Leita í fréttum mbl.is

Púkalífið fyrir vestan

Sem innfæddur Súgfirðingur ólst ég upp í faðmi hárra fjalla og í návist hafsins. Fjörðurinn var þröngur og langur. Afskektur yfir vetrartímann en galopinn á sumrin. Frjálsir sprikluðum við púkarnir um milli fjalls og fjöru. Þar var engin staður sem við þekktum ekki. Sumrin voru ævintýri frá morgni til kvölds. vest_woodForeldrar höfðu engar áhyggjur. Við átum súrblöðkur, hundasúrur, rabarbara og stolinn harðfisk, svona rétt til að fá næringu á milli Tarzan-leikjanna. Við hlóðum birgi úr grjóti í hlíðinni fyrir ofan þorpið. Ómurinn frá höfninni og vinnandi fólki barst fjörðinn. Á meðan lékum við um grundirnar og nutum þess að vera frjálsir púkar og heimurinn blasti við okkur. Við gátum allt, við vorum allir hetjur með kústsköft og teygjubyssur, málaðir í framan með hrafnsfjaðrir í höfuðbandinu og létum öllum illum látum eins og sannir indíánar gerðu í John Wayne myndunum. Kúrekarnir skutu indíánana af hestunum, því þeir voru  vondir og grimmir. Þannig var þetta matreitt af hvíta tjaldinu ofaní okkur púkana. En ég man nú samt hvað við vorum allir indíána-hollir enda var miklu meira gaman að mála stríðsmálningu á sig og skreyta fatagarmana með fjöðrum og glingri.

Eftir skóla var skólatöskunni hent inní gang eða garð hjá næsta vini og hlaupið út í lífið. Ekki mátti missa af neinu. Við smíðuðum fleka úr timbri og einangrunarplasti, ruddum þeim yfir fjörugrjótið og út í sjó. Rérum stoltir meðfram ströndinni, frjálsari en fyrr og nú komnir í alvöru sjóræningjaleiki. Flekarnir voru frekar valtir og óþéttir. Þessu var reyndar ekki vel tekið af körlunum sem unnu við höfnina. Þá voru engin björgunarvesti í boði. Flekaævintýrið stóð yfir í nokkur sumur ef ég man rétt. Og það endaði þegar tveir púkar á fleka bárust með straumnum inn fjörðinn að gömlu sundlauginni eða í um 4 km frá þorpinu. Þá voru naglarnir teknir af okkur og við skammaðir.

Veturnir voru oft harðir og snjóamiklir. Húsin fóru á kaf og færðin um þorpið var bílum erfið. Aðalmaðurinn var hann Gaui á jarðýtunni. Gaui ýtti snjónum í stór fjöll hist og hér. Það hristist úr Jeppikaffibollum þegar jarðýtan skrölti Eyrargötuna og Aðalgötuna. Snjófjöllin urðu að leikvelli um leið. Eins og merðir grófum við göng og hús um þessa hóla, gerðum virki og börðum okkur á brjóst. Eitt lið niðri og eitt lið uppi. Árás. Gaui var ekki öfundsverður á ýtunni. Þegar við heyrðum ýtuna nálgast með látum, þustum við út um öll göt á hólnum eins og minkar úr stórgrýti á flótta undan eldi. Gaui kallinn þurrkaði af sér svitann, steig út á stálbeltið og gargaði til okkar. Það hefði verið hræðilegt ef jarðýtan hefði rutt hólnum til með okkur púkana inni. Þá værum við fæstir á lífi í dag, geri ég ráð fyrir.  

Afi minn, sem málaði húsin í þorpinu á sumrin, sagði mér seinna meir að einangrunin og hin harða lífsbarátta í þessu litla samfélagi herti okkur öll upp og fyrir vikið værum við andlega og líkamlega sterkari þegar út í lífið kæmi. Afi sagði satt. Það voru forréttindi að fá að alast upp fyrir vestan. Hinir hörðu og myrkvuðu vetrarmánuðir, sem voru að vísu erfiðir, tóku sinn toll. Þá voru engin jarðgöng. Oft þurfti varðskip til að koma nauðsynjavörum til þorpsins þegar heiðin var á kafi svo vikum skipti. Snjóbíllinn gerði það líka. Hann sótti lækni og flutti sjúka. Svo þegar fyrstu sólargeislarnir brutu sér leið í gegnum skýin í vetrarstillunum, var gott að standa í snjónum og finna varmann frá sólinni.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Einangrunin er nú lítil sem engin í Súgandafirði. Gatið breytti mörgu. Eða eins og Siggi Ísmaður sagði forðum; “Við værum illa settir ef ekkert gatið væri.” Já, það má Batarskilja þetta á ýmsa vegu en nokkuð til í þessu hjá kallinum. Ég horfi oft um öxl og hverf í huganum heim í fjörðinn minn. Æskuminningarnar svífa þar um, fjöllin eru á sínum stað, skerið og Gölturinn stendur hrapandi brattur í fjarðarminninu. Hvítur skarfakletturinn undir Galtarbænum, sandströndin á Norðureyri, Selárdalurinn, Staðardalurinn og Sauðanesið. Allt á sínum stað og fer ekkert í bráð. Fólkið kemur og fer en fjörðurinn fer ekkert. Ég er ekki frá því að einangrunin fyrir vestan hafi hert mann meira en maður bjóst við. En eitt er víst að það sem hertist mest var étið og hélt lífinu í okkur púkunum. Harðfiskurinn er bestur fyrir vestan.

Góðar stundir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

úffff.....já hver man ekki eftir þessum strákpúkum grýtandi í okkur stelpurnar grjóthörðum snjóboltum, já og þegar þú skrifar um Gauja á jarðýtunni þá gat ég ekki annað en skellt uppúr það það lék allt á reiðiskjálfi þegar hann fór framhjá húsunum . Annars er allt komið á kaf hérna núna það var snælduvitlaust veður í nótt en orðið bjart yfir að líta núna svo kannski komumst við hellisbúarnir hérna yfir á Ísafjörð að kaupa okkur þorramat.

Stórskemmtilegur pistill, kær kveðja til þín og þinna.

                                                   kveðja Halldóra.

Halldóra Hannesdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 12:25

2 identicon

Góður "fleygur úr fortíðinni"....skaust aftur um "nokkur"´ ár þegar ég las þetta. Man þegar að Gaui var að moka Eyrargötuna í vitlausu veðri og ég var einn úti að þvælast í stórhríðinni. Ég ákvað að "njósna" um ýtuna, stökk eins og rotta á milli ruðninga og laumaðist alveg fyrir aftan hana. Gaui sá þetta allt saman og til að forða því að ég asnaðist nú undir ýtuna að þá stoppaði hann. Við það skall ég með hausinn á tönnina og hljóp heim alblóðugur. Gaui kall greyið kom heim á eftir mér og talaði blíðlega við púkann um hversu hættulegt þetta væri. Ég lét mér þetta að kenningu verða og njósnaði um ýtuna úr lengra færi næst

Kv Elli púki

Ellert Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 13:22

3 Smámynd: Róbert Guðmundur Schmidt

Sæl Halldóra, ég var nú ekkert að rifja upp eineltið sem við púkarnir lögðum ykkur stelpurnar í forðum daga. Það er sjálfsagt engin stoltur af því en sem betur fer, þá slasaðist engin stelpa af þessu snjókasti okkar strákanna!

Elli,- já, ég man vel eftir þessari sögu þegar þú njósnaði um ýtuna og fékkst gat á hausinn. Það er hægt að skrifa heilu bækurnar um púkalífið fyrir vestan. Þetta eru minningar sem við tökum með í gröfina nema einhver góður myndi færa þetta á blað í eitt skiptið fyrir öll.

Kv

Robbi púki

Róbert Guðmundur Schmidt, 31.1.2008 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband