Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Meira af rjúpnaveiðum

Senn fer rjúpnaveiðitímabilinu að ljúka en síðasti veiðidagurinn er nk sunnudag. Líklegt er að maður Robbi rjupaskelli sér eitthvað um helgina, líklega vestur á bóginn í einhverja kjarrbrúska með góðum félaga. Tímabilið hefur verið nokkuð sérstakt. Ég hef bæði farið um Vesturland, Vestfirðina, Norðurland og nú síðast í uppsveitir Suðurlands og séð mismikið af fugli á hverjum stað. Mest var fyrir vestan og minnst fyrir norðan. Það er alltaf spennandi að fara á ný svæði til að víkka sjóndeildarhringinn aðeins en auðvitað fer maður alltaf á sömu slóðir ár eftir ár sem gefið hafa vel frá upphafi. Nú styttist hver dagur þegar líður á desember og göngutúrinn skreppur saman, úr 7-8 tímum niður í 4-5 tíma á dag.

Ég veit um marga veiðimenn sem ekki eru búnir að ná jólasteikinni sinni þetta veiðitímabilið en ýmist eru menn uppteknir við annað og komast ekki. Svo getur tíðarfarið sett strik í reikninginn og einmitt þegar menn hafa tíma, þá er óveður. En það jafnast fátt á við að ferðast um landið í vetrarríkinu í rjúpnaleit. Við sjáum hvað setur um helgina. Ég er hæfilega bjartsýnn á veiðina en vona að veðrið verði gott.

Ps. í Jólablaði Morgunblaðsins á morgun (föstudag) kemur stutt viðtal við mig um rjúpnaveiðar og einnig gef ég upp nokkrar uppskriftir af villibráð. Þið kannski kíkið í Moggann í fyrramálið!

Kveðja

Róbert

Vestfirskur fiskur hjá Fisherman.is

Fisherman á Suðureyri hefur nú hafið sölu á frystum fiskafurðum m.a. ýsu, þorsk, steinbít og rækju. bobbylogoidEinnig er hægt að kaupa reyktan rauðmaga, herta ýsu og steinbít. Ég hvet alla til að kíkja á heimasíðu www.fisherman.is og skoða verðin og úrvalið. Mér sýnist verðið líka vera gott. Fyrir þá sem hafa áhuga, kíkið á eftirfarandi slóð: http://fisherman.is/panta_fisk.asp

Kveðja

Róbert

Góður hittingur

Við systkinabörnin héldum skemmtilega veislu í gærkveldi hjá Reyni bróðir á Kjalarnesinu og var vel 32mætt þrátt fyrir að það vantaði um 10 úr hópnum. Hver fjölskylda mætti með eitthvað á hlaðborðið og svo voru sagðar sögur og hlegið allt kvöldið og gamlar myndir skoðaðar. Þessi hittingur var mjög góður og var ákveðið að stefna að ættarmóti í júlí á næsta ári en dagsetningin verður send út í desember.

Ég hef sett inn slatta af myndum frá þessum frábæra hittingi í myndasafnið á síðunni en einnig er hægt að smella á eftirfarandi slóð til að sjá þær: http://schmidt.blog.is/album/frandsystkinaparty_2008/

Myndirnar segja meira en þúsund orð.

Kveðja

Róbert

Fagurt á fjöllum

Vaknaði snemma í morgun og græjaði mig til rjúpnaveiða í snarhasti og brunaði í Borgarfjörðinn meðRjupa bros á vör. Vissi eiginlega ekkert hvernig snjóalögin voru á fjallinu og ákvað að láta ferðina bara ráðast hvernig sem færi. Það var mjög kalt í fjallinu í morgun og NV 15 m/sek sem gerði gönguna enn erfiðari þrátt fyrir lítinn snjó. Það var hálfgerður grámi á fjöllum í dag og erfitt að leita af fuglinum sem gat leynst allstaðar. Í fyrstu lotu gekk ég í 4 tíma og fór hratt yfir og víða. Engin fugl að sjá og ég skellti mér aftur í bílinn. Keyrði svo upp eftir þar til vegurinn endar og hljóp þar í hlíðina í 3 tíma og var kominn í bílinn rétt fyrir kl 17.00. í ferðinni sá ég eina rjúpu og skaut hana. Blessuð sé minning hennar. Þrátt fyrir litla veiði fékk ég mikla hreyfingu og útiveran var kærkomin á fyrsta rjúpnaveiðidegi vikunnar. Framundan er svo rjúpnaveiðiferð hjá Hinu íslenska byssuvinafélagi eða næstu þrjá daga. Alls verða 16 félagar í ferðinni og munum við gista í þremur sumarbústöðum í SolarlagÚthlíð. Reyndar veiði ég ekki sunnudaginn og fer í bæinn seinni partinn á laugardeginum beint á Kjalarnesið til Reynis bróður en um kvöldið munum við frændsystkinin hittast og eiga góða kvöldstund.

Læt þetta duga í bili.

Kveðja

Róbert

Eivör er með gull í hálsinum

Færeyingar geta verið stoltir að eiga hana Eivör Páls. Sjaldan hef ég séð aðra eins söngkonu og Eivorhana. Hún semur frábær ljóð og lög, leikur á gítar af snilld og söngur hennar kemur frá dýpstu rótum hjarta hennar. Svo er hún svo færeysk að það hálfa væri nóg. Þessi 25 ára gamla söngkona frá Klakksvík er stolt af uppruna sínum og er innileg og ófeimin við að vera hún sjálf. Eivör hætti í námi á sínum tíma til að halda áfram að syngja og læra tónlist. Hún ólst upp við söng á heimili sínu en þær mæðgur sungu mikið saman á hennar uppvaxtarárum. Margir gætu tekið hana til fyrirmyndar hvort sem það eru óbreyttir borgarar eða aðrir starfandi tónlistarmenn. Eivör syngur með öllum líkama sínum um lífið og ástina sem snertir okkur öll. 

Ragnhildur Steinunn var með frábæran þátt (Gott kvöld) sl laugardag og tók á móti Eivör og fór yfir feril hennar með aðstoð fjölskyldu hennar og vina. Jogvan kom sterkur inn og hann er líka þessi ekta Færeyingur eins og Eivör. Ég naut mín að horfa á þáttinn og hlusta á tónlistina og sönginn. Allt sem kom fram var glæsilegt. Ég keypti síðastaEivor 2 diskinn hennar (Mannabarn) þar sem hún syngur m.a. vögguvísu til litlu systra sinna (Elísabetu Maríu og Elínborgu) sem mér finnst ótrúlega fallegt lag og er eiginlega uppáhaldslagið mitt með Eivöru í dag. En svo týndi ég disknum og þarf greinilega að kaupa mér annan fljótlega. Það var ógleymanleg stund þegar þær systur komu óvænt í þáttinn, búnar að vera í "felum" á landinu í tvo daga fyrir stóru systur sinni. Tárin runnu af gleði niður kinnar færeysku söngdrottningarinnar og áhorfenda eflaust líka og ekki batnaði ástandið þegar karl faðir hennar kom sem gestur. Ekta færeysk fjölskylduást á skjánum Wink

Það eru einmitt svona þættir sem er virkilega gaman að horfa á. Kærleikur og væntumþykja, trú og von, gleði og söngur. Takk fyrir frábæran þátt Ragnhildur Steinunn og ég held við megum vera stolt að eiga Eivör sem trúverðugan vin frá frændum okkar Færeyjum.

Eins og söngkennari Evarar (Ólöf Kolbrún Harðardóttir) orðaði svo vel í umræddum þætti "Eivör er með gull í hálsinum"

Þeir sem vilja fræðast meira um þessa færeysku söngdrottningu geta farið á www.eivor.com


Ps. Djöfull er maður nú orðin meyr í kreppunni Blush

Kveðja

Róbert

Reykjavík - Rotterdam, 4 stjörnur af 5

Ég tók áskorun Baltasar til þjóðarinnar á Eddunni og skellti mér á íslensku myndina Reykjavík - Rvik rotterdamRotterdam í gærkveldi og var mjög sáttur við myndina. Hún var vel leikin, spennandi allan tímann og atburðarrásin trúverðug. Það er reyndar farið að fara dálítið í taugarnar á mér það litla leikaraúrval sem við Íslendingar bjóðum uppá í þessum stóru myndum. Samt sem áður standa þeir sig nú alltaf vel. Ingvar Sigurðs, Balti, Þröstur Leó ofl góðir dúkka alltaf upp í "öllum" myndum. En þarna voru nú samt nýir og ungir leikarar sem sýndu góðan leik. Myndin fær 4 stjörnur af 5 hjá mér.

Ég mæli eindregið með að fólk skelli sér á Reykjavík - Rotterdam hið fyrsta áður en myndin verður tekin úr kvikmyndasölum borgarinnar og sett á DVD. Svo er það Bond í kvöld.

Kveðja

Róbert

Feðgar á rjúpnaveiðum

Loksins kom að því að við Arnór, sonur minn, gengum saman til rjúpna. Ég keypti nýja gönguskó á Feðgarnir á rjúpnaveiðumstrákinn nr 47 og klæddi hann upp í legghlífar og útivistarúlpu til að standast kulda og regni til fjalla. Við héldum á Snæfellsnesið snemma að morgni laugardagsins en þá var mjög hvasst og gekk á með skafrenningi og látum að NV. Uppúr hádegi fór að lægja og birta til en frostið var mikið og beit í kinnar. Við Arnór gengum fallegar lyngbrekkur, skorninga og gil í nýföllnum snjó. En hvergi var rjúpnaspor að sjá og engan fugl. En ég sá hyrnda gimbur í einu gilinu og lagði staðinn á mynnið fyrir bændurna ef ég skyldi rekast á þá seinna meir.

Við Arnór gengum í 3-4 tíma án árangurs. Fleiri veiðimenn voru á fjallinu en þeir fengu lítið sem ekkert af fugli þrátt fyrir að þeir voru með hunda. Tvær skyttur fengu eina rjúpu eftir 4 tíma. Við ákváðum að snúa heim undir miðjan dag rjúpnalausir en samt ánægðir að hafa eytt góðum tíma saman úti í náttúrunni að vetrarlagi. Við myndum bara reyna aftur þegar veðrið yrði betra. Arnór stóð sig vel og ég var stoltur af honum. Hann hefur gott þrek og er duglegur að ganga enda búinn að vera í ræktinni meira og minna í nokkur ár. Ég er ánægður með hvernig hann hugsar um líkama sinn og enn ánægðari með að hafa fengið hann með mér á fjall. Það eru ekki allir drengir á hans aldri sem myndu nenna því. En svo hittum við tvo bændur á fjallveginum með sjónauka í leit af lambinu sem ég sá. Þeir voru glaðir að fá fréttirnar frá mér og ætluðu að ná sér í smalahund og sprækan dreng til að ná því af fjalli og þökkuðu mikið og vel fyrir upplýsingarnar. Gott að maður gat þá gert eitthvað gott í leiðinni.

En vonandi náum við að ganga til rjúpna á ný í nóvember, nú, ef ekki, þá bara á næsta ári. Ég fékk mörg símtöl frá vinum mínum um kvöldið sem höfðu farið til rjúpnaveiða þennan dag og allir voru þeir með sömu söguna,- lítil sem engin veiði. Mest þrjár rjúpur á jafnmarga veiðimenn í Dölunum. En svona er nú veiðin, maður veit aldrei.

Kveðja

Róbert

Erfiðleikarnir þjappa okkur saman

Maður er orðinn ansi leiður á þessu krepputali þótt skynsamlegt sé að fylgjast vel með fjölmiðlum ogeg_og_mamma öðru er tengist upplýsingum um stöðu mála. Vissulega stefnum við inní erfiða tíma á næstu árum og þá er ekkert annað en að hysja upp um sig buxurnar og breyta lifnaðarháttunum eftir því sem efni standa til og þarfir. Einhvern veginn tókst móður minni að koma okkur systkinunum fimm á legg þegar hún var einstæð fyrir vestan í því vetrarríki og hörku sem þá var. Við reyndum að standa með henni og leysa ýmis verkefni ung að aldri sem börn í dag þurfa ekki einu sinni að hugsa um. Hún vann myrkrana á milli öllum stundum en sem betur fer áttum við góða vini og ættingja sem studdu við bakið á okkur í fátæktinni og lífsbaráttunni á þessum erfiðu árum.

Halldór afi minn sagði við mig áður en hann dó, að það herti okkur öll sem persónur sem þurftum að búa við alla þessa einangrun í Súgandafirði og þorpið var á kafi í snjó allan veturinn. Afi sagði satt og þegar litið er til baka og öll árin krufin, þá hefur það bara hert mann innst inni og reynslan af fátæktinni hjálpar mikið til á þessum tímum í dag. Ég hef alltaf nýtt allan mat, hendi aldrei kjöti eða fiski, heldur borða það kalt daginn eftir eða hita upp. Veiði mér í matinn og nýti náttúruna eftir bestu getu. Er samt duglegur að gefa af mér til vina og ættingja.

Ég held að það sem skiptir mestu máli í kreppunni, og sérstaklega þegar jólamánuðurinn nálgast, ermamma og eg nyfaeddur að njóta þess sem maður á og vera góður við náungan og sýna kærleik. Það er gott að vera heima með fjölskyldunni eða vinum og ræða málin, hlægja og segja sögur, þjappa sér saman og reyna að brosa í þessu svartnætti sem vofir yfir okkur. Ef heilsan er góð og börnin heilbrigð, þá þarf maður varla að kvarta yfir neinu.

Við erum þó alltaf svo fljót að gleyma og kvörtum yfir smámunum á meðan börn deyja úr vannæringu á hverri klukkustund út í hinum vanþróaða heimi.

Kveðja

Róbert 

Vel heppnuð veiðiferð

Jæja, þá er maður kominn til byggða eins og sagt er. Eftir talsvert ferðalag um Vestfirði og Sud 31Norðurland með vini mínum Unnsteini Guðmundssyni frá Grundarfirði uppskárum við ágæta veiði af rjúpum og öndum. Við stöldruðum við í Arnarfirði, Súgandafirði og Skagafirði, veiddum rjúpur í samtals fjóra daga en þar sem fólk heldur að það sé ákveðinn kvóti á rjúpum, læt ég ekki aflatölur hér uppi því það gæti valdið misskilningi hjá mörgum. Það eru einungis tilmæli frá Umhverfisráðherra að menn veiði fyrir sig og sína. Þá hafið þið það Wink

Ég staldraði við á Suðureyri í fjóra daga og við Unnsteinn heimsóttum Íslandssögu með Grétari frænda sem leiðsögumann um allt frystihúsið. Unnsteinn hafði áhuga á að skoða fyrirtækið enda er hann einn af eigendum Guðmundar Runólfssonar hf sem er frystihús og útgerð í Grundarfrið. Ég hitti Ingólf og Oddnýju frænku en náði ekki að heilsa uppá hana Völu mína hans Grétars. Geri það með vorinu ef ég fer vestur aftur. Svo hitti ég Regínu frænku á röltinu og Þorleif frænda í sundi.

Mikill snjór kom í fjörðinn í október og fór þá allt á bólakaf. Á þriðja tug kinda drápust í miklu flóði Sud 25sem kom þegar snjóstífla brast ofarlega í Langá í Staðardal og flæddi yfir bakka sína með þessum afleiðingum. Kalli í Bæ missti 21 kind og 3 hrúta og Þorvaldur á Stað missti eina kind í flóðinu. Ég fór bæði í Vatnadalinn á rjúpu með leyfi Kalla sem og á Sunndalshjallana með leyfi Þorvaldar. Það var fallegt útsýnið yfir fjarðarminnið þar sem ég gekk á brúnunum fyrir ofan Stað. Ekki laust við að það væri hálfgerður vorsvipur á firðinum, sem var hálfsnjólaus og flekkóttur til fjalla.

Vestan bræluskítur var í nokkra daga er ég var í Súgandafirði og mikið brim sem fór yfir Brjótinn. Fjörurnar út í dal fengu líka að kenna á briminu og grjót og þari kastaðist uppá veginn. Línubátarnir lágu allir bundnir við bryggju og einhverjir voru að beita upp.

Læt þetta duga að sinni. Set fleiri myndir hér inn í vikunni sem og á www.sudureyri.blog.is

Kveðja

Róbert

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband