Færsluflokkur: Bloggar
30.9.2008 | 09:07
Valdatafl Frjálslyndaflokksins
Alveg er það makalaust með þessa stjórnmálaflokka. Þeir geta aldrei starfað í friði og án valdatafls ýmissa aðila sem þjakaðir eru af minnimáttarkennd. Jón Magnússon (Silfurrefurinn eða Matlock) hefur snúið fast uppá vinstri handlegg togaraskipstjórans Guðjóns A. sem á að heita formaður Frjálslyndaflokksins. Fantabragðið dugði til að koma Kidda Sleggju í skammarkrókinn enn eina ferðina og nú blasir við að Kiddi reimi á sig gaddaskóna, fari í regngallann og taki sér stöðu á ráslínunni, tilbúinn til að taka sprettinn yfir í næsta flokk. Kiddi talar alvöru vestfirsku eins og allir vita og ef hann er á annarri skoðun og flokksbræður sínir, þá hikar hann ekki við að þruma yfir lýðnum. Kannski er það hans helsti kostur og jafnframt hans helsti galli? Mér finnst Kiddi fínn og styð kallinn í þessum leiðindum.
Ég kaus Frjálslyndaflokkinn þegar hann var ferskur og kom sem kröftugt mótspil í íslensk stjórnmál á sínum tíma. Síðan þá hefur vandræðagangurinn í flokknum verið í meira lagi, nenni ekki einu sinni að rifja upp þá raunarsögu. En ég hef misst trúna á flokkinn og sérstaklega forustuna og það valdatafl sem sífellt er í gangi í brúnni hjá Adda Kitta Gau. Hann siglir nú alltaf undan vindi og tekur lensið þegar pusar á móti. Ólíkt þessum harðnagla hafsins sem áður fyrr var þekktur fyrir seiglu og útsjónarsemi. Nú er hann bara húðlatur útselur sem nennir ekki einu sinni að standa á sinni eigin sannfæringu og þá er nú fokið í flest.
Frjálslyndiflokkurinn er, að mínu mati, loftlaus físibelgur með of marga trilluskipstjóra í stað eins togaraskipstjóra. Samstaða Frjálslyndaflokksins líkist einna helst á mink í hænsnakofa. Flokkurinn nær sér aldrei aftur á strik eftir það sem á undan er gengið. Trúverðugleikinn er horfinn út í hafsauga þar sem múkkarnir rífa í sig slátrið. Tími flokksins er á enda og ég mun ekki framar leggja honum lið í framtíðinni, það er nokkuð ljóst.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 13:02
Rjúpnaveiðar í nóvember
Þótt gæsaveiðar séu skemmtilegar, þá eru rjúpnaveiðar allt öðruvísi. Miklu meiri hreyfing, mikil líkamleg áreynsla og svo að geta verið hátt upp til fjalla að vetrarlagi einn með sjálfum sér í leit að jólamatnum.
Ps. myndina tók ég um sl helgi í Skagafirði þegar ég var að koma heim af gæsaveiðum. Þá blasti við mér rjúpnahópur við kofann sem ég gisti í við Bakkaflöt. Greinilega orðnar nokkuð hvítar að sjá.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2008 | 13:12
Gæsaveiðar næstu daga
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2008 | 09:41
Mikil eftirsjá af Brúarskála
Nýr og nútímalegur Staðarskáli hefur nú risið miðja vegu í botni Hrútafjarðar og verður opnaður í næstu viku. Vissulega mun ég versla þar (og get ekki annað) en ég vona svo heitt og innilega að eitthvað af íbúum Hrútafjarðar og nágrennis fái störf þar til að skapa gott andrúmsloft á staðnum og hlýlegt viðmót. Það hefði verið snilldarhugmynd N1's að setja a.m.k. einn hlut frá Brúarskála og Staðarskála í nýja skálann sem virðingu við þessar byggingar sem fólkið í landinu hélt uppi í tugi ára. En eflaust verður þetta allt saman eins og úr Ikea-bæklingi, allt sterilæsað og ópersónulegt. En ég reikna nú með að þarna verði mikið stoppað og ég óttast að skálinn sé of lítill til að þjónusta alla þessa ferðalanga. Maður er stundum svartsýnn þegar maður er dapur en við skulum vona að maður jafni sig á þeirri óþægilegu staðreynd að Brúarskáli sé nú horfinn úr Hrútafirði.
Myndina af Brúarskálanum tók Guðmundur Albertsson.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 17:01
Fjör í réttunum í Hrútafirði
Ég ákvað að skella mér í réttir á Hvalsá um helgina þar sem Hrútfirðingar halda í hefðina og smala fé af fjalli og niður í nýja rétt sem var endur-smíðuð í fyrra. Veðrið var mjög leiðinlegt, suðaustan rigning og rok með hagléljum í bland og greina mátti snjó í efstu fjallstoppum. Það var því erfitt hlutskipti gangnamanna á fjalli að reka féð í slíku veðri. En þeir voru vel búnir og fóru ýmist á hestum, fjórhjólum og á tveimur jafnfljótum rólega en örugglega yfir. Mikill mannfjöldi beið við réttina eftir gangnamönnum og fénu sem skilaði sér á endanum niður í hólfið. Í réttarkofanum voru borðin hlaðin kökum og kræsingum sem konurnar höfðu bakað í tilefni dagsins. Það voru þreyttir og blautir smalamenn sem settust við borðin og hlóðu í sig næringu og heitt kaffi eftir amstur dagsins.
Eftir kaffið var farið út í réttina og dregið í hólfin. Börnin hlupu þar um og kepptust við að draga. Þarna heilsuðust margir sem rifjuðu upp gömul kynni. Ef veðrið hefði ekki verið svona blautt, þá hefði stemningin verið skemmtilegri en það má alltaf búast við suðaustan leiðindum á þessum árstíma. Ég setti 90 myndir í sérstakt myndaalbúm merkt Hvalsárréttir 2008 í myndasafninu á forsíðunni. Njótið vel
Efsta mynd: Hannes Hilmarsson bóndi á Kolbeinsá heilsar skólabróður sínum frá Reykjum, Magnúsi Hinrikssyni.
Miðjumynd: Berglind dóttir mín með lamb í Hvalsárrétt.
Neðsta mynd: Séð yfir Hvalsárréttina þar sem fénu er smalað inn.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2008 | 12:50
Sætur sigur á United
Reynir bróðir bauð okkur feðgum í Púlarapartý sl laugardag en þá áttust við erkifjendurnir Liverpool og Manchester United á Anfield. Andrés bróðir mætti líka á Kjalarnesið íklæddur réttum búningi enda eru allir Smittararnir Liverpool-fan. Ekki byrjaði leikurinn vel því United skoraði fyrsta markið og það var bölvað vinstri hægri. En með jöfnunarmarkinu tókum við gleðina á ný. Babbel skoraði svo úrslitamarkið fyrir Liverpool og innsiglaði kærkominn sigur á United og nú erum við efstir í deildinni við hlið Chealsea.
Reynir grillaði síðan hamborgara á línuna í bílskúrnum og það var hraustlega tekið til matar. Við höfum lengi vel verið á leið í Liverpool-ferð við bræðurnir og feðgar og vonandi rætist úr þeirri ósk í vetur eða eftir áramótin. Hver veit!
Á myndinni eru f.v. Reynir bróðir, Arnór sonur minn, ég sjálfur og Andrés bróðir og Róbert jr sonur minn liggur á okkur. Myndina tók frænka mín Margrét Silfa Schmidt.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2008 | 11:31
Endalaus veiði
Læt hér fylgja með nokkrar myndir frá liðinni viku. Meira síðar
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2008 | 14:28
Feðgar á gæsaveiðum
Strákarnir voru bara hressir en þeir hafa nokkrum sinnum farið með mér á gæsaveiðar og síðast í Hrútafjörðinn í fyrra en þá náðum við 3 gæsum. En lítið bólaði á flugi þennan morgun. Við biðum í skurðinum eftir morgunfluginu og sáum að flestar gæsirnar flugu uppí berjamóa í staðinn fyrir að heimsækja okkur og byssurnar. Sniðugar gæsir!
Þrátt fyrir lítið flug þennan morgun, þá kom þó yfir okkur hópur gæsa sem við nýttum vel. Annar hópur kom stuttu síðar og afraksturinn voru 6 grágæsir sem við vorum mjög sáttir með. Veðrið var að lagast en strekkingsvindur varði áfram. Ef við hefðum hangið í skurðinum frameftir degi, þá hefðum við fengið á okkur helling af "seinnipartsgæs" eins og maður kallar þær þegar fuglinn kemur inn á túnin nokkrum tímum fyrir myrkur.
Arnór svaf báðar leiðirnar og Róbert jr líka. Það má segja að þetta hafi verið þægileg ferð og hæfilega veitt hjá okkur feðgum. Og það sem mestu skiptir, er að við vorum saman að gera eitthvað skemmtilegt sem skilur eftir sig minningar um góðan morgun á veiðum. Ég vona svo innilega að fleiri svona dagar eigi eftir að koma því það er fátt skemmtilegra en að veiða með sonum sínum. Læt hér fylgja nokkrar myndir úr túrnum okkar.
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 11:33
Mammamia
90% bíógesta voru kvenkyns en mér var alveg sama. Lögin voru góð og rifjuðu upp góða tíma í huganum. Meryl gamla Streep átti stórleik og ótrúlegt hvað konan var létt á fæti, rétt eins og tvítug sveitastelpa í heyskap hoppaði hún um og ótrúlegt að konan sé komin á sextugsaldurinn (ef það er rétt). James Bond fékk mig til að skellihlæja þegar hann hóf raust sína með hálf kraftlausum söng en þetta átti að vera skemmtun og sú tilraun tókst í alla stað vel. Gömlu vinkonurnar voru hrikalega fyndnar og gerðu óspart grín af sjálfum sér. Ég mæli með þessari mynd fyrir alla sem hafa gaman af músík og fjöri. Hefði ekkert á móti því að skella mér í Háskólabíó þar sem vel er tekið á því í kvöld en kannski seinna.
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2008 | 14:52
Hraðferð á heiðagæs
Þegar af malbikinu var komið tók við jeppatroðningur sem var ansi lélegur á köflum. Þoka var á heiðinni, rigning og rok. Hvert í andskotanum er ég nú að fara,- hugsaði ég með mér þar sem ég vaggaði ofurhægt inní þokuna í einskinsmannsland. Skyldi ég finna heiðagæsatjörn eða árfarveg þar sem fuglinn kemur í náttstað? Þetta gat í raun farið á báða bóga en líklegt var að uppskeran yrði dræm. Því veiðimenn þurfa að kanna veiðilendur til heiða í langan tíma áður en farið er á veiðar. Finna hentugar tjarnir og helst á þeim stað sem engin hefur veitt sl daga. Þegar degi tók að halla fann ég eina góða drullutjörn á heiðinni í gegnum þokuna. Eitthvað var af skít á sandinum og fjaðrir víða í kringum tjörnina. Eins sá ég talvert af mannasporum sem sagði mér að þarna væri líklega búið að skjóta sl daga.
En valið var ekki erfitt. Þetta var það skásta sem í stöðunni var og ég stillti upp flotgæsum og settist á stein við tjörnina og beið klár í slaginn. Byssan fullhlaðinn, flauturnar um hálsinn og vasarnir fullir af skotum. Nú var bara að bíða eftir fuglinum og sjá hvort hann kæmi inn í færi. Um kl 21.30 kom fyrsti hópurinn inn á tjörnina og á móti vindinum eins og ég vissi. Það féllu 4 gæsir úr því flugi og ég var ánægður með það. Næsta flug kom skömmu síðar og þótt sá hópur væri lítill (10 fuglar) var hann þéttur og eftir skothríðina féllu 6 gæsir á tjörnina. Þegar ég var að sækja gæsirnar komu tvö önnur flug inn en ég náði því miður ekki að koma skoti á þá þar sem hendur mínar voru uppteknar við gæsaburð.
Nú var farið að rökkva heldur betur og varla skotbjart. Nú er þetta komið fínt,- sagði ég við sjálfan mig og hugðist pakka saman. Þá kom annað flug inn og ég flautaði þær beint á mig, tók eina niður og svo þegar þær tóku annan hring féllu 3 gæsir á tjörnina. 14 heiðagæsir lágu eftir ca 30 mín veiði en það er þessi venjulegi tími sem maður fær á heiðagæsina. Ég var að vonum rosalega ánægður með mína flugeldasýningu á minni eigin Menningarnótt upp til heiða. Keyrði svo heim eftir vel heppnaðan veiðitúr sem var farinn uppá von og óvon. En nú veit ég amk af einni góðri tjörn sem gefur kannski aftur vel á næstu vikum.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)