Færsluflokkur: Bloggar
8.3.2011 | 17:44
Á annað hundrað manns skráðir á Súgfirðingafagnaðinn
Súgfirðingafélagið í Reykjavík stendur fyrir Súgfirðingafagnaði og balli nk laugardag (12.mars) í HK-salnum í Fagralundi í Kópavogi. Alls hafa á annað hundrað manns skráð sig á fagnaðinn en hann samanstendur af matarhlaðborði, skemmtun og balli. Miðar voru sóttir og greiddir í gærkveldi, mánudagskvöld. Verð á fagnaðinn er 4.400 kr per mann. Þeir sem komast einungis á ballið sjálft geta mætt á staðinn og greitt 1.500 kr fyrir miðann en það hefst kl 23.30.
Heyrst hefur að Vesturport-systkinin Gísli Örn Garðarsson og Rakel Garðarsdóttir ætli að fjölmenna á Súgfirðingafagnaðinn en þess má geta að þau eiga ættir sínar að rekja til Súgandafjarðar. Búast má við fjölda manns á ballið sem verður örugglega fjörugt og skemmtilegt.
Allir á Súgfirðingaball á laugardaginn :)
Kveðja
Róbert Schmidt
Bloggar | Breytt 9.3.2011 kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2011 | 15:11
Stefnir í gott Súgfirðingaball
Samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu Súgfirðingafélagsins í Reykjavík eru rúmlega 90 miðar bókaðir á Súgfirðingaballið sem verður nk laugardag 12. mars í HK-salnum Fagralundi í Kópavogi. Sjá nánar dagskrá á meðfylgjandi auglýsingu.
Búast má við fleirum á ballið sjálft sem hefst uppúr kl 23.00 að venju. Ég hvet alla að mæta á þennan ekta súgfirska mannfagnað, hvort sem heldur á matinn, skemmtunina eða bara á ballið sjálft.
Kveðja
Robbi Schmidt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2011 | 14:52
Fjórða sjóstangaveiðivertíðin í sjónmáli
Þann 1. apríl fer ég vestur til Suðureyrar í fjórðu sjóstangaveiðivertíðina hjá Hvíldarkletti sem gerir út 22 hraðbáta frá Seiglu. Eins og flestir vita, þá skiptast þessir bátar jafnt niður á Flateyri og Suðureyri. Fyrsta vertíðin mín hjá Hvíldarkletti var sumarið 2008. Síðan kom 2009 í kjölfarið. Síðasta ár, 2010, var gott og mikið og fjölskrúðugt mannlíf í Súgandafirði. Það ár tók ég pungaprófið og hef öðlast fullgild atvinnuréttindi á 12 m fiskibáta ásamt 24 m skemmtibátum. Það er því nokkur tilhlökkun að fara vestur í byrjun apríl en sá mánuður fer að mestu í að gera bátana klára fyrir vertíðina sem hefst í síðustu viku apríl.
Marsmánuður fer að hluta til í að pakka niður fyrir 6 mánaða dvöl á Suðureyri en vertíðinni lýkur í septemberlok. Ég býst við að eldri sonur minn, Arnór, komi strax vestur eftir skólann og hefji störf annað sumarið sitt hjá Klofningi en Arnór vann hjá fyrirtækinu í tvo og hálfan mánuð í fyrra. Það verður því spennandi að skella sér vestur með vorvindinn í bakið eftir rúman mánuð.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2011 | 12:44
Frábært Góublót súgfirskra karla
Góublót súgfirskra karla var haldið laugardaginn 19. febrúar sl í Félagsheimili Súgfirðinga að viðstöddum 165 gestum. Borðhaldið tókst vel að venju og gestir borðuðu úr sínum eigin trogum sem þeir komu með í húsið fyrr um daginn. Skemmtiatriðin voru ríkuleg og vel útfærð. Margir fengu á baukinn, eins og sagt er en skemmtiatriðin eru hálfgert áramótaskaup heimamanna.
Veðrið var með eindæmum gott þessa helgi, stafalogn og úrkomulaust. Að sögn Grétars Schmidt náði hann smá sólargeisla við enda hafnargarðsins á laugardagsmorgninum en skammt er þangað til heimamenn fái að njóta sólarinnar sem óðum hækkar sig yfir Spillinn.
Læt hér fylgja fáeinar myndir frá Góublótinu.
Kveðja
Róbert Schmidt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2010 | 19:06
Fékk mér stórskötu á hafnarvigtinni í tilefni Bóndadagsins
Það er búið að vera bræluskítur alla vikuna og það snjóaði lítillega í dag. Það gaf reyndar á sjó 1-2 daga í vikunni sem flestir smábátar nýttu sér. Lítill sem engin snjór er í þorpinu þrátt fyrir hávetur.
Svo skelli ég mér á handboltaleik á Talisman annað kvöld en þangað mætir 25-30 manna hópur stuðningsmanna landsliðsins reglulega til að fylgjast með gengi liðsins sem verið hefur ansi sérkennilegt sl leiki. Enn er ekkert tap komið en báðir leikirnir á undan hefðu átt að enda með sigri Íslands en svona er handboltinn.
Kveðja
Robbi Schmidt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2009 | 11:51
Haustið skall á með snjóhríð
Kæru vinir og vandamenn, þá er maður kominn heim í Kópavoginn eftir veruna fyrir vestan í sumar en hún var viðburðarrík og ánægjuleg í alla staði. Ég fór vestur strax eftir páska og vertíðin endaði þar 1. sept sl, þó svo að fáeinir hópar hafi komið til Suðureyrar og Flateyrar fyrstu tvær vikurnar í þeim mánuði. Framkvæmdarstjórn Hvíldarkletts hefur nú færst yfir til Flateyrar en þar stjórnar Jón Svanberg Hjartarson skútunni með sóma. Ég fékk fjölmarga góða gesti vestur í sumar á Skólagötuna og Sæluhelgin var sérlega eftirminnileg. Einnig var yngri sonur minn, hann Róbert jr hjá mér í júní og við feðgar fórum ósjaldan á sjóinn og nutum þess að bralla eitthvað saman.
Síðan skrapp ég í smá sumarleyfi til Spánar með konunni minni og þremur öðrum pörum. Það var kærkomið frí en ég er ekki þessi sólarlandatýpa sem nennir að flatmaga allan daginn í sólbaði. Það getur verið ágætt að hvíla sig á sólbekk af og til en til að krydda ferðina, þá hefði ég viljað skoða betur áhugarverða staði, mannlífið og menninguna í bland. Reyndar fórum við í fjallabæinn Bosat sem er í ca 500 m hæð og þaðan uppí þekktan dropasteinshelli sem er í 700 m hæð yfir sjávarmáli. Sú ferð var fræðandi og góð. Einnig skruppum við í "súkkulaðiþorpið" La Villa Josa og kíktum í eina súkkulaðiverksmiðju sem reyndar var ekki sú rétta. Valor er þekktasti súkkulaðiframleiðandi svæðisins en við náðum þó að smakka á góðum súkkulaðidrykk frá þeim áður en haldið var heim.
Það var stutt stopp í Kópavogi eftir Spánarferðina enda var ég fyrir löngu byrjaður að hugsa um gæsaveiðar og var ekki lengi að koma veiðibúnaðinum í jeppann og brunaði af stað seinni parts mánudags í sl viku norður í Hrútafjörð. Þar veiddi ég vel af gæs og Unnsteinn vinur minn frá Grundarfirði heimsótti mig og veiddi með mér í einn dag en þá fengum við 18 fugla. Á föstudeginum fór ég síðan í Skagafjörð til að gæda fjóra meðlimi úr Byssuvinafélaginu sem ég setti á í fyrra en vegna veðurs í október 2008 urðum við að fresta túrnum. Sem betur fer valdi ég þessa helgi, því það snjóaði þennan föstudag og öll heiðargæsin húrraðist niður á láglendið. Akurinn okkar var fullur af gæs þennan dag og það lofaði góðu fyrir morgundaginn.
Veiðin gekk vel hjá okkur Byssuvinum þessa helgi og voru menn virkilega sáttir með aflann í lok veiðiferðarinnar þrátt fyrir snjókomuna á sunnudagsmorgninum en þá sást varla í gervigæsirnar fyrir snjó. Nú er ég mættur í kotið og er að jafna mig eftir 7 daga gæsaveiði, hálf aumur í hægri öxlinni og stirður eftir allt þetta brölt. Það má því segja að haustið hafi skollið á með snjóhríð og látum víðast hvar um landið. Ég heyrði af miklum þrumum í Súgandafirði um helgina þannig að rafmagni sló út í firðinum. Íbúar vöknuðu flestir við hávaðan og muna menn ekki eftir öðru eins.
Framundan er veturinn með sínu atvinnuleysi en ég er nú eins og svo margir í atvinnuleit eftir mikla vinnu í sumar. Hálf kvíði fyrir vetrinum og aðgerðarleysinu en maður verður bara að vera duglegur að sækja um atvinnu hér og þar. Svo teiknar maður eitthvað á milli og lagar til í geymslunni. Ég hef að mestu hætt bloggi á Suðureyrar-síðunni þar sem of mikill tími fór í hana og engin hefur sýnt henni áhuga eftir að ég hætti skrifum þar, hvorki fyrirtæki eða einstaklingar sem hafa áhuga á að endurvekja fréttasíðu Súgfirðinga með styrkjum. En kannski er maður búinn að koma fólki uppá þessa fríu þjónustu svo lengi að það þykir orðið eins sjálfsagt og veðurfréttirnar í sjónvarpinu.
Maður reynir kannski að skrifa eitthvað hér á síðuna í vetur þegar tími gefst til. Ég hef tekið eftir því að það eru ca 30-40 manns sem fara inn á þessa síðu daglega en á sínum tíma kíktu hér um 100 manns inn daglega. En Suðureyrar-síðan sló nú öll met í sumar en þá heimsóttu yfir 600 gestir síðuna á einum degi með rúmlega 6000 flettingum.
Læt þetta duga að sinni. Kannski nennir einhver að lesa þetta eftir þessa löngu pásu!
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2009 | 11:48
Breytingar
Sjáum hvað setur...........!
Ps. Náði þessum 20 kg þorski nýverið hér grunnt frá Sauðanesinu.
Kveðja
Róbert
Ljósmynd: Jón Víðir Njálsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2009 | 10:47
Sumarvertíðin senn á enda
Ég fer í ævintýraferð til A-Grænlands þann 12. ágúst nk með fimm eldhressum Skagfirðingum en fyrirhugað er að róa á sjókajökum með vistir og búnað í 8 daga um óbyggðir og ís. Markmiðið er að róa í kringum Tasilaq eyju með viðkomu í Tini, sem er eina veiðimannasamfélagið sem ég hef ekki komið til á þessu svæði sl árin í mínum kajakferðum þar. Lítill ís er um þessar mundir en nýverið var felldur hvítabjörn við Tini en eins og áður sagði, þá eru fimm Skagfirðingar með í för og þá hefur maður litlar áhyggjur af því.
Það hefur verið ansi gestkvæmt hjá mér í sumar og varla liðið vika að einhver hafi ekki litið hér við eða gist. Sæluhelgin var frábær enda með góða gesti í heimsókn þá. Veðrið lék við okkur allan tímann, sól og smá gola.
Talsverðar breytingar hafa verið á fyrirtækinu en því var nýlega skipt upp, þannig að fyrrum framkvæmdastjóri tók við gistiheimilinu, veitingahúsinu Talisman og N1 söluskálanum. Hvíldarklettur rekur áfram sjóstangaveiðibátana og þau hús sem þeim fylgir. Þessar breytingar hafa vissulega haft áhrif á margt og marga sem starfa í og við fyrirtækið. Vonandi batnar ástandið þegar fram í sækir en mörg fyrirtæki í landinu róa nú lífróður í gegnum efnahagsástandið sem óneytanlega minnir á sig daglega með gjaldþrotum og lokunum fyrirtækja. Starfið mitt hjá Hvíldarkletti til framtíðar er því algerlega óljóst enda um að ræða eins konar vertíðarstarf sem bundið er við 3-4 mánuði á ári. Vera mín hér hefur verið mjög lærdómsrík og gefandi. Það býr gott fólk í Súgandafirði og staðurinn stendur alltaf fyrir sínu. Hér hefur verið lyft Grettistaki í húsaviðgerðum í sumar sem er mjög virðingarvert svo ekki sé meira sagt. Líklega sér fólk kostina í þeirri staðreynd að það er gott að búa úti á landi, sérstaklega á stöðum þar sem atvinnuástandið er stöðugt og mannlíf í blóma.
Haustið er því óráðið með atvinnu en maður heldur bara áfram að leita eins og svo margir þurfa að gera. Ástandið er reyndar mun erfiðara en t.d. á sama tíma og í fyrra en lífið heldur áfram og öll finnum við einhvern farveg í gegnum þessa erfiðleika og verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Best væri náttúrulega að fara í framleiðslu á Sultarólum og selja þær á sanngjörnu verði :)
Meira síðar áður en ég pakka saman.
Kveðja að vestan
Róbert Schmidt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 20:29
Á svartfuglsveiðum í Djúpinu
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2009 | 21:28
Vetrarríki á Vestfjörðum
Á Sumardaginn fyrsta snjóaði mikið hér vestra og einnig í dag. Hér er talsverður snjór og Bjarni á gröfunni er búinn að vera að moka í allan dag og varla haft undan. Heimamenn kippa sér svo sem ekki mikið upp við þótt snjói í apríl. Sumarið kemur yfirleitt í júní hér í Súgandafirði þótt fyrsti dagur sumars sé á dagatalinu svona snemma. Mannlífið hér er í föstum skorðum og atvinnulífið er traust að venju.
Set hér á bloggið fleiri færslur á næstu vikum og mánuðum ásamt ljósmyndum en bendi á www.sudureyri.blog.is þar sem fréttir frá mannlífi og atvinnu vega hæst.
Gleðilegt sumar
Róbert Schmidt
S: 8404022
robert@skopmyndir.com
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)