Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Erfitt val fyrir Öskudaginn

Öskudagurinn er runnin upp með tilheyrandi búningaskaki og sælgætisbelti fyrir Gamla Nóa og önnur þekkt lög. Já, öskupokarnir eru á undanhaldi og búningarnir orðnir dálítið ýktir miðað við hér í denn...jájá, ég veit að ég er orðinn gamall. Ég skrapp með son minn, Róbert 8 ára, í stærstu Oskudagur8leikfangaverslun Kópavogs sl. sunnudag. Fólk hljóp á milli búðarrekkana í miklum ham. Hver að verða síðastur til að klófesta öskudagsbúninginn. Við feðgar gengum rólegir að búningarekkanum og þegar hann blasti við, sáum við að þar héngu fáeinar flíkur og nokkur plastsverð. Ég leit á þann stutta sem stóð hreyfingalaus og starði á hálf tómann vegginn. Það glytti í smá örvæntingu í augum hans og svo leit hann upp til pabba síns með sínum hvolpasvip. Ég lagði aðra höndina yfir axlirnar á honum og sagði “Heyrðu kúturinn minn. Það er bara allt uppselt. Hvað gera Danir þá?” Og ekki þurfti ég að bíða lengi eftir svari frá honum –“Ég veit það ekki pabbi. Ég er ekki Dani”

Hagkaup var næsti viðkomustaðurinn. Úrvalið var ágætt. Varúlfar, Bart Simpson, beinagrindur, sjóræningjar, prinsessukjólar og alls kyns hárkollur. Hvað langar þig til að vera kúturinn minn? spurði ég þann stutta –“Hmm, veit ekki. Kannski bara prinsessa.” Prinsessa, hvað meinarðu strákur? Langar þig tilPrinsessaað vera í þessum skærbleika prinsessukjól út í kuldanum og innan um alla strákana? “Já, ég er alveg til í það,” svaraði litli gaurinn og glotti. Ég var ekki alveg viss um hvort hann væri að gera at í gamla manninum. En síðan sá hann svakalega ógeðslega varúlfagrímu sem hann pantaði. Úff, sem betur fer! Ekkert mál, ég skal kaupa þessa grímu,- sagði ég. “Og svo þennan vofubúning,” segir hann aftur. Ekkert mál, vofubúningur og varúlfagríma. Hljómar betur en skærbleiki prinsessukjólinn. Drífum okkur heim kúturinn minn. Málið er leyst.

Þegar við gengum útúr Hagkaupum áleiðis í gegnum Smáralindina spurði litli “varúlfurinn” pabba sinn hvort við gætum ekki kíkt í Leikbæ á efri hæðinni. Jújú, kíkjum þangað, ekkert mál. Og viti menn. Þar sá hann draumabúninginn sinn. Hermannabúning. “Vááá pabbi, sjáðu þennan búning.” Jæja, þar kom að því. Karlagenið hafði yfirhöndina. Áhyggjur mínar um prinsessukjólinn bleika hvarf endanlega inní Hermadurinnmannhafið á göngunum. Hermannabúningurinn var keyptur í snatri og málið afgreitt með brosi. Af einhverjum orsökum á litli haug af leikfangabyssum heima í skáp (veit ekki hvaðan hann hefur þá áráttu) sem klæða búninginn fullkomlega. Með fulla poka af búningum og grímum leiddumst við út í snjóinn og það var létt yfir okkur feðgum. Sérstaklega mér. Eftir kvöldmatinn fórum við svo í koddaslag og það voru sko engir prinsessutaktar í litla kútnum mínum. Ég hló í gegnum koddahöggin frá honum þar sem hann hoppaði uppí rúminu alveg spinni gal úr fjöri. Kannski var hann að hefna sín á mér fyrir að kaupa ekki prinsessukjólinn? Já, Sæll. Ég held nú ekki.

Góðar stundir

Snjórinn færir gleði og sorg

Var að tala vestur í Súgandafjörð við vin minn Sigurþór Ómarsson sem flaug þangað fyrir helgi til að skella sér á þorrablót. Öfunda hann mikið. Ég spurði hvort væri mikill snjór? “Ja, mér finnst dálítið af snjó hér en Arnari frænda finnst lítið af snjó núna. Við erum búnir að gleyma því þegar við bjuggum hér Leigubíll tekur við farþegum snjóbílsins ÍsafjarðarmeginRobbi. Það sást ekki í sum húsin fyrir sköflum, manstu?” segir Sigurþór og hlær. Já, Vestfirðingar vita vel hvað snjór er og einnig þegar snjóar mikið. Reyndar hefur mikil breyting orðið á hvað varðar snjóþyngsli líkt og var sem mest hér um árin. Fyrir 1950 voru snjóþyngslin jafnvel meiri en á árunum 1965-1990. Það er varla fyndið að segja frá því hvað mikill snjór var í Súgandafirði sum árin. En við púkarnir elskuðum snjóinn. Klifruðum uppá atvinnuhúnæðin, stukkum þar framaf gargandi af spenningi og skaflinn gleypti okkur. Bara lítil og dimm hola niður í skaflinn. Oft þurfti að grafa upp einn og einn sem fór djúpt. Menn fóru heljarstökk, flikk flakk, út og suður. Bara ef mikill snjór var fyrir neðan. En það var vont að lenda þegar olíutunnurnar voru þar undir! Snjómælingatækin okkar púkanna voru víst ekki nægjanlega þróuð í þá daga.

Trillurnar sem stóðu í röðum á kambinum við sandfjöruna breyttust í sjóræningjaskip og skipt var í lið. Flugeldaprik breyttust í glansandi beitt sverð, brotin kústsköft urðu að kraftmiklum rifflum, ómerkileg plaströr breyttust í örvaboga og bara til öryggis og vara, þá mátti glytta í eina og eina teygjubyssu í rassvösum sumra púkanna. Í einu trillustríðinu, þegar eitt áhlaupið stóð sem hæst, féll einn fyrir borð. 47023Hvorki hákarlskjaftur né hyldjúpt hafið varð honum að meini. Heldur frosin og grjóthörð möl. Það greip um sig þögn um stundarkorn. Þarna stóðum við þrælvopnaðir og horfðum niður á fórnarlambið.  Skerandi öskur bergmálaði frá Hádegishorninu yfir í Norðureyrargil. Jú, það fór ekki á milli mála. Við erum einum færri í okkar liði. Vopnahlé! Sá slasaði var fluttur heim á sleða. Hann reyndist illa fótbrotinn. Nefnum engin nöfn. Hann skrifar kannski í gestabókina mína von bráðar um þetta atvik ef hann man eftir því!

Snjórinn er og hefur alltaf verið hluti af tilverunni fyrir vestan. Flestir sætta sig við hann, taka honum eins og sjálfsögðum hlut. En stundum tekur snjórinn mannslíf og þá hvílir sorgin ofaná sköflunum. Veðurguðirnir skammast sín og hljótt er til fjalla. Samkenndin verður mikil í litlu þorpunum eftir gríðarlega blóðtöku náttúruaflanna. Fátt er um svör og mennirnir moka.

En það birtir með hækkandi sól og dagarnir lengjast. Æðurin úar á lognsælum firðinum og hljómfagur hávellusöngur berst varlega uppí fjörugrjótið. Mávarnir sveima og syngja  yfir höfninni. Trillurnar strika út fjörðinn með frosna bala. Krummi situr á ljósastaur og krunkar. Lífið heldur áfram og það fennir yfir 56002sorgina. Bros færast yfir rjóð barnsandlit með skólatöskurnar á bakinu. Þau hlaupa inn götuna og gamli skólinn tekur þeim opnum faðmi. Sjóræningjaorrustur á fjörukambinum og stökkvandi púkar af húsþökum er nú horfin tíð. Áherslurnar lagðar á tölvuleiki og sjónvarpsgláp til dægrastyttingar. Horfinn er stórbrotinn ævintýraheimur sem við kveðjum með söknuði. En minningin lifir og gleður hugann þegar hann snjóar úti. Það var gott að vera púki í Súgandafirði.
 

Meðfylgjandi myndir tók Sr Jóhannes Pálmason á árunum 1950.

Góðar stundir



Fallegur dagur

Það var fallegur dagur í dag. Sunnudagur eins og hann gerist bestur. Snjór yfir öllu, sólskin og mannfólkið á iði. Við feðgar skruppum í Heiðmörk eftir hádegið með myndavélina og röktum rjúpnaspor um allan skóg. Hvert sem litið var, sáust kræklótt rjúpnaspor í hvítri mjöllinni. Snjórinn Rjupa i Heidmork IIglitraði og veður var stillt. Fólk á skíðum, í gönguferð með hundana sína og sumir bara á rúntinum. Gott að komast úr borginni uppí sveitina þar sem ferska vetrarloftið leikur um allt. Rjúpurnar kúrðu undir furutrjánum eða hlupu um í kjarrinu. Þær leika sér líka þegar veður er gott. Ropið í karranum gaf til kynna að óboðnir gestir væru á óðalinu hans. Með vængjaslætti lyftu þær sér fimlega upp yfir skóginn og hurfu sjónum okkar. í stað þess að hugsa um rjúpnaveiðar, setti ég mig í ljósmyndarastellingarnar. Með stóru linsuna náði ég nokkrum ágætum myndum en hefði viljað eyða lengri tíma í myndatökurnar. Setti nokkrar myndir í myndasafnið hér á síðunni til gamans.

Góðar stundir

Reyktur lundi er þjóðlegur matur

Á þessum sólríka febrúardegi ákvað ég að kíkja við í Kolaportið og kaupa harðfisk. Frekar fátt var Lundi a diskium manninn á þessum sérkennilega stað en íslenski maturinn var á sínum stað. Ég keypti hertan steinbít frá Óskari Friðfinns og herta ýsu frá Breiðadal í Önundarfirði. Meiriháttar góður harðfiskur en alltaf finnst mér harðfiskurinn hans Bjössa Kristmans á Suðureyri bestur. Flatkökur og ástarpungar fengu að fljóta með í innkaupapokann. Svo var kíkt í heimsókn til mömmu á eftir í rjómabollur.


Við feðgar biðum spenntir eftir kvöldmatartímanum því ég hafði tekið reyktan lunda úr frystikistunni í Flottur diskurgærdag. Báðir erum við sólgnir í reyktan lunda og sá stutti átti erfitt með að bíða eftir matnum. Ég sauð lundann í tæpa tvo tíma og kældi í soðinu á eftir. Forsoðnar kartöflur voru steiktar á pönnu með kryddhjúp og uppstúf til að bleyta uppí lundanum. Alveg ótrúlega þjóðlegur og góður matur. Kvenfólkið á heimilinu, sem ættaður er úr Kópavogi, var ekki eins hrifið af reykta lundanum en húsfreyjan smakkaði smá og fannst hann góður. En það var orðið of seint því þeir sex lundar sem soðnir voru kláruðust á stuttum tíma ofaní okkur tvo.

Svo verður raðað í sig rjómabollum frameftir kvöldi, á morgun og hinn. Kannski þjóðlegur siður líka en ekki mjög hollur að sama skapi.

Góðar stundir

Gullmolar barnanna

Yngri sonur minn, Róbert, var eitt sinn með mér í bílnum á ferð um Hafnarfjörðinn. Ætli hann hafi ekki verið í kringum 3ja ára aldurinn. Hann horfir útum gluggann og segir; “Pabbi, þarna er kirkjugarður.” –Nei, kúturinn minn, þetta er kartöflugarður,- segi ég. Sá stutti hugsar um stund og segir svo “Já, þetta er svona kartöflukirkjugarður”  Tounge

Arnór, eldri sonur minn er nú 16 ára. Eitt sinn, þegar hann var 4 ára, sátum við í eldhúsinu og hann blaðraði og blaðraði, gat ekki stoppað enda veikur heima en samt nokkuð sprækur. Ég spyr hann; “Arnór, ertu með munnræpu eða hvað?” Þá svarar sá stutti; - Nei, ég er með hlaupabólu pabbi. Tounge

Þórunn, stjúpdóttir mín, þurfti að skila verkefni í skólann þegar hún var 8 ára gömul. Spurt var; Nefndu fjóra kaupstaði á Íslandi. Hnátan var nú ekki lengi að svara því skriflega og ég hló mikið þegar ég las svarið: Bónus, Hagkaup, Nóatún og Samkaup. Tounge

Góðar stundir Smile




« Fyrri síða

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband