Leita í fréttum mbl.is

Suðureyrarbréf Nr 1

Jæja, gott fólk, þá er komið að smá ferðasögu að vestan J Eins og flestir vita þá er ég kominn vestur á Suðureyri við Súgandafjörð í sjóstangabransann hjá Elíasi hjá Hvíldarkletti www.fisherman.is (endilega kíkið á síðuna) og ég verð að segja að þetta starf er ekki leiðinlegt. Ég hef frjálsan vinnutíma sem er mjög gott og nauðsynlegt fyrir alla þá viðskiptavini sem koma hingað en þeir eru nær allir frá þýskalandi. Við megum búast við mjög góðu sumri framundan enda er fullbókað allar vikur fram í ágúst. Sugandafj ad kvoldlagi

Í hverri viku (á þriðjudögum) koma tvær Fokker Freindship vélar frá Reykjavík til Ísafjarðar með fullfermi af Þjóðverjum með sjóstangir og þýska snapsa
J Allir vilja veiða sömu risa-lúðuna sem veiddist í fyrrasumar en hún vó 175 kg og mældist 240 sm á lengd. Lúðan veiddist á bát frá Hvíldarkletti að sjálfsögðu og er nærst stærsta lúða sem veiðst hefur í Evrópu á sjóstöng. Sú stærsta veiddist í Noregi og vó 10 kg meira en Suðureyrarlúðan góða (hægt er að sjá myndskeið af þessari lúðu á www.fisherman.is ). Einnig vilja þeir veiða steinbít sem er frekar erfitt að fá á sumrin á sjóstöng, þannig að það er lúða og steinbítur sem þeir vilja og risa-þorskar. Þeir þorskar sem þessir kallar eru að veiða eru engin smá seiði. Við erum að tala um 25-35 kg þorska sem eru gríðarlegar skepnur að sjá. Heimamenn og aldraðir sjóarar hafa aldrei séð aðra eins þorska og það má teljast fréttnæmt.Robert Cod 500

Ég er búinn að vera hér í vikutíma og félagi minn á móti mér heitir Julius og er Þjóðverji og kemur frá Angelreisen sem er þýska ferðaskrifstofan sem bókar allar ferðirnar hingað. Julius mun sjá um alla hópa sem koma til Flateyrar í gegnum Hvíldarklett. Við Júlli náum vel saman og erum búnir að bralla mikið sl daga. Höfum farið tvisvar á sjóinn með stangirnar okkar og veitt ágætt af þorski. Mitt hlutverk er að kenna hópunum á bátana en þeir telja 22 stk bátar (sjá mynd í viðhengi) og von er á fleiri bátum í sumar. Einnig sýni ég þeim hvar bestu fiskimiðin eru hér fyrir utan Vestfirðina, kenni þeim að blóðaga fiskinn rétt og vera þeim innan handar með upplýsingar og þjónustu. Þar sem vinnutíminn er frjáls, þá er ég öllum stundum uppá gamla flugvelli að kíkja út fjörðinn til að kanna hvar þeir eru þegar bræla er því þá veiða þeir innfjarða. Annars sér Tilkynningaskyldan á Ísafirði um samskiptin við þessa kalla. Fyrsti hopurinn fra Tekklandi

Í dag fóru tveir hópar út á sjó, annar hópurinn er frá Tékklandi og komu þeir í land í kvöld með 400 kg af þorski og tvo steinbíta. Fjórir þorskar voru vel yfir 1 metra að lengd. Áhöfnin brosti hringinn af ánægju enda búið að vera bræla alla daga frá því þeir komu sl þriðjudag. Hinn hópurinn samanstendur af Þjóðverjum en þeir náðu 250 kg í dag af þorski og voru sáttir með það. Þriðji hópurinn er líka frá Tékklandi en sá hópur er frekar sjóveikur og hangir meira í húsi en á sjó. Það minnir mig á að ég þarf að fara á Ísafjörð á morgun til að kaupa tvo kassa af sjóveikistöflum
J Torsknum gefid i Loninu

Síðustu daga höfum við Júlli reynt að stytta þessum hópum stundir í brælunum. Í gærdag fórum við með Tékkana í skoðunarferð í Íslandssögu sem er frystihúsið á Suðureyri. Þeim var sýnt allt ferlið frá A til Ö hvernig fiskurinn er unnin í neytendapakkningar. Mikil hrifning er meðal þeirra sem fá að njóta og oftast nær er þetta í fyrsta skiptið sem fólkið stígur inn fyrir í frystihús. Einnig eigum við Júlli smá “galdratrix” fyrir hópana og förum þá með þá inn að Lóni en í það er búið að sleppa náttúrulega villtum þorski af Jens Holm sem er búsettur á staðnum. Jenni hefur gert þetta í mörg ár með frábærum árangri. Málið er að við förum með fólkið inn að Lóninu og berjum steini í fjöruborðið. Eftir nokkrar sekúndur streyma stórþorskar að flæðarmálinu og ef við erum með beitu með, þá éta þorskarnir úr lófa fólksins og ég þarf varla að lýsa ánægju þeirra eftir þessa skemmtilegu heimsókn. Þannig að við Júlli höfum nokkur leynibrögð í erminni þegar hóparnir eru ekki á sjó.Grylukerti fyrir Spillinn

Mannlífið að öðru leiti er frábært á Suðureyri. Allir afslappaðir og rólegir. Nokkrir heimamenn eru óðum að veiða rauðmaga í net. Einn þeirra sem heitir Valli er búinn að fara tíu sinnum á sjóinn hér í firðinum og er búinn að fá 2000 rauðmaga sem er að hans sögn mjög góð veiði og sjaldan eða aldrei hefur veiðst annað eins af rauðmaga í Súgandafirði og er þá mikið sagt. Hinir sem eru líka á netum hafa fengið frá 150-250 rauðmaga í hverri vitjun og það má segja að það ríki hálfgert rauðmaga-gullæði á svæðinu í dag.

Óhætt er að segja að ég fíli mig vel á mínum heimaslóðum. Þekki marga hérna og er að kynnast hinum sem ég þekkti ekki
J
Er búinn að hitta Grétar frænda, Völu, Oddnýju og Ingólf og börnin þeirra og svo má ekki gleyma litlu systur minni og fjölskyldu í Bolungarvík. Núna er öldungamót í blaki á Vestfjörðum en leikið er á Ísafirði, Suðureyri og á Flateyri. Kíkti á nokkra leiki í kvöld í íþróttahúsinu og þar unnu Tálknfirðingar liðVopnfirðinga í kvennadeildinni. Kjartan Tor i hofninni

Læt þetta nægja að sinni. Hef því miður ekki haft mikinn tíma til að setja efni á heimasíðuna mína en bæti úr því hér með og sendi þetta bréf til vina og vandamanna með von um að sjá sem flesta hér í sumar
J Bið að heilsa öllum sem ég þekki og vonandi sjáumst við öll í sumar. Reikna með að skella mér í bæinn 17 maí en þá er Svartfuglaveislan hjá Hinu íslenska byssuvinafélagi og Herrifflakeppni sama dag. Maður má ekki missa af svoleiðis atburðum sem formaður félagsins J


Hafið það sem allra best. Ég er sáttur og glaður í vinnunni alla daga. Framunda er vonandi gott sumar og sól.

Kveðja frá Súgandafirði

Róbert Schmidt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 2.5.2008 kl. 17:37

2 identicon

Sé minn kæri ad lífid hjá tér er ekki leidinlegt hehe.

Bestu kvedjur í fjördinn góda.

Haltu svo áfram ad njóta listisemda lífsins.

Gurra danmörku

Jyderupdrottningin (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 18:32

3 identicon

Sæll Róbert.

Aldeilis skemmtileg lesning.

Sendu okkur meira á næstunni.

Þói Gísla.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 01:42

4 identicon

Já, aldeilis sem þú hefur það gott þarna í firðinum okkar;-)

Var fyrir vestan á blak mótinu, mikið fjör og gaman alla dagana. Bæjirnir iðuðu af lífi alla helgina.  Liðið mitt Bresi, var mjög sátt um helgina.  Já þið Júlíus eigið örugglega eftir að skemmta ykkur, aðkomu mönnum og heimamönnum í sumar.  Hlakka til að hitta ykkur sem flest aftur í sumar.

Kveðja af Skaganum

Anna Bja (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 09:46

5 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Skemmtilegar lýsingar hjá þér á menningunni þarna vestra... gaman að heyra af góðu gengi ferðaþjónustunnar þarna. Takk fyrir mig.

Jón Þór Bjarnason, 6.5.2008 kl. 10:28

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Frábært blogg hjá þér Robbi! Meira! Meira!

Júlíus Valsson, 7.5.2008 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband