10.1.2009 | 17:21
Jólaslenið gengið af sér á Esjunni
Það var kominn tími til að hrista af sér jólaslenið og hreyfa sig eitthvað af viti á nýja árinu. Við Sigurþór ákváðum að ganga á Esjuna í morgun, sem við gerðum, en ef veðrið hefði verið betra, skyggnið gott, þá hefðum við farið alla leið. En ákvörðunarstaðurinn endaði við Steininn skammt frá brúnum Esjunnar. Anna Bjarna kom rétt á eftir okkur með 25-30 manna hóp nema frá Skaganum en Anna er íþróttakennari þar í bæ og er þetta verklegur hluti af kennslunni.
Við Sigurþór höfðum gott af þessu og gekk ágætlega að arka leiðina sem var blaut og snjór var niður í miðjar hlíðar. Við sáum tvær rjúpur á hlaupum rétt við Steininn þar sem áð var. Þrátt fyrir að maður hafi hreyft sig ágætlega í nóvember í rjúpnaveiðinni, þá er maður fljótur að ryðga. Eftir ferðina fékk ég smá harðsperrur en það er fylgifiskur sem sjaldan hverfur þegar gengið er á fjöll eftir hvíld.
Við ætlum að reyna að hittast á laugardagsmorgnum kl 10.00 og hvetjum aðra Súgfirðinga og vini að hittast þar og ganga á Esjuna þegar færi gefst og veður leyfir.
Ég setti nokkrar myndir frá ferðinni í myndasafnið.
Kveðja
Róbert
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.