Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
25.2.2008 | 17:13
No Country For Old Men
Myndin var tilnefnd til 8 Oscars-verðlauna en hlaut 4 Oscars-verðlaun í nótt. Þeir bræður Ethan og Joel Coen þökkuðu fyrir verðlaun fyrir bestu leikstjórnina og bestu myndina á hátíðinni. Nýliðinn Javier Dardem hlaut verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki. Skora á kvikmyndaunnendur að missa ekki af No Country For Old Men.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2008 | 13:45
Á skarfaveiðum fyrir norðan hníf og gaffal
Fyrir mér er skarfurinn besti matfugl sjófugla hér við land. Ungur toppskarfur er sérlega ljúffengur og einstaklega gott hráefni í matargerð. Byssan virkaði vel þrátt fyrir frost og dálitla ágjöf yfir mestu öldutoppana. Saltstorkin og ísköld, skipti hún haglaskotunum örugglega út og uppí skothúsið. Skarfarnir féllu í sjóinn og flutu hreyfingarlausir. Háfurinn skilaði sínu hlutverki með sóma. Veiðin gekk vel og ég fann hvernig blóðið rann ákaft um æðarnar. Tilfinningin að vera úti á sjó að veiða fugl í soðið er gríðarlega góð og sterk. Ferskt sjávarloftið lék við mig og báturinn skilaði mér hvert sem ég vildi fara. Ég fann hversu lifandi ég var á þessum febrúardegi. Sólin skein og það glytti í heiðbláan himininn. Sunnan vindsperringur og 5-6 m/sek var ágætis veiðiveður. Best er þó að hafa enga sól því hún blindar mann þegar skotið er á fugl.
Veiðiferðinni lauk eftir fimm tíma en þá hafði ég veitt vel af skarfi og á landleiðinni náði ég í 10 spikfeita svartfugla sem var ágætis viðauki. Allt gekk upp og ég var ánægður með daginn. Mestur parturinn af aflanum var toppskarfur (á sjöunda tug) en aðeins fimm dílaskarfar. Í gærkveldi tók ég nokkrar vel valdar og ferskar toppskarfabringur, kryddaði með pipar og salti úr kvörn, snöggsteikti á heitri pönnu og lét svo í nokkrar mínútur í 180 gráðu heitan ofn. Lét svo bringurnar standa á borði í 10 mín áður en ég skar þær í þunnar sneiðar. Síðan setti ég dass af BBQ Caj P olíu yfir sneiðarnar og ristaðar furuhnetur. Með sykursteiktum trompsveppum og strengjabaunum, rifsberjasultu og pönnusteiktum kryddkartöflum bragðaðist toppskarfurinn einstaklega vel. Sósan rammaði máltíðina algerlega inn og úr varð veislumatur með góðu frönsku villibráðarrauðvíni.
Í forrétt bauð ég uppá heitreykta gæsabringu á salatbeði með Mangósósu, ristuðum furuhnetum og rifsberjasultu. Hún klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Þegar maður situr við matarborðið með gott rauðvín og villibráðina sem ég sótti á sjóinn tveimur dögum áður, fylltist hugur minn af gleði. Líf mitt hefur ætíð snúist um veiðar frá unga aldri og ég nýt þeirra samverustunda með fjölskyldu og vinum þegar setið er við matarborðið eftir uppskeru margra veiðiferða. Ég þakka veðurguðunum fyrir að gefa mér veiðifrið og skila mér heilum heim. Ég þakka veiðigyðjunni fyrir bráðina sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það er gott að vera veiðimaður þegar vel gengur.
Góðar stundi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2008 | 10:13
Bræður berjast
Ég er fæddur í apríl 1965 en Reynir ári síðar. Líklega hef ég verið 2ja ára gamall þegar komið er við sögu. Vinkonur mömmu, sem kíktu í kaffi, voru sífellt að knúsa litla bróður minn hann Reyni sem lá í rimlarúminu sínu og brosti blítt. Oh, hann er svo sætur og sætur...krúttípúttý....sögðu þær allar í kór. En það fór víst eitthvað í taugarnar á litla sköllótta 2ja ára Róberti stóra bróðir sem fann fyrir afbrýðisemi. Og einn daginn þegar honum var nóg boðið og fannst verulega að sér vegið, sótti litli stubburinn buffhamar í eldhússkúffuna úr hörðum málmi og dró á eftir sér hjólbeinóttur rakleiðis að rimlarúmi litla bróður. Reisti buffhamarinn á loft og ...bang...! Skerandi öskur hristi rimlarúmið og það sást ofaní kok á Reyni þar sem hann orgaði eins og stungin grís. Fjólublátt og ferkantað far mátti sjá í enni Reynis eftir buffhamarinn. Þarna stóð ég eins og mannófreskjan úr Omen og sagði; þú ert ljótur
Veit ekki hvort Reynir sé búinn að fyrirgefa mér þessa tilefnislausu árás úr launsátri í bræðikasti mínu, aðeins 2ja ára. Eða öllum hinum hernaðinum sem ég beitti öllum stundum! En það er af nógu að taka. Við vorum líklega erfiðir drengir heimafyrir á sínum tíma. Ég man eitt sinn eftir atviki þegar ég var að stríða Reyni þegar hann var að naga epli ca 7 ára gamall. Skapið hans brast á endanum. Hann tók stóran bita af eplinu áður en hann lét það vaða í áttina að mér þar sem ég stóð fyrir framan hansahillurnar heima með öllum flug- og skipamódelunum sem ég hafði legið yfir svo vikum skipti. Eplið þaut með ógnarhraða. Höfuð mitt kipptist til hliðar og eplið hafnaði beint í einni hansahillunni svo herskip og orrustuflugvélar tvístruðust um allt herbergi. Þvílíkt tundurskeyti frá litla bróður!
Efri mynd; Reynir er til vinstri á myndinni og ég til hægri. Myndin var tekin á síðasta ári eða rúmum 40 árum eftir buffhamarinn.
Neðri mynd; Reynir tv og ég th. Myndin er tekin 1971 en þá erum við 5 og 6 ára gamlir.
Meira síðar
Bloggar | Breytt 25.2.2008 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 23:16
Mögnuð saga, full af gleði og sorg
McCandless lét hvorki ástir né góða vini stöðva för sína til draumalandsins og heilsaði alltaf kurteisilega og hvarf jafnskjótt á vit ævintýranna. Hann réri á kajak niður Colorado gljúfrið alla leið til Mexíkó og þaðan um N.V.-ríkin. Það var ótrúlega skemmtilegt atvik þegar hann hitti unga danska parið á leiðinni um gljúfrið með landamæraeftirlitið á hælunum. Rútan sem hann bjó í dugði honum vel yfir veturinn. Elgurinn sem hann skaut reyndist of stór biti. Hungraði og froðufellandi brúnbjörninn vildi hann ekki því hann skynjaði eitthvað slæmt. Óvænt varð litla áin, skammt frá rútunni, honum farartálmi í leysingunum að vori.
Margbrotin saga, full af gleði og sorg. Fjölskyldan mín var sátt við þessa bíóferð sem skilur eftir sig heilmikið af góðum boðskap, fyrirgefningum, draumum, hvatningu, ótta og heilbrigðri hugsun. Ég skora á alla þá sem hafa gaman af raunsæjum myndum að skella sér á þessa frábæru mynd sem fær 4 stjörnur gagnrýnenda. Sleppið Rambo og öðru rugli um stund og farið á In to the wild.
Morgunblaðið gefur myndinni ****
24 Stundir gefur myndinni *****
Bloggar | Breytt 19.2.2008 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2008 | 10:58
In To The Wild
Í kvöld verður forsýning á myndinni In To The Wild sem Sean Penn leikstýrir. Myndin er byggð á sönnum atburðum og sýnir frá lífshlaupi Christopers McCandless og hans örlagaríku ákvörðun að hverfa úr námi ungur að aldri og halda á vit óbyggðanna í Alaska og lifa þar í sátt við náttúruöflin, dýrin og þá kosti og ókosti sem því fylgir. Ég fer í bíó í kvöld og ætla að reyna að draga alla fjölskylduna með. Er sannfærður að þessi mynd á eftir að ná langt og held reyndar að við öll höfum gott af því að sjá hana. Hvet alla til að skella sér í Háskólabíó í kvöld kl 21.00 Hér er "Trailer" frá myndinni. Kíkið á:
http://www.youtube.com/watch?v=2LAuzT_x8Ek
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2008 | 14:48
Helvítis grænmetið
Leiðindin hófust á laugardagsmorgni með verkjum í vinstra kviðarholi. Þorrablót Súgfirðingafélagsins var sama dag og minn ætlaði sko ekki að fórna því fyrir einhvern magaverk. Harkaði því af mér og drakk minn bjór og át minn sviðakjamma með fjölskyldunni og góðum vinum. Morguninn eftir vaknaði ég enn verri og ekkert annað í stöðunni að kíkja til læknis. Eins og mig grunaði var ég sendur umsvifalaust á Bráðamóttökuna við Hringbraut. Röntgenmyndir, blóð- og þvagprufur, hitamælir og allur helv pakkinn. Ekkert fannst. Jú, því var strax slegið fram á Læknavaktinni að þetta gæti verið bólgur í ristli. Án þess að fara nánar út í það, þá grenjaði ég mig heim eftir 4 tíma í sjúkrarúminu. Það tókst en ég var bara í svokölluðu leyfi.
Mánudagur rann upp blautur og sársaukafullur. Ég mætti aftur á Bráðavaktina og tékkaði mig inn. Beið á biðstofunni í rúma tvo tíma. Las flest þau blöð sem á borðinu voru t.d. Gestgjafann frá 1985, sama ár og dóttir mín fæddist, Farvís frá 1992, Lifandi vísindi, Hello, S&H o.fl ágæt tímarit. Fróðlegt. Svo kom hjúkrunarfræðingur til mín með lítra af vatni í könnu og bað mig kurteisilega að hella vatninu í mig fyrir sneiðmyndatöku. Nú, jæja, það á sem sagt að fylla mann af vökva Ég gerði eins og ég var beðinn um og drakk vatnið. Svo fékk ég voðalega langa og fína nál í höndina og slöngu með stútum. Þarna sat ég eins og sjúklingur og beið eftir aftökusveitinni.
Sneiðmyndatakan gekk prýðilega vel. Þær dældu einhverju skuggaefni í handlegginn og mér volgnaði um skrokkinn. Biðstofan tók svo á móti mér og á ný tók ég til að fræðast niður blaðastæðuna. Þrír tímar liðu og ég var nú farinn að þekkja flest starfsfólkið þarna. Mér var líka hugsað um persónuna The Truman Show sem Jim Carrey lék svo vel hér um árið. Raunveruleikasjónvarp fylgdist með honum frá fæðingu og í lokin sigldi hann á vegginn í myndverinu á flótta frá bænum sínum út í lífið. Hvar eru helv myndavélarnar- hugsaði ég og skimaði í allar áttir. Nei, ussuss, það væri nú meiri þátturinn ef ég væri aðalleikarinn. Ekkert nema fugladráp út í gegn.
Svo kom ung ljóshærð kona til mín og spurði mig til nafns. Jú, ég er Róbert,- svaraði ég og stóð upp með slönguna og allt draslið í hendinni. Niðurstöðurnar voru loksins komnar. Ekkert sýklalyf getur bjargað þessu kallinn minn. Vertu duglegur að bryðja Parkódín og svo mikið af brauði og grænmeti. Ég tók kipp. Ég trúi þessu ekki. Grænmeti! Þvílík martröð og þvílíkur dauðadómur. Á útleiðinni náði konan í afgreiðslunni að krúnka mig um 20.000 kr fyrir það eitt að láta læknirinn minn segja mér að ég eigi að borða meira grænmeti. Þar fóru 9 Klst á biðstofu ofaní helvítis salatskálina. Þetta voru mikil vonbrigði. Ég fór að telja upp það grænmeti sem ég borða; kartöflur, gular baunir, paprika, sveppir, rabarbari, já, ekki gleyma honum. Og svo sykurbaunir og strengjabaunir. Reyndar borða ég þetta grænmeti með miklu magni af kjötmeti. Já, ég er og hef alltaf verið hreinræktuð kjötæta. Borða lítið af brauði og mjólkurvörum, aldrei smjör nema á bakaða kartöflu eða grillaðan maísstöngul. Hva, ég borða helling af grænmeti. Nei, það er ekki sama var mér sagt.
En mér líður sæmilega í dag. Reyndar ekkert borðað mikið af grænmeti en þó nokkuð af brauði sem er alveg ágætt. Mín niðurstaða hefur alltaf verið til staðar. Ég bara vissi ekki alveg af henni. Hún er; ég er kjötæta og þarf meira grænmeti. Svo einfalt er það. Ég væri fínn í auglýsingu um grænmeti. Þeir segja að það sé holt að borða grænmeti. Ég veit það ekki. Ég borða ekki grænmeti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2008 | 15:44
Hvert fóru vetrarstillurnar?
Veiðitímabilið á skarfi og önd lýkur 15 mars nk, þannig að tíminn styttist verulega og hver fer að verða síðastur að ná sér í þessa góðu steik. Vetrarmánuðirnir; janúar, febrúar og mars eru notaðir í skarfaveiðina en venjulega veiði ég talsvert mikið af þessum skemmtilega fugli og á því nóg út árið. Frábær matur í veislur og sem veiðinesti. Tvímælalaust besti sjófuglinn í matreiðslu, sérstaklega ungur toppskarfur. En vonandi rætist úr tíðarfarinu og vetrarstillurnar líti dagsins ljós svo himinn og haf rennur í eitt.
Yfirleitt hef ég tjaldað til 2ja nátta í einni ferð yfirveturinn út í lítilli eyju sem er hálfgert sker. Hugsa að þessi litla eyja sé varla meiri en 70 m að lengd og 30 á breidd. Skarfurinn sækir mikið í hana og fluglínan er sitthvoru megin við eyjuna. Stundum þegar snjór er yfir öllu og frost er úti, þá tjalda ég á skerinu og dvel þar í 1-2 daga. Hleð hugann af fersku sjávarlofti og bjartsýni. Tæmi svo í leiðinni út helvítis borgarstressið. Ég hreinlega get ekki beðið eftir að komast vestur/norður að veiða. Ætli ég verði bara ekki að semja við Sigga Storm um að spá logni næstu vikurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2008 | 14:26
Frábært þorrablót Súgfirðingafélagsins
Nokkrir urðu veðurtepptir fyrir vestan en þó var flogið síðdegis á laugardeginum sem færði okkur samt sem áður hressa Súgfirðinga. Þegar ég gekk um salinn og sá öll þessi ungu bros vissi ég að við stjórnarmenn erum á réttri leið með félagið. Þetta er hraustleikamerki sem verður að hlúa að. Stofnaðir verða ungliða-vinnuhópar innan félagsins sem sér um að sameina fjölmarga yngri árganga og koma með nýjar hugmyndir í félagsstarfið.
Læt þetta duga að sinni. Heilsan hefur víst ekki verið uppá marga fiska síðustu daga. Ligg með ristilbólgu heima og bryð verkjalyf.
Efri myndin: Ég með Berglindi dóttur minni.
Neðri myndin: Hallgerður, Inga, Þorgerður og Alda
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2008 | 00:27
Gat í naflann / Samningur
Mótlætið var talsvert enda félagslegur þrýstingur frá kynsystrum hennar á sama aldri. Þú ert bara ekki með aldur til að vera að glenna einhvern naflahring út í loftið. Ekki einu sinni fermd, sagði ég við hana í ákveðnum tón sem hún skildi. G-strengs dagarnir á undan voru mjög erfiðir. Hún varð að fá að ganga í G-streng eins og hinar stelpurnar, alveg sama hvað tautaði og raulaði. En við vorum nú ekki alveg sammála henni með það. Einu sinni tók ég alla G-strengina og setti í poka og faldi þá um tíma. Mér fannst þetta ekki við hæfi að 12-13 ára stúlka væri með G-streng langt uppá bak í skólanum og á öðrum opinberum stöðum. Síðan bannaði skólinn þessar pjötlur og eitthvað dró úr notkuninni.
Mikið var rætt um naflagatið og við reyndum hvað við gátum að gera henni grein fyrir ókostunum sem þessu fylgdi. Ég vil fá gat í naflann,-ég vil fá gat í naflann hljómaði um íbúðina líkt og Karíus og Baktus vildu fá Fransbrauð og ekkert kjaftæði. Þá brá ég á það ráð að varpa fram þeirri hugmynd að við myndum gera skriflega samning okkar á milli og við samningsrof yrði naflagatið úr sögunni og allir hringirnir teknir úr umferð. Jú, heldurðu að mín komi ekki með útprentaðan samning sem hljóðar eftirfarandi og orðrétt:
Gat í naflann / Samingur
Af hverju vil ég það...??????
Af því:
1.mér fynnst það flott
Hvernig ætla ég að haga mér...????
Ég ætla:
1.ég geri þetta bara fyrir mig ekki neina aðra
2. ég ætla að haga mér skikkanlega
3. ég ætla að hjálpa til á heimilinu
4. Ég ætla ekki að vera að glenna þetta
5. ég hlýði öllu sem þið segið
6.og geri allt strax
7.verð góð við allt og alla
8.enginn fýla
9.alltaf passa litla róbert
10.verð alltaf góð við ykkur
11.Verð minna inn í herbergi
Og meira hjá ykkur frammi
12.og stend við allt sem ég segi....!!!!!!!!!:)
3/07 2004 Þórunn Hanna
Jahá, svo mörg voru þau orð. Hljómar eins og Naflagatsboðorðin tólf. En hvernig er hægt að neita svona samningi? Fyrst var settur á aðlögunartími til að sannreyna alvöruna á bakvið boðorðin tólf. Jú, það gekk býsna vel og það var ákveðið að handsala samninginn í votta viðurvist og sú stutta fékk gat í naflann. Það var eins og hún hafi fengið risa vinning í happadrætti. Æi, dúllan litla komin með gat í naflann. En þú manst hvað stendur í samningnum sem hangir á ískápnum Þórunn? Jájá, ég get nú ekki annað. Sé hann á hverjum morgni,- svaraði hnátan.
Árin liðu og í haust fann ég þennan óborganlega samning aftur og hengdi á ískápinn á ný. Hún brosti og rifjaði þetta upp með okkur. Ég er ekki frá því að hún hafi staðið nokkurn veginn við samninginn þessi elska. En tattó fær hún ekki. Sama hvaða samning hún setur á blað. Og hún veit það. En þetta kennir börnunum að virða skoðanir og gefa eitthvað af sér í staðinn. Reglurnar sem voru settar voru ósköp eðlilegar. Númer eitt; að þrífa gatið vel og vera ekki að glenna hann út í loftið öllum stundum. En ég er líka nokkuð viss um að hún hafi einmitt ekki staðið við fjórða boðorðið eins og lofað var. En það skiptir engu máli núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2008 | 17:36
Teiknibóluhernaður
Ég var sérstaklega stríðinn drengur og sá spaugilegu hliðina á mörgu. Meira segja þegar aðrir fengu teiknibólu í rassinn. Mér þótti þetta mjög saklausir hrekkir í þá daga og furðulegt að ég skuli hafa sloppið svona vel frá þeim. Mamma var fljót að átta sig á teiknibólustríðinu á heimilinu og fjárfesti í klossum sem hún fór sjaldan úr. Enda ekkert skrítið því stiginn heima var mest notaður í þennan hernað. Klossarnir hennar voru þaktir teiknibólum þ.e.a.s. sólarnir. Á endanum þurfti mamma að setjast niður og gefa sér góðan tíma til að pikka teiknibólurnar úr. Klossarnir voru orðnir valtir. Aumingja mamma!
Reynir bróðir svaf vært einn morguninn. Hann er ári yngri en ég og var mjög viðkvæmur í nefinu. Fékk blóðnasir við minnsta tækifæri. Mér fannst hann líka vera smá kisa í sér og ákvað að skipuleggja lítinn hrekk. Daginn áður mátaði ég rúmið hans, fór frammúr og æfði þetta um stund. Ég vissi nokkurn veginnhvernig hann færi útúr rúminu sínu og hvar fæturnir myndu snerta gólfið. Tveimur teiknibólum var síðan komið haganlega fyrir á gólfinu, nákvæmlega þar sem ég hafði reiknað út að hann myndi stíga niður. Nýr dagur rann upp og allir á fætur. Reynir kúrði aðeins lengur á koddanum og ég læddist niður í morgunmat með hrekkjalómaglottið á andlitinu. Ég man vel hvað ég átti erfitt með að borða Cheeriosið mitt á neðri hæðinni fyrir hlátri. Hvenær skyldi öskrið koma frá erfi hæðinni? Jú, ekki leið á löngu þar til skaðræðis öskur barst um allt húsið svo eldhúsklukkan nötraði og skalf. Ég stökk í stígvélin, snaraði skólatöskunni á bakið og rauk út í snjóinn skellihlæjandi. Forðaði mér frá litla bróður sem kom öskrandi reiður niður stigann með tárin í augunum. Teiknibólurnar voru greinilega rétt staðsettar.
Meira síðar...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)