Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
31.7.2008 | 09:18
Í kóngsins Köben
Við fórum að sjálfsögðu í Tívolíið og í ýmis skemmtileg tæki. Þorðum reyndar ekki í fallturninn en fórum í Krabbann sem var hrikalegur. Vissum ekkert hvaða tæki það var en tylltum okkur bara í sætin og svo fór allt á fullt og við skriðum niður tröppurnar náfölir eftir útreiðina. Við heimsóttum dýragarðinn, Rósagarðinn, sáum lífvarðaskiptin og heimsóttum Hafmeyjuna. Veðrið var frábært, steikjandi hiti og sól. Einnig var farið niður strikið og svo keyrði Gulli vinur okkar á rauða drekanum sínum okkur um allar sveitir sem var einstaklega fræðandi og forvitnilegt. Danmörk er falleg land og Köben hefur margt sögulegt að geyma. Svo var skokkað á Nýhöfnina og fengið sér ís í góða veðrinu. Eitthvað var verslað í Fiskitorfunni eins og venjulega er gert. En ferðin var meira farin fyrir Róbert litla sem naut þess í botn. Eftir það fór öll fjölskyldan vestur í Súgandafjörð á Sæluhelgina en ég mun setja myndir frá henni í albúmið síðar. Þeir sem áhuga hafa á að skoða myndirnar frá Danmörku geta séð þær í Myndaalbúminu t.v. á forsíðunni.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2008 | 22:56
Senn líður að hausti
Það hefur margt skemmtilegt gerst hér í sumar og ég væri alveg til í að koma hingað aftur að ári og halda áfram uppbyggingu og þeirri þróunarvinnu sem átt hefur sér stað með sjóstangaveiðihópana. En tíminn einn mun leiða það í ljós. Fólkið hér er gott og mannlífið er alltaf litskrúðugt og aldrei tómar göturnar. Maður á örugglega eftir að kveðja með söknuði þegar tíminn kemur. Og við tekur borgarstressið, umferðarljósin, flugvélahávaði og fullar verslunarmiðstöðvar af hlaupandi fólki að leita af hlutum sem hafa oft ansi litla þýðingu í lífinu. Já, það er talsverður munur á landsbyggðarfólki og þéttbýlisbúunum. Ekki ætla ég að fjölyrða um muninn en ræturnar hingað styrkjast æ meir eftir því sem dvölin verður lengri. En að sjálfsögðu verður líka gott að komast heima eftir útlegðina og smala saman börnunum í skemmtilegan kvöldverð með fullt af sögum frá hverjum og einum. Þannig matartíma met ég mikils og hlakka alltaf til að sitja. Allir fá að segja frá sínum ævintýrum og framtíðardraumum. Myndir eru skoðaðar og mikið hlegið og skrafað. Ég hef saknað þess ótrúlega mikið og það hefur tekið mest á að hafa ekki fjölskylduna hjá sér.
Um helgina þurftum við Julius vinur minn á Flateyri að fara með einn breta út í Staðardalsá í laxveiði og það þótti okkur nú ekkert sérlega leiðinlegt. Þrátt fyrir laxaþurrð náðum við ágætum bleikjum í efri ánni. Laxinn kemur seint en það hefur sést til nokkurra laxa í Botni sl daga en ekki náðst að setja í neinn ennþá sem komið er. Læt hér fylgja með mynd sem ég tók af Juliusi með fallega 3,5 punda bleikju sem hann náði á flugu.
Ég reikna með að skella mér í bæinn um Verslunarmannahelgina og slaka þar á eins og mögulegt er. Nú eða skreppa eitthvað út í sveit í sólina ef hún sýnir sig. Læt þetta duga að sinni.
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2008 | 10:47
Fiskur á hverju færi
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2008 | 16:54
Meira af stórum fiskum
Enn eru þýsku sjóstangaveiðimennirnir að setja í stóra fiska. Síðast liðinn sunnudag setti einn veiðimaður í 18 kg skötusel sem þykir mjög stór skötuselur á sjóstöng, miðað við Íslandsmetið sem var sett í Ólafsvík árið 2005 en það er í dag 10,9 kg. Daginn eftir veiddu aðrir veiðimenn 13 kg skötusel og annan 12 kg og sá þriðji var um 11 kg. Sem sagt margbúið að slá Íslandsmetið hér fyrir utan Vestfirðina. Nokkrir 26 kg þorskar hafa veiðst í sumar og ótal 20 kg þorskar líka. Það er alveg með ólíkindum hversu sumir þorskarnir eru stórir. En ég hef nú uppfært Myndaalbúmið / Sjóstangaveiði all-hressilega og nú geta áhugasamir kíkt á myndirnar til sönnunar um þær sögur sem ég hef látið hér flakka. En meira um það síðar.
Myndina tók Julius Drewes af þýska veiðimanninum sem setti í 18 kg skötuselinn en sá bátur var frá Flateyri (Bobby-bátur frá Hvíldarkletti)
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2008 | 15:40
Brúðkaup í Ósvör
Eftir athöfnina var brunað heim í hús og hafist handa við að grilla átta lambalæri ásamt tilheyrandi meðlæti og brúðkaupskakan beið sem eftirréttur. Við Reynir bróðir sáum um að grilla og ég gerði 4 lítra af villisveppasósu sem kláraðist svo til alveg. Stelpurnar sáu um salatið og annað meðlæti. Farið var í karókí og nokkrar ræður haldnar. Fullt fiskikar af ís var í garðinum með kampavíni og bjór, stórt veislutjald með bekkjum og borðum, fulldekkað, tók á móti brosandi gestum seinni partinn og sólin skein langt frameftir kvöldi eins og alltaf í Víkinni. Boðið var uppá rauðvín og hvítvín með matnum og svo var gítarinn tekinn fram og Gummi tók nokkur lög ásamt Tinnu dóttur sinni sem er mögnuð söngkona aðeins 13 ára gömul en hún og pabbi hennar eru búin að æfa mikið í gegnum tíðina og sungið saman. Ingibjörg systir hennar var eins og drottning í hvíta kjólnum sínum og Anna Lind skoppaði um með rauða hárið sitt og beit sig svo í tunguna í veislunni svo pabbinn þurfti að setja ísmola í munninn hennar en allt fór vel að lokum. Meiriháttar skemmtilegt brúðkaup þar sem yfirbragðið var með heimilislegum og fjölskylduvænum blæ. Það gerist ekki betra og skemmtilegra.
Um miðnættið var haldið á Ísafjörð á dansleik þar sem veislugestir stigu villtan dans fram eftir nóttu við undirleik Euróbandsins. Læt hér fylgja nokkrar myndir frá brúðkaupin og mun setja fleiri myndir í myndasafnið von bráðar. Enn og aftur til hamingju litla systir og Gummi.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008 | 23:21
Með börnin í bleikjuveiði
Í síðustu viku skrapp ég með börnin mín þrjú, Berglindi (22), Arnór (16) og Róbert jr (9) í Dýrafjörðinn á bæinn Bakka sem selur veiðileyfi í tvær tjarnir á svæðinu en þar eru ansi margar bleikjur sem rífa vel í. Ég hafði ákveðið að fara með þau og leyfa þeim að prófa að veiða fisk á flugu. Minn sagði á bakkanum ; "jæja, nú kasta ég út í vatnið og svo þegar ...og um leið beit ein 4 punda bleikja á með þvílíkum látum að Loop stöngin mín nr 2 kengbognaði niður í kork og svo dúndraðist línan út af hjólinu. Aldeilis sýnikennsla það. En svo fengu allir að prófa og allir fengu væna bleikju sem var markmiðið. Sæja átti erfitt með að fá þær til að taka en að endingu náði hún einni 3 punda en Arnór fékk stærstu bleikjuna sem var rúm 4 pund. Læt fylgja með nokkrar myndir sem voru teknar í ferðinni. Þrátt fyrir smá vætu fóru allir glaðir heim og reynslunni ríkari. Sjá fleiri myndir inni í Myndasafninu undir Veiði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008 | 22:45
Myndaplássið var búið hjá mínum
Kv
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)