Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Kreppu-krónan

Í gærkveldi þegar yngri sonur minn, Róbert, hafði lokið við að horfa á sjónvarpsfréttirnar settist Robert jrhann við stofuborðið og fór að teikna. Þessi skemmtilega mynd er mjög táknræn fyrir ástandið á landinu í dag. Merkilegt hvað 9 ára gömul börn geta túlkað vel krepputalið sem glymur í öllum fjölmiðlum og frá fólki almennt.

Ps. Sá ánægjulegi áfangi gekk eftir í dag þegar ákveðið var að skeyta ættarnafninu mínu við þann stutta sem heitir núna því skemmtilega nafni: Guðmundur Róbert Schmidt en mitt nafn er Róbert Guðmundur Schmidt. Þá er bara að koma Arnóri af stað með ættarnafnið en hann er byrjaður að skrifa sig sem Arnór Schmidt. Það er erfitt að lýsa ánægju minni yfir þessu.

Kveðja

Róbert

Íslenskur fjallarefur með beikoni, sveppum og púrtvíns-rjómasósu

Ég fékk skemmtilegt símtal í síðustu viku þegar Súgfirðingurinn Jón Vigfús spurði mig hvort ég gæti Refurgefið honum eina góða mataruppskrift. "Og hvaða uppskrift vantar þig Nonni minn"- spurði ég á móti. Mig vantar góða uppskrift af ref. "Já, þú meinar það. Ertu þá að tala um íslenskan ref úr náttúrunni eða búr-ref?" Bara íslenskan ref, langar til að smakka hann og hafa þá góða uppskrift,- svarar Nonni á móti. Hefur þú ekki borðað ref Robbi? "Jú, ég borðaði einu sinni búr-ref sem ég fékk frá Patreksfirði og lét léttreykja hann og Úlfar Finnbjörnsson eldaði refinn fyrir okkur sem smakkaðist eins og saltkjöt, bara mjög góður á bragðið en ég held að það séu fáir í dag sem myndu vilja reykja villtan ref, því miður."

"En ef ég mætti ráðleggja þér Nonni minn, þá myndi ég flá refinn og tálga allt kjöt af honum á pönnu, krydda með salti og pipar og brúna vel í smjöri. Síðan setja sveppi útá ásamt beikonbitum og papriku. Síðan pela af rjóma og láta þetta krauma í smá stund. Og ekki væri verra að setja 1-2 tappa af góðu púrtvíni útá pönnuna í upphafi steikingar. Prófaðu þetta og láttu mig vita hvernig til tekst," sagði ég og sagðist reyndar aldrei verið svo svangur að vilja borða íslenskan villtan fjallaref amk ekki enn sem komið er. En hver veit hvað verður í þessari kreppu? Íslenski refurinn lifir reyndar á góðu fæði.

Kveðja

Róbert

Í snjónum í Skagafirði

Fór norður í Skagafjörð um miðja sl viku til að veiða fleiri gæsir og undirbúa komu veiðimanna á gæs IMG_3847á Vindheima. Ferðin byrjaði ekki vel því Hvalfjarðargöngin voru lokuð nóttina þegar ég rúllaði norður og ég varð því að aka Hvalfjörðinn. Náði þó á svæðið á tilsettum tíma og hafði 16 grágæsir eftir morguninn. Næstu dagar fram að helgi fóru að rembast við að ná fleiri gæsum en það miðaði frekar rólega. En ég var ágætlega sáttur við aflann sem kominn var. Veðurspáin var ekki sérlega góð, NA-rok með snjókomu. Á laugardagsmorguninn var allt hvítt og kalt með hæfilegu roki. Sunnudagurinn var lognsæll og úrkomulítill. Við lágum svo að segja hreyfingarlausir í 6-7 tíma á akrinum í skítafrosti en veiðin var dræm. Gæsirnar greinilega byrjaðar á að færa sig yfir landið á SA-landið áður en hún hverfur yfir hafið til Bretlandseyja til vetursetu.

Á laugardagskvöldið komu Maggi Hinriks og Steinar Péturs í kvöldverð til okkar Sæju í IMG_3880sumarbústaðinn í Varmahlíð ásamt konum sínum, þeim Sonju og Effu. Ég grillaði kjúklingaspjót, höfrungaspjót og gæsaspjót. Marineraði gæsina í hlynsírópi, títuberjasultu og Baily's sem smakkaðist vel. Þar ræddum við félagarnir um fyrirhugaða kajakferð um A-Grænland 2009. Maggi kom með reyktan lunda í forrétt og ég setti heitreykta gæs með á diskinn enda hvortveggja úr Skagafirði.

Kannski að maður reyti eitthvað af þessum spikfeitu grágæsum sem ég veiddi um helgina því feitari geta þær nú varla verið.

Snjor a akrinum

Kveðja

Róbert


Hrikaleg jeppatröll í Fífunni

Ég og Róbert jr sonur minn röltum frá Lautasmáranum yfir í Fífuna í dag á jeppa- og útivistarsýninguJeppi 1 4X4 klúbbsins til að skoða það áhugaverðasta í jeppabreytingum á þessum tímum. Við vorum ekki vonsviknir með sýninguna því þar eru margir glæsilega útbúnir jeppar, bæði í einkaeigu sem og björgunarsveitabílar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er Róbert jr eiginlega kominn undir einn stærsta jeppann á sýningunni sem er með 54" dekk, alveg hrikalegt jeppatröll. Þarna hitti ég helling af dellukörlum og meðal annars Bjarna gröfukall frá Suðureyri og Ragga rafvirkja sem á sínum tíma bjó þar líka. Við Raggi skeggræddum aðeins um Isuzu D-MAX jeppana okkar sem eru eins breyttir 35" sem hreinlega blikna við hliðina á þessum alvöru tröllum.

Fyrir utan Fífuna eru svo nokkrir björgunarsveitajeppar og sérlega falleg og sérstök mótorhjól. LaedanGarmin er með flottan bás á sýningunni þar sem er að finna allt það besta í staðsetningartækjum, hvort sem er í bíla, báta eða fyrir göngugarpinn. Held að ég sé búinn að finna mér jólagjöfina í ár Wink  Ekki má gleyma aðalbílnum á sýningunni sem er Læðan hans Ólafs Ragnars úr Dagvaktinni. Myndin af henni er hér til hliðar.

Hvet alla sem geta að fara í Fífuna og skoða jeppaúrvalið hjá 4X4 klúbbnum. Það kostar 1000 kr inn en svo bjóða þeir uppá 1500 kr helgarpassa en frítt er fyrir börnin. Eftir sýninguna fórum við í fótbolta út í góða veðrið á meðan Sæunn og Þórunn Hanna voru á Villa Vill tónleikunum.

Róbert

Hættur í stjórn Súgfirðingafélagsins

Ég tók þá mikilvægu ákvörðun nýverið að segja mig úr stjórn Súgfirðingafélagsins í Reykjavík. Í Sudureyristjórninni er gott fólk sem var gaman að vinna með. Ástæðan fyrir úrsögn minni er sú að það er ákveðin hópur í félaginu sem gerir lítið annað en að vinna gegn jákvæðum hugmyndum fyrir félagsmenn sem og persónuleg gagnrýni á störf mín sem ritstjóra heimasíðu félagsins sem ég hef reynt að sinna eftir minni bestu getu og tíma sl árin. Það virðist vera ákveðin fjölskylda sem heggur sífellt í sama farið og á endanum hrökklast fólk í burtu og er það miður.

Átthagafélagið okkar er klofið og það hefur verið erfitt hlutskipti stjórnar að reyna að slíðra sverðin. Að rembast eins og rjúpa við staurinn við að halda fasteign félagsins á Suðureyri er óskiljanleg vindmillubarátta. Fátækt átthagafélag sem skuldar nokkrar milljónir í húsnæðinu hefur nú látið gera faglega úttekt á öllu húsinu hvað varðar viðhald til framtíðar og skýrslan liggur nú fyrir. Niðurstaðan er að heildarkostnaðurinn er í kringum 16.000.000 kr og væntanlega þarf þá félagið að greiða helminginn af þeirri upphæð til viðhalds. Eftir stendur að félagið þarf að standa undir 10-12 milljóna króna skuldbindingu sem hver heilvita maður sér að fátækt átthagafélag mun aldrei klára. Þarna er greinilega verið að berja hausnum við steininn.

Í staðinn fyrir að byggja undir félagsstarfsemina og efla það með nýliðun unga fólksins, þá kemur klofningsfjölskyldan enn og aftur og ruggar bátnum hressilega. Ég tel að ef ástandið í Súgfirðingafélaginu lagist ekki á næstunni, að þá sé tími til kominn, að þeir sem hafa áhuga á að efla uppbyggingu þeirra miklu og góðu tengsla til Súgandafjarðar, að stofna nýtt félag þar sem mun ríkja gleði og metnaður til framtíðar. Súgfirðingar hafa alla tíð verið samstíga og samheldnin hefur verið einstök. Það er sorglegt til þess að vita að klofningurinn í félaginu er byrjaður að segja til sín. Ég held að þetta snobbaða yfirstéttafólk ætti að skammast sín og reyna að þroskast í jákvæða átt. Ég segi nú ekki meira.

Róbert

Ævintýraferð um A-Grænland 2009

Ég hef nú sett inn í myndasafnið nokkrar myndir frá ævintýraferð á sjókajökum um austurströnd F1000034Grænlands sem farin var síðsumars 2004 með nokkrum hressum köppum m.a. Haraldi Erni Ólafssyni pólfara. Til stendur að ég fari með annan hóp þangað á næsta ári en á sínum tíma fór ég á hverju sumri með hópa Íslendinga í ævintýraferðir um óbyggðir Grænlands. Nú er komið að því að dusta rykið af árinni og grafa upp búnaðinn að nýju. Tilhlökkunin er mikil hjá okkur vinunum þ.e.a.s. ef allt gengur eftir.

Meira um það síðar.

Róbert

Er Bubbi ekki lengur ríkisbubbi?

Ég verð nú að segja að álit mitt á honum Bubba fer þverrandi með árunum sem líða. Þessi grjótharðiBubbiOgVodafone%2002 farandsöngvari með gítarinn og jónuna í brjóstvasanum barði sér á brjóst hér í denn og stálaði hnífinn á tónleikum um land allt svo undir tók í öllu þjóðfélaginu og þorskarnir brostu. Jú, Bubbi hætti að dópa sem var líklega besta útspila hans um ævina.  Því er ekki að neita að maðurinn er snillingur á tónlistarsviðinu og semur frábær lög og texta. Jú, það var gaman að hlusta á bullið í honum þegar hann var að lýsa boxviðureignum á Sýn "Váááá, hann var rotaður í hringinum" og "svaka bomba, segi og skrifa BOBA. Makalaus froðusnakkur.

Bubbi náði að landa góðum samningum við fyrirtæki og bankastofnanir um fjárhagslega framtíð hans með því að selja afnotarétt afurða sinna og hann keypti sér flottan Range Rover og fékk sér flott sólgleraugu. Gott hjá Bubba að koma sér í öruggt fjárhagslegt skjól til framtíðar. Hann átti það alveg skilið blessaður kallinn. En Bubbi fór að bruðla, byggði sér risastórt hús í sveitinni og gamblaði meðBubbi_HOFSA-2006_031 verðbréf, veiddi lax um allar sveitir fyrir milljónir og gerðist ríkisbubbi um tíma. En svo kom kreppan og Bubbi grætur nú niður á gítarinn og hefur lýst því yfir þjóðina að hann hafi tapað miklum fjármunum líkt og hluthafar bankana hafa gert. Í 100.000 kr frakka stígur hann á stokk og dustar rykið af gamla góða farandgítarnum sínum og efnir til útitónleika til að mótmæla kreppunni. Ja, hérna, þvílíkur tækifærissinni getur maðurinn verið. Nú vill hann fá samúð þjóðarinnar. Hann heldur kannski að fólk sé fífl? Hann er gersamlega kominn í hring og rúmlega það. Nú spyr hann sig allar nætur; kemst ég í 40 daga laxveiði næsta sumar?

Ég hef alltaf litið á Bubba sem snilling á tónlistarsviðinu sem hann er. Ég ætla líka að halda mig við það og hlusta á lögin hans og texta. En ég er gersamlega búinn að fá nóg af bullinu í honum. Ef einhver er Ragnar Reykás, þá er það Bubbi Morthens. Það skilja hann fáir þ.e.a.s. ef þeir þá nenna að reyna að skilja hann. Stígðu nú niður úr fílabeinsturninum Bubbi minn og andaðu rólega. Þú verður aldrei aftur farandsöngvari þjóðarinnar því sá tími er fyrir löngu liðinn.

Róbert

Berglind kom með Díu í heimsókn

Ég bauð Berglindi í steiktan fisk í raspi í kvöld og mín kom með hana Díu litlu sem er Collie-tík, alveg Arnor og Berglind med Diusérdeilis falleg og róleg. Arnór mætti í kvöldmat enda matmaður mikill. Sæunn og Þórunn Hanna sátu að sjálfsögðu með okkur. Svo voru margar fyndnar sögur sagðar við matarborðið eins og gerist best. En mestu athyglina fékk hún Día enda vel skiljanlegt. Til hamingju með Díu Berglind. Vonandi fáum við að sjá hana aftur og fylgjast með uppvextinum hennar.

Myndin er af systkinunum Arnóri og Berglindi með Díu.

Kveðja

Róbert

Berglind mín er 23 ára

Berglind dóttir mín varð 23 ára í gærdag þann 5. október. Frábær og lífsglöð stelpa sem hefur góðaberglind_1000 nærveru og þægilegt viðmót, alltaf frískleg og brosandi. Þegar Berglind kemur í heimsókn, þá kemur einhver ferskur andi með henni. Ég gleymi því aldrei þegar hún kom í heiminn Þessi elskulega dóttir sem er mér allt. Hún var alltaf prúð og stillt á æskuárum og aldrei nein vandærði með hana. Hún er dugleg að hlusta á vini sína og ber mikla virðingu fyrir fólki. Þess vegna er hún svona sérstök og vinsæl á meðal vina og ættingja. Fallegra brosið hennar er sjaldfundið og grænu augun hennar eru án efa þau fallegustu sem ég hef séð.

Berglind er bara svona náttúrulega skemmtileg stelpa sem reynir ávalt að gefa meira af sér en hún þiggur. Hún er mikill dýravinur og elskar hundana sína. Nýr hundur var að bætast á heimilið og heitir hún Día og er af collie kyni. Það var sorglegt þegar hún missti Tuma, hundinn sinn fyrir ca 1-2 árum síðan en þau voru miklir vinir. Síðan þá hafa bæst tveir hundar í líf hennar sem ég veit að hún hefur gaman af. Berglind er stóra systir fjögurra bræðra sem hún á en þeir eru Arnór, Bjarmi, Breki og Róbert jr. Allir elska þeir Berglindi, enda ekki hægt annað Smile

Til hamingju með afmælið elsku dóttir góð. Læt hér fylgja fallegt ljóð eftir Elvu Dögg Björnsdóttur en ég breytti viljandi textanum með tilvísun í augnalitinn þinn:

Saklausu grænu augun
glitra líkt sem stjörnuhaf.
Með fallega ljósa lokka
mjúkt sem silki.
Yndisblær í röddu
sem ylur mitt hjarta.
Dóttir mín fagra
sem gerir hvern dag bjartann


Með ástarkveðju frá pabba


Svartfuglsfjör í október

Helgin var í meira lagi sérstök. Ætlaði í Hrútafjörð á gæsaveiðar um helgina en þegar þangað var Steinar og Robbi með svartfuglkomið á föstudeginum var allt á kafi í snjó og þar fyrir utan snjóaði og skóf með látum að varla sást á milli bæja. Eftir nokkur símtöl í Skagafjörð var ákveðið að halda þangað í von um að fleiri gæsir væru þar á flugi en í Hrútafirði. Stórhættuleg hálka var á leiðinni og litlu munaði að illa færi þegar ég missti jeppann þvert á veginn þar sem tveir fólksbílar komu á móti ásamt stórum flutningabíl. Einhvern veginn í andskotanum náði ég að afstýra árekstri og ég heyrði hjartað mitt slá fast og ört í gegnum útvarpstónlistina. Já, það má oft litlu muna í lífinu. Ég hafði gleymt að setja í fjórhjóladrifið og því rann hann til þegar ég steig léttilega á olíugjöfina. Eftir það hélt D-Maxinn sig á veginum.

Það fór lítið fyrir gæsinni á Marbæli í Skagafirði enda snjór yfir öllu þar í kring. Ég hitti Jónu systir ogSvartfuglsdrottningarnar á Jenna Birkir sem voru í helgarfríi og til að hitta foreldra og systkini Birkis á Marbæli. Bjart var yfir Skagafirði með sól í heiði en hrikalega kalt. Eftir hádegið á laugardeginum bauð Steinar Péturs mér á svartfuglsveiðar sem ég þáði með þökkum. Með Steinari komu dætur hans, þær Hrefna og Brynhildur sem voru sérlegir aðstoðarmenn/konur um borð og Hrefna sá um skipstjórnina og Brynhildur háfaði upp svartfuglinn eins og hún hafði ekkert annað gert um ævina. Ekki má gleyma skipshundinum honum Zorro sem reyndar hélt sig inni í stýrishúsinu alla tímann og var frekar ósáttur við byssuhvellina. Veðrið lagaðist eftir því sem leið á daginn og 32 fuglar lágu í kistunni í lok dags sem var bara fínasti afli miðað við árstíma. Mest var þetta langvía, hringvía og teista. Eftir sjóferðina var okkur boðið í afmæliskaffi til Sonju og Magga en Sonja varð 36 deginum á undan. Ég skreið í koju snemma enda var ræs kl 05.00 að morgni.

Sunnudagurinn var fallegur í morgunbirtunni en ekkert bólaði á gæsunum. En við náðum fimm Steinar skýtur á fugl 3stokköndum sem var smávegis sárabót. Undir hádegið var pakkað saman á akrinum og haldið inn á Krók. Gæsaveiðiferðin endaði þannig að mest var veitt af svartfugli, svo af önd og ein grágæs rak lestina.

Læt fylgja nokkrar myndir hér frá laugardeginum. Set líka fleiri myndir í Veiðialbúmið á síðunni.

Róbert


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband