Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Minnihlutahópur mótmælir reykingarbanni

Hvað er þetta með þessa kráareigendur í miðbænum! Nú vilja þeir hunsa reykingarbannið í 29mótmælaskyni við léleg lög. Tíu til fimmtán kráareigendur leyfðu reykingar á sínum krám í gær sem er vissulega lögbrot. Samt eru þeir fylgjandi reykingarbanninu. “Refsiákvæði vatnar og skortur á úrræðum fyrir kráareigendur til að koma upp reykingaaðstöðu,“ - segir Kormákur Geirharðsson, sem oft mótmælir hinu og þessu í fjölmiðlum, líklega til að vekja athygli á sínu fyrirtæki. Í könnun sem Gallup gerði 2006 kemur skýrt fram að þrír af hverjum fjórum eru hlynntir reykingarbanni á veitingahúsum og kaffihúsum. Fleiri kannanir sýna t.d. að 73% er hlynnt banninu.

Á að leyfa einhverjum minnihluta að valta yfir reykingarbannið með kráareigendum í broddi no-smokingfylkingar? Og til hvers? Jú, svo reksturinn gangi hjá þeim. Fyrir það fyrsta eru kráareigendur að brjóta lög gegn starfsmönnum sínum. Það er ekkert verið að hugsa um krabbameinsvaldandi sígarettureyk sem reyklausir gestir og starfsmenn þurfa að anda ofaní sig. Þetta eru máttlaus mótmæli minnihlutahóps sem vill ekki virða þau lög og reglur sem sett hafa verið á víða um heiminn. Enn og aftur þurfa minnihlutamótmælendur að traðka á réttindum fólks. Það á ekki að hlusta á svona rökfærslur. Mér sýnist lögin vera ágætlega skýr.


Kráareigendur bera því við að þeir geti ekki hugsað sér að senda reykingagesti sína út í óveður og passive-smoking-babysnjókomu að ótta við að missa viðskipti. Nákvæmlega. Þarna er verið að gæta hagsmuna fárra knæpueigenda og brjóta þess vegna vísvitandi á fólki sem vill tylla sér með einn ískaldann eða kaffi án þess að anda ofaní sig sígarettureyk. Ég held að flest reykingarfólk viti uppá sig skömmina sem fylgir reykingum. Bölvaður sóðaskapur og það ekkert sem mælir með reykingum. En það er virðingarvert þegar fólk tekur tillit til þeirra sem ekki reykja og sérstaklega barna. Að reykja ofan í barnið sitt og önnur börn er ófyrirgefanlegt og algjör forheimska að mínu viti. Sjálfur reykti ég til tvítugs og hef því verið reyklaus í tæp 23 ár. Drap bara í og fór létt með það. Viljinn er allt sem þarf.

http://www.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/tobak/nr/2050
  

Góðar stundir

Púkalífið fyrir vestan

Sem innfæddur Súgfirðingur ólst ég upp í faðmi hárra fjalla og í návist hafsins. Fjörðurinn var þröngur og langur. Afskektur yfir vetrartímann en galopinn á sumrin. Frjálsir sprikluðum við púkarnir um milli fjalls og fjöru. Þar var engin staður sem við þekktum ekki. Sumrin voru ævintýri frá morgni til kvölds. vest_woodForeldrar höfðu engar áhyggjur. Við átum súrblöðkur, hundasúrur, rabarbara og stolinn harðfisk, svona rétt til að fá næringu á milli Tarzan-leikjanna. Við hlóðum birgi úr grjóti í hlíðinni fyrir ofan þorpið. Ómurinn frá höfninni og vinnandi fólki barst fjörðinn. Á meðan lékum við um grundirnar og nutum þess að vera frjálsir púkar og heimurinn blasti við okkur. Við gátum allt, við vorum allir hetjur með kústsköft og teygjubyssur, málaðir í framan með hrafnsfjaðrir í höfuðbandinu og létum öllum illum látum eins og sannir indíánar gerðu í John Wayne myndunum. Kúrekarnir skutu indíánana af hestunum, því þeir voru  vondir og grimmir. Þannig var þetta matreitt af hvíta tjaldinu ofaní okkur púkana. En ég man nú samt hvað við vorum allir indíána-hollir enda var miklu meira gaman að mála stríðsmálningu á sig og skreyta fatagarmana með fjöðrum og glingri.

Eftir skóla var skólatöskunni hent inní gang eða garð hjá næsta vini og hlaupið út í lífið. Ekki mátti missa af neinu. Við smíðuðum fleka úr timbri og einangrunarplasti, ruddum þeim yfir fjörugrjótið og út í sjó. Rérum stoltir meðfram ströndinni, frjálsari en fyrr og nú komnir í alvöru sjóræningjaleiki. Flekarnir voru frekar valtir og óþéttir. Þessu var reyndar ekki vel tekið af körlunum sem unnu við höfnina. Þá voru engin björgunarvesti í boði. Flekaævintýrið stóð yfir í nokkur sumur ef ég man rétt. Og það endaði þegar tveir púkar á fleka bárust með straumnum inn fjörðinn að gömlu sundlauginni eða í um 4 km frá þorpinu. Þá voru naglarnir teknir af okkur og við skammaðir.

Veturnir voru oft harðir og snjóamiklir. Húsin fóru á kaf og færðin um þorpið var bílum erfið. Aðalmaðurinn var hann Gaui á jarðýtunni. Gaui ýtti snjónum í stór fjöll hist og hér. Það hristist úr Jeppikaffibollum þegar jarðýtan skrölti Eyrargötuna og Aðalgötuna. Snjófjöllin urðu að leikvelli um leið. Eins og merðir grófum við göng og hús um þessa hóla, gerðum virki og börðum okkur á brjóst. Eitt lið niðri og eitt lið uppi. Árás. Gaui var ekki öfundsverður á ýtunni. Þegar við heyrðum ýtuna nálgast með látum, þustum við út um öll göt á hólnum eins og minkar úr stórgrýti á flótta undan eldi. Gaui kallinn þurrkaði af sér svitann, steig út á stálbeltið og gargaði til okkar. Það hefði verið hræðilegt ef jarðýtan hefði rutt hólnum til með okkur púkana inni. Þá værum við fæstir á lífi í dag, geri ég ráð fyrir.  

Afi minn, sem málaði húsin í þorpinu á sumrin, sagði mér seinna meir að einangrunin og hin harða lífsbarátta í þessu litla samfélagi herti okkur öll upp og fyrir vikið værum við andlega og líkamlega sterkari þegar út í lífið kæmi. Afi sagði satt. Það voru forréttindi að fá að alast upp fyrir vestan. Hinir hörðu og myrkvuðu vetrarmánuðir, sem voru að vísu erfiðir, tóku sinn toll. Þá voru engin jarðgöng. Oft þurfti varðskip til að koma nauðsynjavörum til þorpsins þegar heiðin var á kafi svo vikum skipti. Snjóbíllinn gerði það líka. Hann sótti lækni og flutti sjúka. Svo þegar fyrstu sólargeislarnir brutu sér leið í gegnum skýin í vetrarstillunum, var gott að standa í snjónum og finna varmann frá sólinni.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Einangrunin er nú lítil sem engin í Súgandafirði. Gatið breytti mörgu. Eða eins og Siggi Ísmaður sagði forðum; “Við værum illa settir ef ekkert gatið væri.” Já, það má Batarskilja þetta á ýmsa vegu en nokkuð til í þessu hjá kallinum. Ég horfi oft um öxl og hverf í huganum heim í fjörðinn minn. Æskuminningarnar svífa þar um, fjöllin eru á sínum stað, skerið og Gölturinn stendur hrapandi brattur í fjarðarminninu. Hvítur skarfakletturinn undir Galtarbænum, sandströndin á Norðureyri, Selárdalurinn, Staðardalurinn og Sauðanesið. Allt á sínum stað og fer ekkert í bráð. Fólkið kemur og fer en fjörðurinn fer ekkert. Ég er ekki frá því að einangrunin fyrir vestan hafi hert mann meira en maður bjóst við. En eitt er víst að það sem hertist mest var étið og hélt lífinu í okkur púkunum. Harðfiskurinn er bestur fyrir vestan.

Góðar stundir

Flottasta grettan...!

Það hefur lengi tíðkast að fólk gretti sig og geifli. Stundum vegna óþefs og stundum vegna óbragðs en 0062oftast til að koma náunganum til að brosa. Sjálfur gretti ég mig oft þegar ég er búinn með nokkra bjóra með strákunum. Mannfólkið er misjafnlega úr garði gert og á meðan aðrir reyna að gretta sig þurfa aðrir bara að breyta um svip.

Myndin sem ég tók af Arnfirðingunum, Þresti Leó Gunnarssyni og Viðari Ástvaldssyni, sl sumar á hátíðinni Bíldudals grænar baunir, sýnir glöggt að Þröstur er ótrúlega eðlilega ljótur á myndinni eins og hann er nú jafna myndarlegur drengur svona dagsdaglega. Ég held að hann eigi flottustu grettu Íslands! Hann fær ***** stjörnur frá mér, engin spurning.

Hláturinn lengir lífið en gretturnar lifa lengur...!

Góðar stundir

52 dagar í helvíti

Fyrir hart nær 12 árum er ég ákvað að yfirgefa mitt fæðingarþorp og fjörðinn minn fallega fór ég í sugandafj-25583höfuðborgina og beint á sjóinn. Alla leið í Barentshafið, kolsvarta og botnlausa helvítið, sem var í tísku þá. Ég man vel hvað mér kveið fyrir stíminu sem tók 4-5 sólahringa. Ég tók með mér sjógallann og teikniblokkina, undirbúinn fyrir útlegðina miklu sem gæti tekið 40 daga. Skítt með það, allt eins gott að vagga í myrkri úthafsins og stíga öldurnar, heldur en að lepja dauðann úr skel í borginni. Það var eins og ég óttaðist borgina og leitaði því á mið sem ég þekkti, ískaldan sjóinn, ferska loftið og múkkagargið.

Sjóveikin stökk á mig eins og draugur úr kojunni strax á fyrsta degi. Ælan sat á öxlinni og beið færis. Olíufnykurinn lagði um vistarverur. Í þessum stáltanki var ég læstur inni næsta einn og hálfan mánuð og tankurinn vaggaði vinstri hægri. Erfitt var að finna taktinn með æluna í kokinu. Hvítur, grænn og blár. Skipti engu, ælan beið glottandi á öxlinni. En ég vissi að maturinn yrði að fara niður þrátt fyrir ólystina. Á fimmta degi var hörundslitur minn orðinn nokkurn veginn eðlilegur, grísableikur og flekkóttur. Eyjólfur var að hressast! Ég virti fyrir mér alla karlana. Þeir áttu hver sína kaffikönnu og sæti í messanum. Horfðu tilfinningalausir og grútmyglaðir niður í græna borðdúkinn sem hélt súpudisknum kyrrum. En súpan hallaðist útfyrir, andskotans helvítis djöfuls bræluskítur alltaf hreint.

Kojan mín var ósköp þröng og stutt. Samt nógu stór fyrir svona strikamerki eins og mig. Kojurnar braelavoru hannaðar sérstaklega með það í huga að skipverjar gætu skorðað sig í miklum veltingi, með annað hnéð uppí vegginn, samt á maganum með vinstri höndina meðfram síðunni, eða í svokallaðri læstri stellingu. Það var alltaf djöfull gott að skríða uppí kojuna eftir vaktina. Kojan var besti vinurinn. Hún geymdi gleði og sorg, ruggaði mér í svefninn þegar ég hugsaði heim. Hún var mitt ruggandi rúm í stórum stáltanki með niðdjúpt hafið allt í kring. Og koddinn var bangsinn minn sem ég hélt fast um eins og lítið barn gerir ósjálfrátt.

En dagarnir liðuog veiðin var lítil. Ég náði að safna kröftum á meðan og borðaði vel. Það var aldrei skortur á mat og heldur ekki skortur á heimþrá. En samt náði ég að aðlagast Smugulífinu eins og hinir karlarnir. Teikniblokkin hjálpaði mér að finna gleðina og veitti hinum ókeypis bros. Jú, það var skemmtilegt að sjá félagana hópast saman í messanum yfir nýjasta fórnarlambinu. Nú var það kokkurinn. Þeir hlógu eins og brjálæðingar, hengdu teikninguna upp og glottu stríðnislega þegar hann kom kjagandi. En þegar fleiri skopmyndir bættust á vegginn, kveið hinum fyrir þegar röðin kæmi að þeim. Einn reif myndina af sér og henti henni í ruslið. Ég teiknaði þá bara nýja. Frívaktirnar fóru oft í að sitja í kojunni og afmynda og ýkja vinnufélaga mína. Elsti bróðir minn, Dóri, var í næsta klefa. Hann kom alltaf inn brosandi og spurði " Robbi, hver er næstur?" "Leyfðu mér að sjá, ég skal lofa að segja engum frá"

Þótt skopmyndirnar léttu okkur lundina af og til, var myrkrið úti bleksvart og kalt. Ljóstýrur frá hafidöðrum skipum í grennd sagði okkur að fleiri væru fastir í helgreipum úthafsins og langur vegur heim. Okkur barst frétt um skipverja á ónefndum togara sem kaus að enda líf sitt í norðuríshafinu. Hann stökk út í myrkrið og hafið tók hann samstundis, hann króknaði, sökk niður í undirdjúpið sem enginn þekkir nema drukknaðir menn og fiskarnir sem þar synda. Hann þoldi ekki einangrunina og steig út í eilífðina, kvaddi þetta samfélag skipa og fiska ungur að aldri. Okkur var brugðið og við vorum þöglir.

Flestir hugsuðu stíft heim, hugsuðu um börnin sín og konur. Þeir söknuðu þeirra sárt. Tilfinningar brustu á koddanum og tár drekkhlaðin af sorg runnu niður kinnar á skeggjuðum hraustmennum. Jaxlarnir gnístu í gegnum sársaukann og krepptir hnefarnir hvítnuðu í ljóslausri kojunni. Þeim langar öllum heim. Helvítis myrkrið endalausa. Við komumst ekkert. Engin vissi hvort það var nótt eða dagur. Þeir sem hringdu heim í gegnum talstöðina urðu bara aumari og reiðari. Aðrir hugsuðu bara um að vinna og dreifðu huganum um vistarverurnar. Þær týnast í stiganum og sogast upp í brú, útum gluggann þar sem skipstjórinn situr grár í framan. Hann hugsar bara um fisk og aftur fisk. "Helvítis hákarlar. Þeir eru verðlausir. Hendið þeim í hafið," gargaði hann í gegnum kallkerfið. 

Aflaleysið ýtti skipinu heim. Bjarga átti túrnum með nokkrum hölum á Halamiðum. Okkur fannst myrkrið ekki eins svart fyrir utan Vestfirði. Kannski vegna þess að stutt var í land. Við vorum lausir úr vistinni ógurlegu. Létt var yfir mönnum enda vanir að vinna alla vaktirnar sínar, því þá gleymdu þeirhornbjargsviti sorginni og heimþránni. Sofnuðu þreyttir á koddann. Skopmyndirnar héngu allar í messanum og Grétar hagyrðingur hafði skreytt þær með vísum um skipverjana. Það var sem sagt myndlistarsýning í Smugunni, hvað sem hver segir. Menn brostu meira. Túrinn var á enda. Landstím á morgun. Fréttin var fljót um alla stiga, uppí allar kojur og niður í vél. Það var þrifið með burstum og sjó, tónlistin hljómaði um skipið sem skreið örugglega að landi. Rakspírailmurinn sveif um dekkið þar sem nokkrir skipverjar stóðu og skimuðu eftir fjöllum og tindum. Með ferskan vindinn í fangið reyktu þeir síðustu sígaretturnar. Helvítis eymdin þarna í íshafinu. 52 dagar í helvíti.

Það tók ekki nemaörfáar mínútur að pakka sér niður. Sjópokinn, tannburstinn og blýanturinn. Teikniblokkin var tóm. Blöðin hennar prýddi messann og kokkurinn flautaði lag. Skipverjarnir bundu skipið tryggilega. Gramsið var borið niður landganginn og á kajanum biðu konurnar en sumar voru í vinnunni. Aðrir þurftu að fljúga suður eða norður til síns heima. Menn brostu. Landfastir með sjóriðu hélt hver í sína átt.  Túrnum var lokið. Hann var kannski ekki svo slæmur eftir allt. En það er fátt sem mælir með Smugulífinu, það verð ég að segja.

Góðar stundir 

Á byrjunarreit

Það hefur stundum komið fyrir að Vottar Jehova banka á dyrnar hjá mér. Ég, sem ekki er mjög trúaður, hef nú samt gaman að hlusta á Vottana en samt ekki mikið lengur en ég þarf. Ég var að horfa á spennandi fótboltaleik í sjónvarpinu þennan laugardag þegar bankið kom. Eins og byssubrandur þaut ég til dyra og þar stór hann Bjarni með leðurtöskuna sína troðfulla af blómabæklingum um biblíufræði. Við hlið hans stóð miðaldra kona og virkaði mjög róleg og afslöppuð eins og Bjarni gerði líka. Ég hef áður spjallað við þennan Bjarna og ákvað að eyða nokkrum mínútum í dyragættinni í rökræður um bókstaf biblíunnar.

Eftir fáeinar mínútur sagði ég við Vottana að ég trúi ekki á guð. Bjarni brosti og sagði með silkimjúkri röddu sinni,- "Nú, þá ertu á byrjunarreit vinur minn." Já, það getur vel verið,- sagði ég. Biblían er ekkert heilög ritning fyrir mér. Það eru trúarstríð víða um veröldina og allir telja sinn guð rq013mestan og bestan. Allir eru að predika og breiða út fagnaðarerindin. Hvað eru margir Vottar á Íslandi? - spyr ég. Jú, þeir eru í kringum 600 var svarið. Og hvers vegna eru svona fáir í ykkar röðum? - spyr ég og virðist vera kominn í hlutverk þeirra sem stóðu á teppinu fyrir framan mig. Svörin sem ég fékk voru ekki naglföst né til þess að ganga til liðs við Vottana og vera nr 601. Án þess að sýna ókurteisi, þá benti ég Bjarna og þessari ágætu konu (gæti vel verið konan hans Bjarna) að ég trúi á kærleikan og hið góða í manninum og bætti við. Mér finnst að fólk almennt, sérstaklega foreldrar ættu að gefa börnunum sínum meiri tíma í uppeldinu, kenna þeim muninn á réttu og röngu, byggja góðan grunn fyrir þau út í lífið og vera stolt af þeim, hrósa þeim og elska. Það skiptir öllu máli í mínu lífi og vonandi allra foreldra. Jú, þau voru hjartanlega sammála mér Vottarnir og kinkuðu ákaft kolli til samþykkis.

Hvað ætli séu margir trúflokkar á Íslandi? -spyr ég Vottana. "Líklega 20," segir Bjarni. Jamm, og á að láta undan þeirra kröfum um að byggja hér alls kyns hof og kirkjur svo þetta fólk geti tilbeðið guð sinn? -spyr ég aftur. Svarið var á þann veg að betra væri nú að hafa eina trú og ef sá sem syndgar rq000játar syndir sínar, öðlist hann eilíft líf.  Já, sæll. Spurning um að nota tækifærið og viðurkenna nokkrar syndir og málið er leyst!! Hmm...ne, ekki alveg. En ég spurði aftur - haldið þið að Íslendingar fengju að reisa kirkju í Jerúsalem eða Róm? "Nei, varla," svörðuð Vottarnir og brostu blíðlega. Nei, ég þóttist nú vita það líka. Bjarni opnaði leðurtöskuna sína og tók upp fagurskreytt hefti sem ég kannaðist við. Blómum skreytt með biblíumyndum vinstri hægri. Hann fletti heftinu og ég sagði við sjálfan mig "Æ, ég tek ekki við fleiri heftum. Þau fara alltaf beint í ruslafötuna. En hvað ætli prentunin hafa kostað"



Samtalið stóð yfir í rúmar 20 mín og ég heyrði á bakvið mig að það var verið að skora mark. Andsk....! Jæja, ég held að það þurfi ekkert að upplýsa mig meira af trúarbrögðum en ég hef nú þegar kynnt mér. "Þannig að ég óska ykkur góðrar helgi og vona að ykkur farnist vel í framtíðinni," sagði ég og kvaddi með kurteisi enda engin ástæða til annars. Vottarnir voru bara í sinni yfirferð og ekki vottaði fyrir yfirgangi nema kannski einna helst það, að við útidyrnar var skilti sem á stóð; Öll kynningarstarfsemi og sala er bönnuð í húsinu. En ég fyrirgef þeim það auðveldlega. Missti bara af einu marki og 20 mínútum af leiknum. Ekkert stórmál.

En þegar ég settist aftur í sófann, hugsaði ég að það er kannski ekkert slæmt að fá Vottana í 470_liverpool_shorey1_470x300heimsókn fyrst þeir voru svona rólegir og kurteisir. Innihald boðskapsins var ekkert annað en kækleikur og það er nákvæmlega það sem við þurfum öll á að halda. En þetta með játningu syndanna og eilíft líf.....ne, kaupi það ekki frekar en Campari. En hvað varðar leikinn, þá var ég alveg á byrjunarreit.

Góðar stundir


Alvöru sviðakjammi...!

 Framundan er hið árlega þorrablót Súgfirðingafélagsins í Reykjavík og sýnist mér að uppselt verði á blótið samkvæmt síðustu tölum. Súgfirðingar hafa alla tíð verið samheldnir og glaðir í góðra vina hópi. Ég ætla meira að segja að bjóða Berglindi dóttur minni með en hún hefur ekki farið á Súgfirðingablót áður sem vonandi verður skemmtilegt. Ég er svo sem ekki mikið fyrir þennan hefðbundna þorramat þ.e.a.s. svidsúrmatinn. Get vel borðað allt sem ekki er súrt og útmigið eða úldið. Sviðin eru góð og það minnir mig á eitt þorrablót heima á Suðureyri en þar koma allir með sitt trog og viskastykki yfir til að hylja góðgætið. Ég hafði veitt mitt fyrsta hreindýr haustið áður og ákvað að taka hreindýrshausinn vestur og svíða. Það tók langan tíma fyrir Leifa Nogga að svíða hausinn stóra sem var af 3ja vetra tarfi. Leifi var alvanur að svíða hausa en þetta var sá stærsti og seigasti, að hans sögn. Hann hélt í hornin og loginn frá gasstútnum sveið hreindýrshausinn af krafti en vegna hversu hreindýrshárin eru þétt, tók aðgerðin vel á annan klukkutíma.

Við Leifi söguðum svo hausinn í tvennt og hann glotti yfir þessum rosalega sviðakjamma sem var líklegast eins og fjórir eða fimm venjulegir kindahausar. Þegjandi samkomulag var á milli okkar Leifa að leka þessu ekki út því ég ætlaði á þorrablótið með stóra sviðahausinn og ekkert kjaftæði. Ég var mjög spenntur þegar ég gekk inní salinn með trogið mitt sem var að venju hulið köflóttu viskastykki. Tíminn leið og menn ræddu saman yfir langborðin og þá var hver og einn með sitt Brennivín, Vodka og bjór. Þegar fólk tók til matar, voru viskastykkin fjarlægð ofan af trogunum og kjammarnir, sulturnar, hákarlinn og harðfiskurinn blasti við með hrútspungum og lundaböggum allt um kring. Ég gleymi ekki svipnum á sessunautum mínum þegar ég tók minn sviðakjamma í hendurnar! Augun störðu á mig og hökurnar sigu niður á bringu. “Hver andskotin, hverslags djöfulsins sviðakjammi er þetta?” var baunað á mig í gríð og erg. “Hva, þetta er bara ósköp venjulegur sviðahaus nema hann er örlítið stærri en ykkar. Af hverju eru ykkar svona svakalega litlir?” -spurði ég og þóttist ekkert skilja í þessu. En svo varð ég að segja sannleikan og ég held að þetta hafi verið fyrsti og eini hreindýrssviðakjammi sem hefur verið étinn á þorrablóti á Suðureyri og hann smakkaðist frábærlega.

Mæli með hreindýrasviðum. Engin spurning.

Góðar stundir

Brúðguminn, frábær skemmtun

Brúðguminn er hreint út sagt frábær kvikmynd sem ég mæli með að sem flestir sjái til að upplifa ósvikna skemmtun og boðskap sem þessi mynd bíður uppá. Að mínu mati langbesta íslenska kvikmyndin sem ég hef séð fyrr og síðar. Allir leikararnir skila sínu hlutverki með sóma, hver og einn einasti. Hilmir1388099471_9ed136380b Snær, Margrét V, Þröstur Leó, Ólafur Darri, Jóhann Sig, Ólafía Hrönn, Ilmur Kristjáns, Laufey E og Ólafur Egill prestur; einvalið lið sem Baltasar stýrir af stakri snilld. Tónlistin er líka góð og hljóðið í myndinni er með því besta sem gerist í íslenskri kvikmynd. Íslenska náttúran í Flatey er svo rosalega falleg að manni langar hreinlega að hlaupa út í sumarið...en því miður, þá er harður vetur úti í dag.


Reyndar fannst mér þrír leikarar vera í þannig hlutverkum að ég gat ekki annað en grátið tárum af hlátri þegar þeir birtust á tjaldinu. Það eru þeir Þröstur Leó, Ólafur Darri og Jóhann Sig. Ólafía Hrönn var einnig frábær. Þröstur Leó á stjörnuleik og það sýnir okkur að hann er jafnvígur á drama og grín. Hann er þessi púki frá litlu sjávarþorpi og hlutverkið sniðið fyrir hann. Ólafur Darri á svakalega spretti í myndinni.

Á eftirfarandi slóð er hægt að lesa frásögn og myndir um dvöl leikara og kvikmyndatökuliðs í Flatey. Ég gef myndinni 5 stjörnur af 5 mögulegum. Drífa sig í bíó...í hvelli.
 http://flateyjarblogg.blog.is/blog/flateyjarblogg/

Góðar stundir

Skopmyndir.com

Svo maður nýti sér nú síðuna, þá bendi ég lesendum á að þeir geta kíkt inná aðra heimasíðu sem ég er Stjanimeð í gangi sem er www.skopmyndir.com Þar getur fólk séð sýnishorn af nokkrum teikningum sem ég hef verið að krassa í gegnum árin. Ágætt fyrir þá sem vantar hugmyndi af t.d. afmælisgjöf, útskriftargjöf, brúðkaupsgjöf eða hverju sem er. Læt þetta duga að sinni um þá ágætu síðu.

Góðar stundir

Schmidt & Gestsson

  Hvar er húfan mín, hvar er...
Síðasta veiðiferðin mín fyrir áramótin 2007 var ansi skemmtileg. Ég hafði samband við Bolvíkinginn og vin minn til margra ára, Pálma Gestsson, og bauð honum á andaveiðar daginn fyrir Gamlársdag. “Jú, askoti væri það nú gaman en ég verð að vera kominn heim fyrir áramótin,” sagði Pálmi hress að vanda. Það er nokkuð langur tími frá því við vinirnir fórum saman síðast og nú skyldi rifja upp gamla takta og sjá hvort Pálmi og Kasper hefðu einhverju gleymt. Pálmi þurfti reyndar að kafa dálítið niður í hauginn sinn til Palmi og Kasperað finna þann veiðibúnað sem til þurfti og þegar ég stóð á hlaðinu snemma morguns rifjaðist upp fyrir mér hversu skemmtilega óskipulagður kallinn getur verið. “Heyrðu Robbi, ég finn bara annan vettlinginn og svo er ég bara með sitthvora gerðina af legghlífum. Duga ekki bara góð rjúpnaskot á endurnar, því ég er með þau í beltinu?,” sagði Pálmi og ég brosti. Já, þarna er sá gamli og hefur ekkert breyst sem betur fer. Minnir mig alltaf á ræningjana í Kardemomubænum forðum. -Hvar er húfan mín og allt það! Ég hló stundum mikið þegar við veiddum rjúpur saman fyrir nokkrum árum í Húsafelli. Þá átti hann svo mikið af gps staðsetningartækjum til að villast ekki á fjöllum að hann gleymdi þeim hér og þar og stundum fann hann ekkert og stundum var hann allt í einu með tvö eða þrjú tæki á hlaðinu og sagði “Jæja, við ættum a.m.k. að rata í helvítis bílinn”.

Arkað með aukakílóin
Kasper kom út og fagnaði mér ákaft. Nokkrum kílóum þyngri er ég sá hann síðast. Alveg eins og eigandinn. Einstakur hundur á allan máta og mikill vinur. Á fyrri árum stökk hann eins og höfrungur út í öll vötn og ár og sótti nýskotnar endur eða gæsir. Orkan geislaði af Kasper hvert sem hann fór. En árin færast yfir og nú er hann orðinn 12 ára ef ég man rétt. Svo ókum við af stað glaðbeittir og rifjuðum upp margar veiðiferðir alla leiðina í A-Landeyjar og hlógum mikið. Úti var mikið frost en veður stillt. Tilvalið fyrir andaveiðar meðfram skurðum þar sem lækir og litlar ár renna. Það átti bara að taka nokkrar í soðið, eins og sagt er enda spilast svona ferðir meira útá félagsskapinn og útiveruna nú til dags. Annað sem áður var þegar við sváfum ekki fyrir veiðiáhuga! Nokkuð var af önd á svæðinu og sem betur fer lágu ekki allar í fyrstu atrennu. Kasper sýndi gamla takta og stökk út í grunna á og sótti stokkönd og færði húsbónda sínum stoltur með dillandi rófuna. “Mikið djöfull er þetta gaman Robbi,” sagði Pálmi og ég sá að hann var ekkert að skrökva því. Kasper fylgdi okkur hvert fótmál og hlýddi því sem hann átti að gera enda kunni hann þetta allt blessaður.

35 kg með gemsa
Í kaffihléinu gæddum við okkur á heitreyktri gæs og súkkulaði. Fínt að hvíla sig aðeins eftir allt labbið. Þá var Kasper orðinn dálítið þreyttur. Pálmi lyfti honum upp á bílpallinn og klappaði honum á bakið. “Já, IMG_0732kallinn minn. Við erum báðir farnir að eldast og þyngjast.” Pálmi kvartaði eilítið yfir verk í annarri mjöðminni og haltraði. Ég skaut því að honum að þeir væru báðir með mjaðmalos, vel yfir kjörþyngd og gamlir. “Já, þú getur rifið kjaft hálfsköllóttur og ekki nema 35 kg með gemsa” var svarið sem ég fékk á móti og við hlógum báðir. Við lukum svo hringnum áfallalaust og uppskárum nokkrar endur í pottinn, góða útiveru og fína hreyfingu á þessum næstsíðasta degi ársins og vorum mjög sáttir. Ferðin heim gekk vel og áfram rifjuðum við upp gamlar veiðiferðir og ræddum þjóðfélagsmálin í þaula. Það var því ekki að sjá annað en þeir Schmidt & Gestsson hefðu gleymt neinu þrátt fyrir smá pásu!

Góðar stundir  

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband