9.5.2008 | 21:34
Höfnin er lífæð allra sjávarplássa
Höfnin er lífæð flestra sjávarplássa og þar hittast sjómenn, verkamenn, fínar frúr, flutningabílstjórar,eftirlitsmenn, lögreglan og aðkomufólk. Allir sem leggja leið sína á höfnina sjá alltaf eitthvað forvitnilegt og áhugarvert. Það fyrsta sem ég geri þegar ég er á ferðalagi um landið mitt er að renna niður á höfn í því byggðarlagi sem um ræðir til að kanna mannlífið, bátana og ástand hafnarinnar og fjölda skipa. Hér í Súgandafirði er einstakt líf við höfnina og þegar bátarnir landa, þá fylkist fólk að, sérstaklega menn sem stinga saman nefjum, spjalla um aflann og veðrið í dag. "Heyrðu, hann var að fáann. Fjögur tonn af spikfeitum steinbít, bara hér rétt út af Sauðanesinu." -Jamm, hann var á gamla steinbítsblettinum mínum. Svona tala menn og taka síðan í nefið, tylla sér á bryggjupolla og ritan svífur um eins og fiðrildi hafsins í kringum hafnarkranann í von um að næla sér í smá slorbita. Sjarminn er ólýsanlegur. Aðdráttaraflið er sterkt, menn hreinlega sogast niður að höfn hvað sem raular og tautar.
Þegar veður er stillt og sólin skín er fleira fólk á ferli en venjulega. Og á kvöldin þegar trillurnar týnast til hafnar fyllist hafnarsvæðið af fólki sem spókar sig um, spjallar og hlær. Þegar ég var púki lék ég mér alla daga sumarsins við höfnina, ýmist að veiða eða skoða bátana, safna hálf ónýtum hnífum eða dunda með snæris spotta. Þar var fjörið og er þar enn. Margar af mínum bestu minningum koma frá höfninni á Suðureyri. Í gamla daga fengum við púkarnir far með trillunum frá Ísversbryggjunni alla leið inní stóru höfnina. Leiðin var löng í þá daga og frábært að kallarnir leyfðu okkur að fara með. Í dag fengi engin púki að fara með nema vera með skriflegt leyfi foreldra og í björgunarvesti. Breyttir tímar, ójá. En sem betur fer þá naut maður þeirra gífurlegu forréttinda að alast upp frjáls á milli fjalls og fjöru án takmarka og reglna. Þær voru óskrifaðar og við strákarnir vissum muninn á réttu og röngu þótt stundum brotnaði ein og ein rúða af "sjálfu sér".
Engar tölvur voru til að trufla í þá daga, farsímar, I-pod, flatskjáir né nútíma leikföng. Bara gamli góði fótboltinn, teygjubyssan, örvabogi úr bambus, gúmmístígvél, snærisspottar, vasahnífar, hamar og nagli. Eitt sumarið smíðuðum við strákarnir timburfleka úr stolnu byggingarefni sem var að vísu afgangsefni og ónýtt þannig lagað. Svo rérum við á þessum manndrápsfleytum yfir í stóru höfnina eins og ekkert annað væri sjálfsagt. Þá, reyndar, fengum við smá skammir í hattinn. En við bárum alltaf virðingu fyrir þeim eldri og vorum hræddir við kallana ef þeir hvesstu sig í framan. Hlýddum eins og hundar á flótta.
Höfnin hefur breyst mikið frá því hér áður. Þá lá þar togarinn Elín Þorbjarnardóttir, línubátarnir Sigurvon, Kristján Guðmundsson og Ólafur Friðbertsson. Trillurnar skiptu tugum. Beitingarskúrarnir voru stútfullir af duglegum mönnum í köflóttum skyrtum og kaffibrúsinn stóð á hillunni til þjónustu reiðubúinn. Frystihúsið var líka fullt af verkafólki og ljómi og líf yfir plássinu. Svo kom kvótinn, hann gekk sölum og kaupum, braskið, flóttinn, bátar seldir burtu, sumir fóru á hausinn, aðrir seldu og keyptu minni báta, sumir græddu á meðan aðrir héldu sjó og horfðu í mölina sárir en í veikri von um að allt yrði eins og áður var. Já, vissulega hefur margt breyst en það þarf samt ekki endilega alltaf að vera slæmt. Mér finnst jákvætt bara ef eitthvað líf er við höfnina heima. Þessar fáu hafsins hetjur sem staðið hafa af sér brotsjó í áratugi eru enn að og nýir teknir við í bland. Meira segja menn sem eru komnir á áttræðis aldurinn leggja rauðmaganet hér í firðinum og hafa aldrei veitt annað eins frá því menn fundu upp netið.
Ég er stoltur af höfninni heima og finnst gaman að koma þar við. Hún er sjaldnast tóm og líflaus. Æðurinn úir, hávellan syngur og mávarnir kyrja sínar óperur svo bergmálar í nærliggjandi húsum. Svona á höfnin að vera, þannig þekkir maður hana best.
Kveðja að vestan
Róbert
Þegar veður er stillt og sólin skín er fleira fólk á ferli en venjulega. Og á kvöldin þegar trillurnar týnast til hafnar fyllist hafnarsvæðið af fólki sem spókar sig um, spjallar og hlær. Þegar ég var púki lék ég mér alla daga sumarsins við höfnina, ýmist að veiða eða skoða bátana, safna hálf ónýtum hnífum eða dunda með snæris spotta. Þar var fjörið og er þar enn. Margar af mínum bestu minningum koma frá höfninni á Suðureyri. Í gamla daga fengum við púkarnir far með trillunum frá Ísversbryggjunni alla leið inní stóru höfnina. Leiðin var löng í þá daga og frábært að kallarnir leyfðu okkur að fara með. Í dag fengi engin púki að fara með nema vera með skriflegt leyfi foreldra og í björgunarvesti. Breyttir tímar, ójá. En sem betur fer þá naut maður þeirra gífurlegu forréttinda að alast upp frjáls á milli fjalls og fjöru án takmarka og reglna. Þær voru óskrifaðar og við strákarnir vissum muninn á réttu og röngu þótt stundum brotnaði ein og ein rúða af "sjálfu sér".
Engar tölvur voru til að trufla í þá daga, farsímar, I-pod, flatskjáir né nútíma leikföng. Bara gamli góði fótboltinn, teygjubyssan, örvabogi úr bambus, gúmmístígvél, snærisspottar, vasahnífar, hamar og nagli. Eitt sumarið smíðuðum við strákarnir timburfleka úr stolnu byggingarefni sem var að vísu afgangsefni og ónýtt þannig lagað. Svo rérum við á þessum manndrápsfleytum yfir í stóru höfnina eins og ekkert annað væri sjálfsagt. Þá, reyndar, fengum við smá skammir í hattinn. En við bárum alltaf virðingu fyrir þeim eldri og vorum hræddir við kallana ef þeir hvesstu sig í framan. Hlýddum eins og hundar á flótta.
Höfnin hefur breyst mikið frá því hér áður. Þá lá þar togarinn Elín Þorbjarnardóttir, línubátarnir Sigurvon, Kristján Guðmundsson og Ólafur Friðbertsson. Trillurnar skiptu tugum. Beitingarskúrarnir voru stútfullir af duglegum mönnum í köflóttum skyrtum og kaffibrúsinn stóð á hillunni til þjónustu reiðubúinn. Frystihúsið var líka fullt af verkafólki og ljómi og líf yfir plássinu. Svo kom kvótinn, hann gekk sölum og kaupum, braskið, flóttinn, bátar seldir burtu, sumir fóru á hausinn, aðrir seldu og keyptu minni báta, sumir græddu á meðan aðrir héldu sjó og horfðu í mölina sárir en í veikri von um að allt yrði eins og áður var. Já, vissulega hefur margt breyst en það þarf samt ekki endilega alltaf að vera slæmt. Mér finnst jákvætt bara ef eitthvað líf er við höfnina heima. Þessar fáu hafsins hetjur sem staðið hafa af sér brotsjó í áratugi eru enn að og nýir teknir við í bland. Meira segja menn sem eru komnir á áttræðis aldurinn leggja rauðmaganet hér í firðinum og hafa aldrei veitt annað eins frá því menn fundu upp netið.
Ég er stoltur af höfninni heima og finnst gaman að koma þar við. Hún er sjaldnast tóm og líflaus. Æðurinn úir, hávellan syngur og mávarnir kyrja sínar óperur svo bergmálar í nærliggjandi húsum. Svona á höfnin að vera, þannig þekkir maður hana best.
Kveðja að vestan
Róbert
Athugasemdir
Kannast við þetta, er búinn að vera viðloðandi höfnina hér í Bolungarvík síðan 1985, sveitastrákur að norðan, heillaði mig höfnin og karlarnir strax og ég kom hingað vestur, flott mynd af Jóa Bjarna.
Hallgrímur Óli Helgason, 9.5.2008 kl. 21:45
Yndisleg frásögn Róbert. Þér fannst það sennilega sjáfsagt, en ég held að í rauninni hafi það verið einstakt að við stelpurnar vorum jafnmargar strákunum, sem húkkuðum far með trillunum inn í höfn frá Íaversbryggju. Það var engin kynjaskipting í okkar "leikjum" og það hefur haft sín áhrif
Sigrún Jónsdóttir, 9.5.2008 kl. 22:07
Sæll Hallgrímur,
Já, eflaust þekkja margir þessa tilfinningu að vera "hafnarfíkill" og Jói Bjarna er einn af þessum "orginölum" sem er alltaf eins og alltaf á sínum stað. Flottur kallinn.
Sigrún mín, líklega er þetta rétt hjá þér. Stelpurnar fengu örugglega far með trillunum eins og við strákarnir. En ég man samt ekki eftir því að hafa leikið mikið með stelpunum nema þá einna helst í leikjum eins og Yfir, fallin spýtan, eltingaleikur ofl. En þegar við strákarnir vorum á fjöruröltinu og stálum harðfisk, þá vorum við alltaf án þeirra. Sjálfsagt hafa þær haft öðrum hnöppum að hneppa en einhver veginn gleymir maður stelpunum þegar talið berst að höfninni og þessum strákapörum. Þú verður bara að fyrirgefa mér það. En ég þakka hlý orð. Maður er eiginlega enn með heimþrá þótt ég sé kominn heim
R.Schmidt
Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 22:17
Ég var ein af þeim sem var með "lögheimili" niður á bryggju þessa daga, þekkti hljóðin í bátunum og þar sem ég átti heima við sjóinn þá var vel fylgst með. Ég var ein að þeim sem þorði ekki inní hjallana að nappa mér í harðfisk en Róbert ég man að þú reddaðir mér í þeim raunum hehe
Halldóra Hannesdóttir, 9.5.2008 kl. 23:12
Þetta var flott frásögn. Já bryggjulífið var skemmtilegt og fara í keppni um það hvað maður næði mörgum ferðum inn í höfnina, aldeilis gaman. Þetta frjálsræði hefur já breyst mikið frá því við vorum yngri. Það var alltaf líf á bryggjunum og höfninni. Leynifélögin voru mörg líka. Mikið brallað og maður man varla eftir leiðinlegum degi. Hafðu það sem best go farðu fallega inn í helgina. Kveðja Anna paa Skagen.
Anna Bja (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.