Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
26.2.2011 | 14:52
Fjórða sjóstangaveiðivertíðin í sjónmáli
Þann 1. apríl fer ég vestur til Suðureyrar í fjórðu sjóstangaveiðivertíðina hjá Hvíldarkletti sem gerir út 22 hraðbáta frá Seiglu. Eins og flestir vita, þá skiptast þessir bátar jafnt niður á Flateyri og Suðureyri. Fyrsta vertíðin mín hjá Hvíldarkletti var sumarið 2008. Síðan kom 2009 í kjölfarið. Síðasta ár, 2010, var gott og mikið og fjölskrúðugt mannlíf í Súgandafirði. Það ár tók ég pungaprófið og hef öðlast fullgild atvinnuréttindi á 12 m fiskibáta ásamt 24 m skemmtibátum. Það er því nokkur tilhlökkun að fara vestur í byrjun apríl en sá mánuður fer að mestu í að gera bátana klára fyrir vertíðina sem hefst í síðustu viku apríl.
Marsmánuður fer að hluta til í að pakka niður fyrir 6 mánaða dvöl á Suðureyri en vertíðinni lýkur í septemberlok. Ég býst við að eldri sonur minn, Arnór, komi strax vestur eftir skólann og hefji störf annað sumarið sitt hjá Klofningi en Arnór vann hjá fyrirtækinu í tvo og hálfan mánuð í fyrra. Það verður því spennandi að skella sér vestur með vorvindinn í bakið eftir rúman mánuð.
Kveðja
Róbert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2011 | 12:44
Frábært Góublót súgfirskra karla
Góublót súgfirskra karla var haldið laugardaginn 19. febrúar sl í Félagsheimili Súgfirðinga að viðstöddum 165 gestum. Borðhaldið tókst vel að venju og gestir borðuðu úr sínum eigin trogum sem þeir komu með í húsið fyrr um daginn. Skemmtiatriðin voru ríkuleg og vel útfærð. Margir fengu á baukinn, eins og sagt er en skemmtiatriðin eru hálfgert áramótaskaup heimamanna.
Veðrið var með eindæmum gott þessa helgi, stafalogn og úrkomulaust. Að sögn Grétars Schmidt náði hann smá sólargeisla við enda hafnargarðsins á laugardagsmorgninum en skammt er þangað til heimamenn fái að njóta sólarinnar sem óðum hækkar sig yfir Spillinn.
Læt hér fylgja fáeinar myndir frá Góublótinu.
Kveðja
Róbert Schmidt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)