Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Reykjavík - Rotterdam, 4 stjörnur af 5

Ég tók áskorun Baltasar til þjóðarinnar á Eddunni og skellti mér á íslensku myndina Reykjavík - Rvik rotterdamRotterdam í gærkveldi og var mjög sáttur við myndina. Hún var vel leikin, spennandi allan tímann og atburðarrásin trúverðug. Það er reyndar farið að fara dálítið í taugarnar á mér það litla leikaraúrval sem við Íslendingar bjóðum uppá í þessum stóru myndum. Samt sem áður standa þeir sig nú alltaf vel. Ingvar Sigurðs, Balti, Þröstur Leó ofl góðir dúkka alltaf upp í "öllum" myndum. En þarna voru nú samt nýir og ungir leikarar sem sýndu góðan leik. Myndin fær 4 stjörnur af 5 hjá mér.

Ég mæli eindregið með að fólk skelli sér á Reykjavík - Rotterdam hið fyrsta áður en myndin verður tekin úr kvikmyndasölum borgarinnar og sett á DVD. Svo er það Bond í kvöld.

Kveðja

Róbert

Feðgar á rjúpnaveiðum

Loksins kom að því að við Arnór, sonur minn, gengum saman til rjúpna. Ég keypti nýja gönguskó á Feðgarnir á rjúpnaveiðumstrákinn nr 47 og klæddi hann upp í legghlífar og útivistarúlpu til að standast kulda og regni til fjalla. Við héldum á Snæfellsnesið snemma að morgni laugardagsins en þá var mjög hvasst og gekk á með skafrenningi og látum að NV. Uppúr hádegi fór að lægja og birta til en frostið var mikið og beit í kinnar. Við Arnór gengum fallegar lyngbrekkur, skorninga og gil í nýföllnum snjó. En hvergi var rjúpnaspor að sjá og engan fugl. En ég sá hyrnda gimbur í einu gilinu og lagði staðinn á mynnið fyrir bændurna ef ég skyldi rekast á þá seinna meir.

Við Arnór gengum í 3-4 tíma án árangurs. Fleiri veiðimenn voru á fjallinu en þeir fengu lítið sem ekkert af fugli þrátt fyrir að þeir voru með hunda. Tvær skyttur fengu eina rjúpu eftir 4 tíma. Við ákváðum að snúa heim undir miðjan dag rjúpnalausir en samt ánægðir að hafa eytt góðum tíma saman úti í náttúrunni að vetrarlagi. Við myndum bara reyna aftur þegar veðrið yrði betra. Arnór stóð sig vel og ég var stoltur af honum. Hann hefur gott þrek og er duglegur að ganga enda búinn að vera í ræktinni meira og minna í nokkur ár. Ég er ánægður með hvernig hann hugsar um líkama sinn og enn ánægðari með að hafa fengið hann með mér á fjall. Það eru ekki allir drengir á hans aldri sem myndu nenna því. En svo hittum við tvo bændur á fjallveginum með sjónauka í leit af lambinu sem ég sá. Þeir voru glaðir að fá fréttirnar frá mér og ætluðu að ná sér í smalahund og sprækan dreng til að ná því af fjalli og þökkuðu mikið og vel fyrir upplýsingarnar. Gott að maður gat þá gert eitthvað gott í leiðinni.

En vonandi náum við að ganga til rjúpna á ný í nóvember, nú, ef ekki, þá bara á næsta ári. Ég fékk mörg símtöl frá vinum mínum um kvöldið sem höfðu farið til rjúpnaveiða þennan dag og allir voru þeir með sömu söguna,- lítil sem engin veiði. Mest þrjár rjúpur á jafnmarga veiðimenn í Dölunum. En svona er nú veiðin, maður veit aldrei.

Kveðja

Róbert

Erfiðleikarnir þjappa okkur saman

Maður er orðinn ansi leiður á þessu krepputali þótt skynsamlegt sé að fylgjast vel með fjölmiðlum ogeg_og_mamma öðru er tengist upplýsingum um stöðu mála. Vissulega stefnum við inní erfiða tíma á næstu árum og þá er ekkert annað en að hysja upp um sig buxurnar og breyta lifnaðarháttunum eftir því sem efni standa til og þarfir. Einhvern veginn tókst móður minni að koma okkur systkinunum fimm á legg þegar hún var einstæð fyrir vestan í því vetrarríki og hörku sem þá var. Við reyndum að standa með henni og leysa ýmis verkefni ung að aldri sem börn í dag þurfa ekki einu sinni að hugsa um. Hún vann myrkrana á milli öllum stundum en sem betur fer áttum við góða vini og ættingja sem studdu við bakið á okkur í fátæktinni og lífsbaráttunni á þessum erfiðu árum.

Halldór afi minn sagði við mig áður en hann dó, að það herti okkur öll sem persónur sem þurftum að búa við alla þessa einangrun í Súgandafirði og þorpið var á kafi í snjó allan veturinn. Afi sagði satt og þegar litið er til baka og öll árin krufin, þá hefur það bara hert mann innst inni og reynslan af fátæktinni hjálpar mikið til á þessum tímum í dag. Ég hef alltaf nýtt allan mat, hendi aldrei kjöti eða fiski, heldur borða það kalt daginn eftir eða hita upp. Veiði mér í matinn og nýti náttúruna eftir bestu getu. Er samt duglegur að gefa af mér til vina og ættingja.

Ég held að það sem skiptir mestu máli í kreppunni, og sérstaklega þegar jólamánuðurinn nálgast, ermamma og eg nyfaeddur að njóta þess sem maður á og vera góður við náungan og sýna kærleik. Það er gott að vera heima með fjölskyldunni eða vinum og ræða málin, hlægja og segja sögur, þjappa sér saman og reyna að brosa í þessu svartnætti sem vofir yfir okkur. Ef heilsan er góð og börnin heilbrigð, þá þarf maður varla að kvarta yfir neinu.

Við erum þó alltaf svo fljót að gleyma og kvörtum yfir smámunum á meðan börn deyja úr vannæringu á hverri klukkustund út í hinum vanþróaða heimi.

Kveðja

Róbert 

Vel heppnuð veiðiferð

Jæja, þá er maður kominn til byggða eins og sagt er. Eftir talsvert ferðalag um Vestfirði og Sud 31Norðurland með vini mínum Unnsteini Guðmundssyni frá Grundarfirði uppskárum við ágæta veiði af rjúpum og öndum. Við stöldruðum við í Arnarfirði, Súgandafirði og Skagafirði, veiddum rjúpur í samtals fjóra daga en þar sem fólk heldur að það sé ákveðinn kvóti á rjúpum, læt ég ekki aflatölur hér uppi því það gæti valdið misskilningi hjá mörgum. Það eru einungis tilmæli frá Umhverfisráðherra að menn veiði fyrir sig og sína. Þá hafið þið það Wink

Ég staldraði við á Suðureyri í fjóra daga og við Unnsteinn heimsóttum Íslandssögu með Grétari frænda sem leiðsögumann um allt frystihúsið. Unnsteinn hafði áhuga á að skoða fyrirtækið enda er hann einn af eigendum Guðmundar Runólfssonar hf sem er frystihús og útgerð í Grundarfrið. Ég hitti Ingólf og Oddnýju frænku en náði ekki að heilsa uppá hana Völu mína hans Grétars. Geri það með vorinu ef ég fer vestur aftur. Svo hitti ég Regínu frænku á röltinu og Þorleif frænda í sundi.

Mikill snjór kom í fjörðinn í október og fór þá allt á bólakaf. Á þriðja tug kinda drápust í miklu flóði Sud 25sem kom þegar snjóstífla brast ofarlega í Langá í Staðardal og flæddi yfir bakka sína með þessum afleiðingum. Kalli í Bæ missti 21 kind og 3 hrúta og Þorvaldur á Stað missti eina kind í flóðinu. Ég fór bæði í Vatnadalinn á rjúpu með leyfi Kalla sem og á Sunndalshjallana með leyfi Þorvaldar. Það var fallegt útsýnið yfir fjarðarminnið þar sem ég gekk á brúnunum fyrir ofan Stað. Ekki laust við að það væri hálfgerður vorsvipur á firðinum, sem var hálfsnjólaus og flekkóttur til fjalla.

Vestan bræluskítur var í nokkra daga er ég var í Súgandafirði og mikið brim sem fór yfir Brjótinn. Fjörurnar út í dal fengu líka að kenna á briminu og grjót og þari kastaðist uppá veginn. Línubátarnir lágu allir bundnir við bryggju og einhverjir voru að beita upp.

Læt þetta duga að sinni. Set fleiri myndir hér inn í vikunni sem og á www.sudureyri.blog.is

Kveðja

Róbert

Rjúpur handsamaðar í svefni

Síðustu vikur hafa verið frekar sérkennilegar þ.e.a.s. næturnar en þegar líður að Rjupa i Heidmork IIrjúpnaveiðitímabilinu, þá hrekk ég í einhvern gír sem fær mig til að tala heilmikið uppúr svefni og draumarnir snúast um lítið annað en rjúpur. Sjálfsagt er það spennan sem gerir mig svona skrýtinn. Það er ekki laust við að maður vakni hvítfiðraður á morgnana, ropandi eins og hæna á priki. Merkilegt þó, að í mörgum draumunum mínum handsama ég rjúpurnar í stað þess að skjóta þær. Kannski er þetta merki um krepputíðina en þá er best að spara skotfærin, ná sem flestum í einu skoti, nú eða handsama þær. En það gerist nú aldrei nema í draumi.

Framundan er fyrsti veiðidagur á rjúpu þ.e. á laugardaginn 1. nóvember. Á föstudeginum rúlla ég vestur í Grundarfjörð og pikka upp vin minn og veiðifélaga Unnstein Guðmundsson og síðan verður ekið áfram á Vestfirðina. Til stendur að eyða þar níu dögum í beit ef veðurguðirnir leyfa. Af þessum níu dögum eru sex veiðidagar og ef allt gengur eftir, þá eru líkurnar meiri að við komum með rjúpur heim en ekki. Ætlunin er að heimsækja systur mína og hennar fjölskyldu í Bolungarvík, einnig frændfólk á Suðureyri og að sjálfsögðu heimafólkið þar líka.

Ný og öflug vetrardekk eru nú komin undir jeppann, negld í bak og fyrir og grófmunstruð. Ég ætti að vera þokkalega undirbúinn fyrir komandi vetur þannig dekkjaður. Fyllti á rúðupissið, ísvarann og olíuna, skóflan og spottinn í skottinu og allt klárt fyrir komandi veiðiferðalag. Tilhlökkunin er gríðarlega mikil en svo hverfur hún eftir erfiði fyrsta veiðidagsins þegar maður vaknar upp morguninn eftir með harðsperrur og stirðleika, með hælsæri og rautt nef. En það er svo merkilegt þrátt fyrir það erfiði sem fylgir því að príla fjöllin í misjöfnu veðri, að þegar heim er komið, þá fer manni að hlakka strax til næsta dags.

Það er ólýsanleg tilfinning að standa efst á einhverju felli með byssuna á öxlinni og virða fyrir sér landslagið og anda að sér hreinu fjallalofti. Lyngbrekkur, snjóföl, steinar, skorningar, lækir og gil, allt þetta og meira til verður á vegi manns í leit að rjúpunum. Margar sleppa með skrekkinn en sumar enda í rjúpnavestinu og breytast í jólamat.

Vonandi mun allt ganga að óskum í þessari ferð og að aflabrögðin verði ásættanleg. Meira um það síðar.

Róbert

Ný síða www.sudureyri.blog.is

Ég ákvað að opna nýja bloggsíðu www.sudureyri.blog.is þar sem ég mun hlaða inn með tíð og tíma Batahofnin 2 500myndum frá Súgandafirði, Suðureyri og mannlífi ásamt fréttamolum og frásögnum þegar tilefni og tími gefst til. Vonandi fær þessi síða jákvæðar móttökur, ekki veitir af á síðustu og verstu tímum.

Kveðja

Róbert

Sóley Helga á barnið að heita

Á sama tíma og uppáhaldsliðið mitt í ensku deildinni, Liverpool, mætti Chelsea í mikilli viðureign í Soley Helga 2gærdag ætlaði ég að mæta í skírnarveislu til Ingu og Nonna í Kópavogi kl 13.00. Að sjálfsögðu vildi ég ekki missa af skírninni og leiknum en tók fyrri hálfleikinn í skírnina, myndaði í gríð og erg og fékk mér kökur að lokinni athöfn alveg slakur. Svo laumaðist ég út í bíl og brunaði heim og kveikti á sjónvarpinu og sá seinni hálfleikinn. Var reyndar búinn að "semja" við Ingveldi um að hverfa um stundar sakir úr veislunni sem var ekkert mál enda er ég ekki þessi Liverpool-aðdáandi dauðans venjulega nema núna langaði mig til að sjá amk brot úr leiknum. Úrslit leiksins voru jákvæð, Liverpool sigraði 4 ára og 8 mánaða sigurgöngu Chelsea á heimavelli með einu marki gegn engu og braut þar einnig 84 leikja samfellda sigurgöngu Chelsea sem er frábært knattspyrnulið. Mitt lið trónir nú efst í deildinni og ég er ánægður með það.

En litla sæta "frænka" mín fékk mjög fallegt nafn: Sóley Helga (Jónsdóttir). Ég læt hér fylgja nokkrar myndir af litlu prinsessunni sem ég tók í skírninni. Hún var mjög vær allan tímann, svaf að mestu eða hjalaði við gestina. Veislan var fín og tæplega 40 gestir mættu til að Fingursamgleðjast prinsessunni á þessum annars fína degi.


Fleiri myndir má sjá í myndasafninu á síðunni eða smellið á þennan tengil:
http://schmidt.blog.is/album/skirn_soleyju_helgu_okt_2008/

Kveðja

Róbert


Erfitt að byrja í ræktinni

Fyrir ca 8-9 árum síðan fór ég í mikla herferð í þeim tilgangi að auka við þyngd mína. Skráði mig í Robbi og Bubbistrangt æfingarferli hjá einkaþjálfaranum Sölva Fannari í World Class en hann er jafnframt eigandi fyrirtækisins www.heilsuradgjof.is Samningur var gerður við innflytjendur fæðubótarefnis og fjörið hófst fyrir alvöru. Alla daga úðaði ég í mig fæðubótarefnum (prótein og creatín) og borðaði heilan helling af hollum mat og þurfti að hætta í innanhúsfótboltanum til að brenna ekki öllu því sem ég var að vinna mér inn. Ég fékk sem sagt vottorð uppá sófalegu. Til að stytta frásögnina, þá bætti ég á mig tæplega 8 kg af vöðvamassa eftir þrjá mánuði í ræktinni enda var ég eins og tannstöngull á tímabili. Þyngdin fór þá upp í 74 kg og mér leið vel. Svo fór minn nú hægt og sígandi að draga úr ferðum í ræktina, vildi hvíla mig aðeins eftir þessa miklu törn. Ég man eftir því líka að einmitt þá hætti ég fyrir fullt og allt að drekka Coke og hef staðið við það bindindi enn og fer létt með.

Síðan eru liðin 8-9 ár og ég hef alltaf verið á leiðinni í ræktina á ný en hef ekki haft tíma eða verið of latur til að rísa á fætur og setja græjurnar í íþróttatöskuna. Samt er ég sprækur og hleyp um dali og fjöll eins og fjallageit. En ég veit og finn að árin líða yfir og maður verður stirðari og þolið er ekki pict0376endalaust þó svo maður geti hlaupið nokkrar rjúpur uppi einu sinni að vetri. Ég ákvað því að reima á mig hlaupaskóna um daginn og skokkaði hér sæmilegan hring í Kópavogi og kom heim dauðþreyttur eftir 10 mín. Þetta var mikið afrek að mér fannst. Hljóp reyndar hressilega, þoli ekki hlaupara sem þykjast hlaupa en ganga svo alla leiðina. Og svo kom snjórinn og ég nennti ekki út að hlaupa í þessu skítaveðri. Fékk vottorð uppá sófalegu eins og í denn. Ástæðan fyrir því, að nú vill minn fara að hreyfa sig, er sú að í næstu viku hefst rjúpnaveiðitímabilið og ég veit að það er ekkert grín að klöngrast upp snarbrött fjöllin hálf þollaus og stirður. Hef því ákveðið að reyna að hlaupa amk daglega 1-2 hringi til að ná mér í smá form. Svo held ég að tími sé til kominn að skella sér í Sporthúsið sem er í 5 mínútna göngufæri frá heimili mínu.

Já, maður er að eldast, kominn með lesgleraugu, orðinn stirður, þolið hefur minnkað, yfirvegunin er meiri, hættur á djamminu (ekkert farið í allt haust) og börnin gera grín að manni. En samt er gott að vera til og ekki sakar að gera smá grín af sjálfum sér af og til.

Ég er ágætlega sáttur en skal ná mér í form fyrir rjúpuna!!!

Efri myndina tók Gísli Egill Hrafnsson af okkur Bubba Morthens fyrir mörgum árum í Dölunum, skömmu áður en Bubbi náði augnsambandi við rjúpu og frelsaðist, seldi byssurnar og hætti veiðum.

Neðri myndina tók Dúi Landmark á Snæffelsnesinu á síðasta rjúpnaveiðitímabili í grenjandi rigningu en veiðin var ágæt.

Kveðja

Róbert

Gæsaleysi og skírnarveisla framundan

Til stóð að fara í Skagafjörðinn um helgina með hóp veiðimanna á gæsaveiðar en þeirri ferð hefur IMG_3837verið aflýst sökum gæsafæðar á svæðinu sem og snjóstorms sem skellur á landið vestan- og norðanvert seinnipartinn í dag. Mér skilst að öll gæsin sé nú á SA-landinu í nágreni við Eyjafjöll, Vík og Höfn. Enda hafa menn verið að gera fína túra þangað um þessar mundir.

Það er kærkomið að hvíla sig eina og eina helgi. Haustið hefur verið erilsamt og mikil ferðalög að baki og ófáar gæsir skotnar. Ég mun því horfa á Liverpool og Chelsea leika á laugardaginn og skelli mér í skírnarveislu á sunnudaginn. Læt hér fylgja mynd af litlu drottningunni sem á að skíra en hún er dóttir hennar Ingveldar (systir Sæju) og Nonna í Kópavogi. Ég hélt á henni um daginn og hjalaði við hana þangað til hún sofnaði í fanginu mínu. Sérstök og þægileg tilfinning að halda á ungabarni og svæfa það í kyrrð og ró. Gaman að þessu.

Myndin er af þeim frænkum Sæju og óskýrði Jónsdóttur sem er 2ja mánaða gömul.

Kveðja

Róbert

Skopmyndir á kreppukjörum

Ég hef ákveðið að bjóða sérstök kreppukjör á skopmyndum út októbermánuð í ljósi þess að allir Utskriftþurfa að spara. Kreppukjörin hljóða uppá kr. 9.000 fyrir blýants-skopmynd (án kartons og ramma). Fullt verð er kr. 15.000 Tilvalið fyrir þá sem eru á leið í t.d. stórafmæli eða brúðkaup á næstunni. Það sem til þarf er skýr og góð ljósmynd af viðkomandi "fórnarlambi" og helst brosandi og upplýsingar um áhugamál, fatnað ofl sem þarf að skeyta á myndina. Læt hér fylgja með eina blýants-skopmynd sem geta verið mjög líflegar og skemmtilegar.

Allar nánari uppl gefur undirritaður í síma 8404022

Kveðja

Róbert Schmidt
robert@skopmyndir.com
www.skopmyndir.com

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband