hennar bíl.

Þórunn Hanna er einstök persóna og skemmtileg. Ótrúlega IMG_5440tilfinningasöm og blíð, með stórt hjarta og má aldrei sjá neitt aumt, því þá er hún alltaf fyrst til að rétta hjálparhönd. Þórunn er mikill stjórnandi í sér og ákveðin. Það verður að teljast kostur hjá stelpunni því hún kemst þannig áfram í námi og starfi. Mjög samviskusöm (nema þegar hún þarf að taka til í herberginu sínu Blush  en eru ekki allir unglingar þannig?) og gerir hlutina 100% og skilar verkefnum vel. Frábær námsmaður og stefnir hátt sem sýnir að hún er með metnað og greind í góðu lagi.

Þær mæðgur eru algerlega ein heild þótt þær séu ólíkar á ýmsum sviðum. Sæunn, móðir Þórunnar torunn_og_saejaHönnu hefur séð um að styðja hana í námi frá A til Ö og að auki er hún fjármálastjórinn hennar,- eins og Þórunn orðar það svo skemmtilega. En eitt er víst að þær geta ekki setið saman í bíl ef Þórunn er að keyra, því þá verður allt vitlaust Tounge  Minnir mig stundum á þrjár ítalskar fjölskyldur í matarboði þegar þær byrja að kýtast undir stýri. En þess á milli eru þær báðar yndislegar við hvora aðra.

Ég sendi þér, elsku hjartans Þórunn mín, ástar- og saknaðarkveðjur héðan úr Villta Westrinu og enn og aftur til hamingju með 17 ára áfangann. Ég veit að hann skiptir þig miklu máli. Farðu gætilega í umferðinni og vertu róleg með bensínfótinn þinn. Aktu eins og þér var kennt að aka,- með öryggið í fyrirrúmi og mundu að það er ekki nóg að vera í rétti,- þú verður að gæta þín á svörtu sauðunum í umferðinni.

Elsku Sæunn,- til hamingju með dótturina. 

Kveðja

Róbert pabbi á Suðureyri

Fyrsta lúða sumarsins vó 32 kg

Þá er fyrsta lúða sumarsins komin á land á Suðureyri. Það var fimmtugur þýskur 32 kg halibut IIsjóstangaveiðimaður Paul Klingenberg að nafni sem setti í lúðuna út af Súgandafirði og mældist hún 140 sm og vó 32 kg. Það urðu því nokkur fagnaðarlæti á höfninni þegar þeir kappar á Bobby-5 komu í land með happafenginn. Þótt þessi lúða sé ekki risalúða, þá er hún samt lúða og það er nákvæmlega það sem þessir veiðimenn þrá að veiða öllum stundum. Þeir vita að það er erfitt að veiða lúðurnar en alltaf kemur ein og ein upp. Að sjálfsögðu samglöddumst við veiðimönnunum en þeir ræstu okkur út úr miðju Eurovisionpartýi sem var í góðu lagi.

Einnig sýndu þeir okkur sérkennilega pilka sem þeir kepptu í sama dag.IMG_8329 Þeir sönnuðu það að þorskar við Íslandsmið bíta á eiginlega hvað sem er. Þeir notuðu gylltan hurðarhún, handfang af rennihurð og læsingu á hurð svo fátt eitt sé nefnt. Og allir fengu þeir góða þorska á "draslið" eins og þeir kölluðu "pilkana". Það er greinilegt að þessir menn kunna að skemmta sér á sjónum.

Á sunnudaginn veiddist stærsti þorskurinn það sem af er þessu sumri en hann vó 25 kg og var 25 kgveiddur af Klaus Herbst frá Austurríki. Hann var að vonum ánægður með þorskinn enda persónulegt met hjá kappanum sem brosti sínu breiðasta. Þess má geta að stærsti þorskur sem veiðst hefur við Ísland mældist 181 sm að lengd og vó 60 kg. En stærsta lúða sem veiðst hefur við Ísland veiddist árið 1935 og mældist hún vel á fjórða metra eða 3,65 m og vó 265 kg.

Nú fer hópurinn suður á morgun (þriðjudag) og nýr kemur í staðinn. Stundum getur verið súrt að kveðja þessa kalla, því þeir verða bestu vinir manns eftir vikutíma því margir þeirra eru hressir og kátir, opnir fyrir spjalli og eru ánægðir með alla þjónustu og veiðina líka. Sumarið er rétt að byrja, allur júní og júlí eftir og hálfur ágústmánuður.

Kveðja að vestan

Róbert

Í grillveislu til litlu systur í Bolungarvík

Anna María systir mín og fjölskylda í Bolungarvík bauð mér í grillveislu í gærkveldi (sunnudag) og varGummi, Anna og Anna Lind það kærkomið tækifæri til að hitta þau öll á þessum fallega og sólríka sunnudegi. Gummi grillaði lambakjöt sem er náttúrulega langbesta kjötið á grillið. Á meðan Gummi var að grilla tók ég eina skák við frænku mína Ingibjörgu sem er víst mjög efnileg í taflmennsku á sínum aldri. Skákin byrjaði ágætlega en svo fór verulega að halla á mína menn og svo var kallað "Matur" og þá var ég fljótur að standa upp og sagði við frænku mína "Klárum skákina eftir matinn"

Maturinn smakkaðist sérdeilis vel og svo sátum við þarna og spjölluðum saman, ég, Anna María, Gummi, Tinna, Ingibjörg og Anna Lind. Tinna kom rennblaut heim en krakkarnir voru að leika sér í ánni við brúna og nutu þess að vera úti í góða veðrinu. Ingibjörgu Robert og Anna Lindleiddist að bíða með skákina eftir matinn og hún spurði því frænda sinn kurteisilega "Robbi, eigum við bara ekki að segja að ég hafi unnið skákina?" -Jújú, sagði ég enda vissi ég að orrustan var gersamlega töpuð. Ég þurfti bara aðeins að jafna mig á því að svona ung stúlka gæti unnið mig í skák.

Þegar ég ætlaði að kveðja var Anna Lind komin í stígvél og vildi koma með frænda sínum á Suðureyri. Og auðvitað tók ég mynd af henni, þessari litlu sætu dúllu með rauða hárið. Alger krúsidúlla. Svo kvaddi ég þau öll og hlakka til að hitta þau aftur. Það er reyndar ekki nema 30 mín akstur frá Suðureyri til Bolungarvíkur, þannig að við eigum örugglega eftir að hittast oft í sumar.Anna Lind

Kveðja

Róbert

Beitt fyrir stórlúðu

Í dag kíkti ég inn í skemmuna hans Valla á Suðureyri og þar var minn maður að beita á Haukalóð. Valli beitir á HaukalóðÆvar Einars varð sér úti um eitt bjóð og skiptust þeir á að beita. Þeir skáru niður smáufsa, sára og rauðmaga sem þeir beittu á krókana. Stefnt er að leggja línuna með kvöldinu hér fyrir utan og ég mun fljóta með og taka nokkrar myndir af þeim köppum. Ef veður leyfir, þá drögum við línuna annað kvöld. Það verður því spennandi að sjá hvað kemur upp. Meira um það síðar.

Í gærdag setti einn Þjóðverji í 40-50 kg lúðu sem kom upp á eftir litlum þorski sem hann var að Olli med raudmagadraga inn. Lúðan gleypti þorskinn og festi sig á krókinn í leiðinni. Mikil hamagangur var um borð því það er ekki á hverjum degi sem menn setja í stóra lúðu. En því miður, þá slapp lúðan og synti niður í sandinn eftir stutta en snarpa baráttu. Þessar fréttir hleypti miklu "lúðuæði" af stað og þegar ég skrapp hér útfyrir eftir hádegið mátti sjá fjölmarga báta á grunnslóðinni og allir voru þeir að reyna við lúður. Vonandi ná þeir einhverri lúðu í dag eða næstu daga.

Einn bátur náði 6 kg lúðu í Önundarfirði í gærdag og var hún étinn um kvöldið í matarveislu 22 kg þorskurÞjóðverjanna. Þannig að þetta er vonandi allt að bresta á. Þegar ég kíkti á höfnina seint í gærkveldi hitti ég þrjá kalla sem voru að koma inn og tveir af þeim náðu vænum þorskum, eða 16 kg og 22 kg að þyngd. Voru þetta stærstu þorskar sem þeir höfðu veitt. Alltaf gaman að sjá þá þegar þeir lýsa viðureigninni fyrir mér. En ég smellti af þeim myndum sem fylgja hér.

Læt þetta duga að sinni. Maður er öllum stundum við höfnina að fylgjast með þessum köllum og auðvitað gerast ævintýri af og til og þá er um að gera að njóta þess með þeim og samgleðjast. Kem með frekari fréttir um leið og eitthvað gerist með lúðurnar, hvort sem þær veiðast á Haukalóðina eða á sjóstöng. Ég held, svei mér þá, að það sé komið sumar.16 kg þorskur

Með Suðureyrarkveðju

Róbert Schmidt
S: 840-4022


Af stórþorskum

Enn koma Þjóðverjarnir að landi með stórþorska. Í gær veiddi 66 ára Þjóðverji sinn stærsta fisk á 22 kg torskur 4ævi sinni en það var 22 kg þorskur (135 sm að lengd) hér fyrir utan Súgandafjörðinn. Það gekk mikið á við að ná tröllinu inn og það endaði með því að veiðihjólið gaf sig og brotnaði. Þeir náðu þó að handdraga gaurinn upp og þegar félagar hans ætluðu að gogga hann inn fyrir, þá brotnaði goggurinn líka. En sá gamli var hamingjusamur með veiðina enda um að ræða stærsta fisk sem hann hefur veitt á sinni lífsleið. Það var farið með bjórkassa í húsið þeirra í gærkveldi því skála átti fyrir þorskinum og veiðimanninum gamla. Myndin er tekin í morgun þegar við vorum að landa úr bátnum en þeir öfluðu 300 kg af þorski eftir daginn.

Eins eru þeir að veiða stóra steinbíta sem línubátarnir eru ekki að fá um þessar mundir. Steinbítarnir eru frá 6-10 kg þeir stærstu. Í fyrra veiddust ekki svona stórir steinbítar að sögn þeirra sem þekkja Robbi 22 kg torskur IIvel til. Það var margmenni á höfninni í morgun að fylgjast með lönduninni og svo kom sá gamli og tók stórþorskinn í fangið og ég tók mynd af kappanum. Meira síðar.

Kveðja að vestan

Robbi þorskur

Höfnin er lífæð allra sjávarplássa

Höfnin er lífæð flestra sjávarplássa og þar hittast sjómenn, verkamenn, fínar frúr, flutningabílstjórar,Joi Bjarna Pseftirlitsmenn, lögreglan og aðkomufólk. Allir sem leggja leið sína á höfnina sjá alltaf eitthvað forvitnilegt og áhugarvert. Það fyrsta sem ég geri þegar ég er á ferðalagi um landið mitt er að renna niður á höfn í því byggðarlagi sem um ræðir til að kanna mannlífið, bátana og ástand hafnarinnar og fjölda skipa. Hér í Súgandafirði er einstakt líf við höfnina og þegar bátarnir landa, þá fylkist fólk að, sérstaklega menn sem stinga saman nefjum, spjalla um aflann og veðrið í dag. "Heyrðu, hann var að fáann. Fjögur tonn af spikfeitum steinbít, bara hér rétt út af Sauðanesinu." -Jamm, hann var á gamla steinbítsblettinum mínum. Svona tala menn og taka síðan í nefið, tylla sér á bryggjupolla og ritan svífur um eins og fiðrildi hafsins í kringum hafnarkranann í von um að næla sér í smá slorbita. Sjarminn er ólýsanlegur. Aðdráttaraflið er sterkt, menn hreinlega sogast niður að höfn hvað sem raular og tautar.

Þegar veður er stillt og sólin skín er fleira fólk á ferli en venjulega. Og á kvöldin þegar trillurnar IMG_7690týnast til hafnar fyllist hafnarsvæðið af fólki sem spókar sig um, spjallar og hlær. Þegar ég var púki lék ég mér alla daga sumarsins við höfnina, ýmist að veiða eða skoða bátana, safna hálf ónýtum hnífum eða dunda með snæris spotta. Þar var fjörið og er þar enn. Margar af mínum bestu minningum koma frá höfninni á Suðureyri. Í gamla daga fengum við púkarnir far með trillunum frá Ísversbryggjunni alla leið inní stóru höfnina. Leiðin var löng í þá daga og frábært að kallarnir leyfðu okkur að fara með. Í dag fengi engin púki að fara með nema vera með skriflegt leyfi foreldra og í björgunarvesti. Breyttir tímar, ójá. En sem betur fer þá naut maður þeirra gífurlegu forréttinda að alast upp frjáls á milli fjalls og fjöru án takmarka og reglna. Þær voru óskrifaðar og við strákarnir vissum muninn á réttu og röngu þótt stundum brotnaði ein og ein rúða af "sjálfu sér".

Engar tölvur voru til að trufla í þá daga, farsímar, I-pod, flatskjáir né nútíma leikföng. Bara gamli Ritagóði fótboltinn, teygjubyssan, örvabogi úr bambus, gúmmístígvél, snærisspottar, vasahnífar, hamar og nagli. Eitt sumarið smíðuðum við strákarnir timburfleka úr stolnu byggingarefni sem var að vísu afgangsefni og ónýtt þannig lagað. Svo rérum við á þessum manndrápsfleytum yfir í stóru höfnina eins og ekkert annað væri sjálfsagt. Þá, reyndar, fengum við smá skammir í hattinn. En við bárum alltaf virðingu fyrir þeim eldri og vorum hræddir við kallana ef þeir hvesstu sig í framan. Hlýddum eins og hundar á flótta.

Höfnin hefur breyst mikið frá því hér áður. Þá lá þar togarinn Elín Þorbjarnardóttir, línubátarnir Sigurvon, Kristján Guðmundsson og Ólafur Friðbertsson. Trillurnar skiptu tugum. Beitingarskúrarnir voru stútfullir af duglegum mönnum í köflóttum skyrtum og kaffibrúsinn stóð á hillunni til þjónustu reiðubúinn. Frystihúsið var líka fullt af verkafólki og ljómi og líf yfir plássinu. Svo kom kvótinn, hann gekk sölum og kaupum, braskið, flóttinn, bátar seldir burtu, sumir fóru á hausinn, aðrir seldu og keyptu minni báta, sumir græddu á meðan aðrir héldu sjó og horfðu í mölina sárir en í veikri von um að allt yrði eins og áður var. Já, vissulega hefur margt breyst en það þarf samt ekki endilega alltaf að vera slæmt. Mér finnst jákvætt bara ef eitthvað líf er við höfnina heima. Þessar fáu hafsins hetjur sem staðið hafa af sér brotsjó í áratugi eru enn að og nýir teknir við í bland. Meira segja menn sem eru komnir á áttræðis aldurinn leggja rauðmaganet hér í firðinum og hafa aldrei veitt annað eins frá því menn fundu upp netið.

Ég er stoltur af höfninni heima og finnst gaman að koma þar við. Hún er sjaldnast tóm og líflaus.IMG_7668 Æðurinn úir, hávellan syngur og mávarnir kyrja sínar óperur svo bergmálar í nærliggjandi húsum. Svona á höfnin að vera, þannig þekkir maður hana best.

Kveðja að vestan

Róbert

Suðureyrarbréf Nr II

Síðasta vika var frekar erfið veðurfarslega fyrir þá sjóstangaveiðimenn sem hér hafa dvalið. Þrátt fyrir Rigatorskurbræluskít, þá róa þessir kallar nokkuð stíft miðað við heimamenn. Kannski ekki að furða því þeir hafa lagt mikið undir og eru komnir langa leið fyrir ævintýrin. En náttúran hefur sinn gang og það er ekki hægt að ráða við veðrið. Ég hef fylgst með þeim þremur hópum sem hafa verið á sjó sl daga og í morgun fengu Tékkarnir nokkra væna þorska, frá 16-18 kg fiska sem eru stórir og þungir að draga inn. Um borð í þeim báti var kvikmyndatökumaður og blaðamaður en þeir munu birta umfjöllun um ferðina þeirra í sjóstangaveiðiriti ásamt sjónvarpsþætti. Þessir karlar eru þaulvanir og hafa veitt víða um heim og eru þekktir á sínu sviði.

Veðrið í dag (mánudagur 5 maí) var fallegt, sólskin og logn í fallega firðinum. Enn er nokkur snjór í IMG_7577fjöllum en búast má við að hann hverfi hægt og rólega á næstu vikum. Rauðmagakarlarnir hafa fengið nóg í soðið og hafa tekið netin upp. Egill Kitt og Bjössi Kristmans hafa veitt rúmlega 1700 rauðmaga í fimm ferðum sem er alveg makalaus góð veiði. Börnin léku sér á reiðhjólum í dag og fólkið spókaði sig um göturnar, flutningabílarnir óku sinn hring og sumir tóku til í görðunum sínum.

Á sunnudagskvöldið skrapp ég í heimsókn til Magga Hinriks vinar míns sem er nú kominn frá Sauðárkróki alla leið vestur í Önundarfjörð til að hlúa að æðarvarpinu á ættaróðalinu Innri-Veðrará. Maggi hafði veitt nokkrar bleikjur og bauð til veislu. Við ræddum um tófuveiðar og æðarvarpið fram eftir kvöldi. Tókum svo nokkur æfingaskot úr rifflunum okkar því kvöldið áður var ein tófa að sniglast við húsið og hana þarf að fella áður en hún gerir skaða í varpinu. Æðarfuglinn vappar um og leitar hreiðurstæðis á kvöldin og það styttist í varp. Sumrið er á næsta leiti en um síðustu IMG_7611helgi snjóaði kröftuglega svo farfuglarnir klóruðu sér í stélinu. Í dag þegar ég átti leið til Flateyrar sá ég haförn sem stefndi beint inn að æðarvarpinu hans Magga og Steina á Tannanesi. Var ég fljótur að láta Magga vita.

Um daginn þegar ég var á hafnarröltinu mætti ég grágæs við hafnarvigtina. Sú virtist róleg og þegar ég nálgaðist hana hvæsti hún bara á mig. Og svo beit hún í löppina á mér og ég skellihló, fannst þetta ótrúlegt hugrekki hjá gæsinni því hún vissi ekki blessunin að hún var að bíta einn alræmdasta fuglamorðingja norðan hnífs og gaffals. Svo fékk ég upplýsingar um að Ævar Einarsson hafði alið tvær gæsir um tíma og nú fljúga þær hér um allt eins og orrustuþotur á milli húsa og í dag sá ég eina við Galtartánna.

Í dag (þriðjudag 6 maí) komu átta hópar frá þýskalandi sem staldra við í vikutíma eins og alltaf. Þeir IMG_7647dreifast á Flateyri og Suðureyri. Uppúr 20. maí koma svo hóparnir með reglulegu viku millibili út allt sumarið. Allur dagurinn fór í að skipuleggja móttöku þessara hópa og kvöldi fór í að útskýra fiskimiðin, hætturnar við strendurnar, hvaða agn er best og hvaða fiskitegundir veiðast á miðunum hér úti. Allir hóparnir voru kátir í kvöld enda fallegt veður og gott í sjó frameftir degi á morgun en svo spáir bræluskít fram að helgi sem er alls ekki gott fyrir þá.


IMG_7623ps. Tók þessar myndir í veðurblíðunni í Súgandafirði í dag.

Læt þetta duga að sinni.

Kveðja að vestan

Róbert  

Suðureyrarbréf Nr 1

Jæja, gott fólk, þá er komið að smá ferðasögu að vestan J Eins og flestir vita þá er ég kominn vestur á Suðureyri við Súgandafjörð í sjóstangabransann hjá Elíasi hjá Hvíldarkletti www.fisherman.is (endilega kíkið á síðuna) og ég verð að segja að þetta starf er ekki leiðinlegt. Ég hef frjálsan vinnutíma sem er mjög gott og nauðsynlegt fyrir alla þá viðskiptavini sem koma hingað en þeir eru nær allir frá þýskalandi. Við megum búast við mjög góðu sumri framundan enda er fullbókað allar vikur fram í ágúst. Sugandafj ad kvoldlagi

Í hverri viku (á þriðjudögum) koma tvær Fokker Freindship vélar frá Reykjavík til Ísafjarðar með fullfermi af Þjóðverjum með sjóstangir og þýska snapsa
J Allir vilja veiða sömu risa-lúðuna sem veiddist í fyrrasumar en hún vó 175 kg og mældist 240 sm á lengd. Lúðan veiddist á bát frá Hvíldarkletti að sjálfsögðu og er nærst stærsta lúða sem veiðst hefur í Evrópu á sjóstöng. Sú stærsta veiddist í Noregi og vó 10 kg meira en Suðureyrarlúðan góða (hægt er að sjá myndskeið af þessari lúðu á www.fisherman.is ). Einnig vilja þeir veiða steinbít sem er frekar erfitt að fá á sumrin á sjóstöng, þannig að það er lúða og steinbítur sem þeir vilja og risa-þorskar. Þeir þorskar sem þessir kallar eru að veiða eru engin smá seiði. Við erum að tala um 25-35 kg þorska sem eru gríðarlegar skepnur að sjá. Heimamenn og aldraðir sjóarar hafa aldrei séð aðra eins þorska og það má teljast fréttnæmt.Robert Cod 500

Ég er búinn að vera hér í vikutíma og félagi minn á móti mér heitir Julius og er Þjóðverji og kemur frá Angelreisen sem er þýska ferðaskrifstofan sem bókar allar ferðirnar hingað. Julius mun sjá um alla hópa sem koma til Flateyrar í gegnum Hvíldarklett. Við Júlli náum vel saman og erum búnir að bralla mikið sl daga. Höfum farið tvisvar á sjóinn með stangirnar okkar og veitt ágætt af þorski. Mitt hlutverk er að kenna hópunum á bátana en þeir telja 22 stk bátar (sjá mynd í viðhengi) og von er á fleiri bátum í sumar. Einnig sýni ég þeim hvar bestu fiskimiðin eru hér fyrir utan Vestfirðina, kenni þeim að blóðaga fiskinn rétt og vera þeim innan handar með upplýsingar og þjónustu. Þar sem vinnutíminn er frjáls, þá er ég öllum stundum uppá gamla flugvelli að kíkja út fjörðinn til að kanna hvar þeir eru þegar bræla er því þá veiða þeir innfjarða. Annars sér Tilkynningaskyldan á Ísafirði um samskiptin við þessa kalla. Fyrsti hopurinn fra Tekklandi

Í dag fóru tveir hópar út á sjó, annar hópurinn er frá Tékklandi og komu þeir í land í kvöld með 400 kg af þorski og tvo steinbíta. Fjórir þorskar voru vel yfir 1 metra að lengd. Áhöfnin brosti hringinn af ánægju enda búið að vera bræla alla daga frá því þeir komu sl þriðjudag. Hinn hópurinn samanstendur af Þjóðverjum en þeir náðu 250 kg í dag af þorski og voru sáttir með það. Þriðji hópurinn er líka frá Tékklandi en sá hópur er frekar sjóveikur og hangir meira í húsi en á sjó. Það minnir mig á að ég þarf að fara á Ísafjörð á morgun til að kaupa tvo kassa af sjóveikistöflum
J Torsknum gefid i Loninu

Síðustu daga höfum við Júlli reynt að stytta þessum hópum stundir í brælunum. Í gærdag fórum við með Tékkana í skoðunarferð í Íslandssögu sem er frystihúsið á Suðureyri. Þeim var sýnt allt ferlið frá A til Ö hvernig fiskurinn er unnin í neytendapakkningar. Mikil hrifning er meðal þeirra sem fá að njóta og oftast nær er þetta í fyrsta skiptið sem fólkið stígur inn fyrir í frystihús. Einnig eigum við Júlli smá “galdratrix” fyrir hópana og förum þá með þá inn að Lóni en í það er búið að sleppa náttúrulega villtum þorski af Jens Holm sem er búsettur á staðnum. Jenni hefur gert þetta í mörg ár með frábærum árangri. Málið er að við förum með fólkið inn að Lóninu og berjum steini í fjöruborðið. Eftir nokkrar sekúndur streyma stórþorskar að flæðarmálinu og ef við erum með beitu með, þá éta þorskarnir úr lófa fólksins og ég þarf varla að lýsa ánægju þeirra eftir þessa skemmtilegu heimsókn. Þannig að við Júlli höfum nokkur leynibrögð í erminni þegar hóparnir eru ekki á sjó.Grylukerti fyrir Spillinn

Mannlífið að öðru leiti er frábært á Suðureyri. Allir afslappaðir og rólegir. Nokkrir heimamenn eru óðum að veiða rauðmaga í net. Einn þeirra sem heitir Valli er búinn að fara tíu sinnum á sjóinn hér í firðinum og er búinn að fá 2000 rauðmaga sem er að hans sögn mjög góð veiði og sjaldan eða aldrei hefur veiðst annað eins af rauðmaga í Súgandafirði og er þá mikið sagt. Hinir sem eru líka á netum hafa fengið frá 150-250 rauðmaga í hverri vitjun og það má segja að það ríki hálfgert rauðmaga-gullæði á svæðinu í dag.

Óhætt er að segja að ég fíli mig vel á mínum heimaslóðum. Þekki marga hérna og er að kynnast hinum sem ég þekkti ekki
J
Er búinn að hitta Grétar frænda, Völu, Oddnýju og Ingólf og börnin þeirra og svo má ekki gleyma litlu systur minni og fjölskyldu í Bolungarvík. Núna er öldungamót í blaki á Vestfjörðum en leikið er á Ísafirði, Suðureyri og á Flateyri. Kíkti á nokkra leiki í kvöld í íþróttahúsinu og þar unnu Tálknfirðingar liðVopnfirðinga í kvennadeildinni. Kjartan Tor i hofninni

Læt þetta nægja að sinni. Hef því miður ekki haft mikinn tíma til að setja efni á heimasíðuna mína en bæti úr því hér með og sendi þetta bréf til vina og vandamanna með von um að sjá sem flesta hér í sumar
J Bið að heilsa öllum sem ég þekki og vonandi sjáumst við öll í sumar. Reikna með að skella mér í bæinn 17 maí en þá er Svartfuglaveislan hjá Hinu íslenska byssuvinafélagi og Herrifflakeppni sama dag. Maður má ekki missa af svoleiðis atburðum sem formaður félagsins J


Hafið það sem allra best. Ég er sáttur og glaður í vinnunni alla daga. Framunda er vonandi gott sumar og sól.

Kveðja frá Súgandafirði

Róbert Schmidt

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband