Leita í fréttum mbl.is

Suðureyrarbréf Nr II

Síðasta vika var frekar erfið veðurfarslega fyrir þá sjóstangaveiðimenn sem hér hafa dvalið. Þrátt fyrir Rigatorskurbræluskít, þá róa þessir kallar nokkuð stíft miðað við heimamenn. Kannski ekki að furða því þeir hafa lagt mikið undir og eru komnir langa leið fyrir ævintýrin. En náttúran hefur sinn gang og það er ekki hægt að ráða við veðrið. Ég hef fylgst með þeim þremur hópum sem hafa verið á sjó sl daga og í morgun fengu Tékkarnir nokkra væna þorska, frá 16-18 kg fiska sem eru stórir og þungir að draga inn. Um borð í þeim báti var kvikmyndatökumaður og blaðamaður en þeir munu birta umfjöllun um ferðina þeirra í sjóstangaveiðiriti ásamt sjónvarpsþætti. Þessir karlar eru þaulvanir og hafa veitt víða um heim og eru þekktir á sínu sviði.

Veðrið í dag (mánudagur 5 maí) var fallegt, sólskin og logn í fallega firðinum. Enn er nokkur snjór í IMG_7577fjöllum en búast má við að hann hverfi hægt og rólega á næstu vikum. Rauðmagakarlarnir hafa fengið nóg í soðið og hafa tekið netin upp. Egill Kitt og Bjössi Kristmans hafa veitt rúmlega 1700 rauðmaga í fimm ferðum sem er alveg makalaus góð veiði. Börnin léku sér á reiðhjólum í dag og fólkið spókaði sig um göturnar, flutningabílarnir óku sinn hring og sumir tóku til í görðunum sínum.

Á sunnudagskvöldið skrapp ég í heimsókn til Magga Hinriks vinar míns sem er nú kominn frá Sauðárkróki alla leið vestur í Önundarfjörð til að hlúa að æðarvarpinu á ættaróðalinu Innri-Veðrará. Maggi hafði veitt nokkrar bleikjur og bauð til veislu. Við ræddum um tófuveiðar og æðarvarpið fram eftir kvöldi. Tókum svo nokkur æfingaskot úr rifflunum okkar því kvöldið áður var ein tófa að sniglast við húsið og hana þarf að fella áður en hún gerir skaða í varpinu. Æðarfuglinn vappar um og leitar hreiðurstæðis á kvöldin og það styttist í varp. Sumrið er á næsta leiti en um síðustu IMG_7611helgi snjóaði kröftuglega svo farfuglarnir klóruðu sér í stélinu. Í dag þegar ég átti leið til Flateyrar sá ég haförn sem stefndi beint inn að æðarvarpinu hans Magga og Steina á Tannanesi. Var ég fljótur að láta Magga vita.

Um daginn þegar ég var á hafnarröltinu mætti ég grágæs við hafnarvigtina. Sú virtist róleg og þegar ég nálgaðist hana hvæsti hún bara á mig. Og svo beit hún í löppina á mér og ég skellihló, fannst þetta ótrúlegt hugrekki hjá gæsinni því hún vissi ekki blessunin að hún var að bíta einn alræmdasta fuglamorðingja norðan hnífs og gaffals. Svo fékk ég upplýsingar um að Ævar Einarsson hafði alið tvær gæsir um tíma og nú fljúga þær hér um allt eins og orrustuþotur á milli húsa og í dag sá ég eina við Galtartánna.

Í dag (þriðjudag 6 maí) komu átta hópar frá þýskalandi sem staldra við í vikutíma eins og alltaf. Þeir IMG_7647dreifast á Flateyri og Suðureyri. Uppúr 20. maí koma svo hóparnir með reglulegu viku millibili út allt sumarið. Allur dagurinn fór í að skipuleggja móttöku þessara hópa og kvöldi fór í að útskýra fiskimiðin, hætturnar við strendurnar, hvaða agn er best og hvaða fiskitegundir veiðast á miðunum hér úti. Allir hóparnir voru kátir í kvöld enda fallegt veður og gott í sjó frameftir degi á morgun en svo spáir bræluskít fram að helgi sem er alls ekki gott fyrir þá.


IMG_7623ps. Tók þessar myndir í veðurblíðunni í Súgandafirði í dag.

Læt þetta duga að sinni.

Kveðja að vestan

Róbert  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo fallegt, what a wonderful world,.  Mikið er fallegt þarna í Súgandafirði.

Kveðja af Skaganum 

Anna Bja (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband