Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
24.6.2008 | 00:09
Viðburðarrík vika að baki
Læt hér fylgja nokkrar myndir frá síðustu viku sem var viðburðarrík í meira lagi. Svokölluð Festival-vika á vegum Angelreisen hófst sl þriðjudag hjá sjóstangarveiðimönnunum hér á Suðureyri og Flateyri sem þíðir að það er keppt um stærsta fisk í sem flestum tegundum. Menn hafa veitt vel af stórum þorskum, mikið af ýsu og eitthvað af steinbít. Nokkrir skötuselir hafa veiðst og einnig setti einn maður í mjög stóra lúðu sem skotið er á að hafi verið um 170 sm og í kringum 70-80 kg að þyngd í gærdag. Í kvöld sá ég myndbandsupptöku frá lúðuslagnum sem endaði með að veiðimaðurinn handskutlaði lúðuna og henti út belg með spotta. En allt kom fyrir en ekki, lúðan sleit sig lausa og synti niður til síns heima. Það var því vonsvikin veiðimaður sem þurfti að horfa á eftir, líklega í fyrsta og síðasta skiptið, sinni stærstu lúðu á hans 50 ára veiðiferli. Dóttir hans veiddi þó 16 kg þorsk sem er vænn fiskur og það gladdi faðir hennar sem missti lúðuna stóru.
Ég skrapp með nokkra aðila frá Angelreisen út í Staðardal í Vatnadalsvatnið þar sem við veiddum bleikjur á flugu í frábæru veðri. Einn úr hópnum náði að setja í 53 sm bleikju eða 3ja punda fisk sem er sá stærsti sem vitað er að veiðst hefur úr Vatnadalsvatninu að sögn Karls Guðmundssonar bónda í Bæ. Á laugardaginn grilluðum við svo um 40 hrefnuspjót handa þessum höfðingjum sem Félag Hrefnuveiðimanna sendi okkur til kynningar. Spjótin kláruðust og Þjóðverjarnir görguðu af hrifningu af þessu frábæra hráefni. Ég hugsa að það sé hægt að markaðasetja hrefnukjöt í mun meira mæli fyrir ferðamenn sem eru til í að smakka. Síðan skruppum við á Vagninn þar sem Siggi Björns trúbador lék af sinni alkunnu snilld á gítarinn og söng gamla slagara.
Og á sunnudeginum skruppum við á bæinn Bakka í Dýrafirði sem hefur nokkur lón full af eldisbleikju og regnbogasilung. Angelreisen-gaurarnir voru spenntir fyrir þessu sem valkost fyrir sína viðskiptavini í framtíðinni. Ég lánaði þeim þrjár flugustangir og veiddum við helling af 2-4 punda bleikjum úr lónunum sem voru síðan heitreyktar um kvöldið. Frábær sunnudagur að baki með hæfilegri útiveru og skemmtun.
Í dag, mánudag, veiddu Angelreisen-gaurarnir svo 28 kg lúðu út frá Önundarfirði en þess má geta að þeir hafa ekki haft möguleika á að komast á sjó alla vikuna því allir bátarnir voru uppteknir. Þvílík heppni hjá þeim að skjótast út seinni partinn og setja strax í lúðu. Einnig veiddu þeir á Gesti Kristinssyni ÍS 64 kg lúðu í dag á línuna sem fór beint á markað.
Læt þetta duga að sinni. Meira síðar
Kveðja
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2008 | 11:51
Veiðiferð í Staðará á Snæfellsnesi
Læt hér fylgja með nokkrar myndir úr ferðinni okkar. Stefnt er að fara í sjóbirting í sömu á í haust ef allt gengur upp og síðan strax í opnun á gæs.
Með Vestfjarðarkveðju
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.6.2008 | 13:38
34 kg lúða á haukalóð
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2008 | 00:14
Kappróður, beitingakeppni og lífið sjálft
Undanfarin vika hefur verið strembin en samt skemmtileg. Það er alltaf eitthvað að gerast hér í Súgandafirði þrátt fyrir smæð þorpsins. Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur um helgina eins og alltaf hér á Suðureyri. Auðvitað tók ég þátt í alls kyns sprelli til að gera daginn skemmtilegri fyrir mig og aðra gesti. Til að monta mig aðeins, þá tókum við þátt í kappróðrinum á Lóninu á laugardeginum og við náðum að skrapa í liðið á staðnum. Af okkur sjö í liðinu eru sex Súgfirðingar sem eru: Róbert Schmidt, Atli og Sigurþór Ómarssynir, Sveinbjörn Jónsson, Arnar Guðmundsson, Oddur Hannesson og síðan hann Steini hennar Halldóru Hannesdóttur. Fjögur karlalið skráðu sig til leiks og að sjálfsögðu náðum við besta tímanum og liðið var kallað Stefnir (eftir gamla íþróttafélaginu okkar). Einnig tók ég þátt í beitingarkeppni og náði að vinna hana með ágætis árangri og var hæfilega stoltur með þann bikar. Það skilaði sér loksins öll reynslan í beitingunni hér í denn. En svo hafnaði ég í öðru sæti í reipitogi og í fjórða sæti í kararóðri. Um að gera að vera með eins og maðurinn sagði forðum. Sæja tók þátt í reipitogi með hressum heimakonum og unnu þær þá keppni og hlutu bikar fyrir. Flott hjá þeim.
En það var svo margt annað sem gerði þessa Sjómannadagshelgi skemmtilega. Sjómannamessann var góð og mikið sungið og spilað. Hef reyndar aldrei farið í slíka messu áður en þar var m.a. Kjartan Þór Kjartansson heiðraður fyrir það afrek að bjarga mannslífi í byrjun maímánaðar þegar hann Ölli á Suðureyri ætlaði í rauðmagabátinn sinn en féll í sjóinn og mátti litlu muna að hann hefði það ekki af en hann var um 20 mín í sjónum þegar hann fékk aðstoð frá Kjartani og öðrum hraustum Súgfirðingum. Það er gott að menn gæta "bróður" síns.
Á laugardeginum fór ég með systrum mínum, þeim Jónu Þorgerði og Önnu Maríu ásamt þeirra mökum, Gumma og Birki, út í kirkjugarðinn í Staðardal í Súgandafirði á leiðið hennar Önnu systur okkar en hún lést aðeins 3ja mánaða gömul úr vöggudauða en hún kom á eftir Dóra bróðir í röðinni. Ég kom á eftir Önnu, svo Reynir, Anna og Gústi. Þrátt fyrir að við náðum aldrei að kynnast henni, þá förum við á leiðið með blóm og hreinsum til í kringum leiðið en mamma og Anna María hafa yfirleitt séð um þessa vitjun. Það var samt gott að koma í kirkjugarðinn með sínum ættingjum. Blessuð sé minning hennar.
Nýr sjóstangaveiðihópur kom í dag, þriðjudag og ekki blæs byrlega fyrir þeim því framundan er bræluspá og eiginlega út vikuna. Það þíðir að þeir verða frekar fúlir og eirðarlausir enda skiljanlegt. Annars hefur veiðin verið mjög góð hjá síðasta holli. Nokkrir bátar hafa sett í stórlúður en lúðurnar hafa vinninginn að þessu sinni. Ein áhöfnin hamaðist lengi við að ná einni risalúðunni upp en að endingu brotnaði stöngin og línan kubbaðist í sundur. En það er mikill lúðu-hugur í þessum körlum og vonandi veiðast fleiri í sumar. Þetta er allt að slípast eftir því sem líður á en samt verð ég að játa það að Þjóðverjar geta verið ansi stirðir og ákveðnir. Það er eins og að þeir hugsi alltaf um að einhver sé að svíkja þá. En margir eru mjög viðkunnanlegir. Líklega er þetta uppeldið þarna úti eða bara í þýska geninu! Hver veit. Samt eru Íslendingar líka mjög erfiðir í viðskiptum og öðru tengdu. Við erum svo sem ekki barnanna bestir.
Jæja, ég læt nokkrar myndir fylgja með þessari færslu. Hef einfaldlega ekki haft tíma til að skrifa hér inn vegna anna. En vonandi næ ég að setja eitthvað efni hér inn þegar tími gefst en það er oftast nær gert seint að kveldi eftir vinnu. Svo er ég líka að skrifa fréttir á www.sugandi.is Síðasta myndin er af Steina Imbu þegar hann skellti sér í sjóinn eftir kararóðurinn. Steini er sjómaður og fer alltaf í sjóinn á Sjómannadaginn.
Læt þetta duga að sinni.
Kveðja að vestan
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)