22.8.2008 | 14:55
Á gæsaveiðum
Þá er gæsaveiðitímabilið hafið en það hófst sl miðvikudag 20 ágúst og minn fór í opnun að venju í Hrútafjörð og vinur minn Unnsteinn Guðmundsson var byssa nr 2. Gríðarlegt magn var af gæs daginn áður á svæðinu en spáin var ferlega leiðinleg, logn og sól, sem er eins konar "opnunar-martröð" á gæs. Þá sér hún betur og hangir á sjónum og fer síðan í hlíðarnar í berjamó. Og það var nákvæmlega það sem gerðist þennan miðvikudagsmorgunn. Hún lét varla sjá sig yfir túnunum en um hádegið voru komnar 5 gæsir í tún og útlitið ekki bjart.
Við Unni fórum í klukkustundar pásu og skildum gervigæsirnar eftir á túninu. Fórum með flugustangirnar í sólinni og settum í tvo fallega 1,5 og 2ja punda urriða. Því næst þurfti Unni að keyra heim í Grundarfjörðinn og ég tyllti mér bara aftur í skurðinn og lét fara vel um mig. Skyndilega kom stór hópur yfir og þá náði ég að slíta niður 3 gæsir og stuttu á eftir kom annar ágætur hópur og þá lágu 4 gæsir, þar af tvær í einu skoti. Minn var sáttur með það og í voninni beið ég fram eftir degi en engin kom gæsin.
Daginn eftir hélt ég heim í Kópavoginn og í dag horfði ég á frábærann handboltaleik þar sem okkar menn burstuðu Spánverja og erum komnir í úrslitaleikinn sem verður sýndur á sunnudagsmorguninn næsta. Eins gott að vera ekki á gæs þá. En sem sagt, þá náðust 12 gæsir í fyrstu ferðinni og vonandi verður haustið gott og gjöfult.
Róbert
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.