Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
29.9.2009 | 11:51
Haustið skall á með snjóhríð
Kæru vinir og vandamenn, þá er maður kominn heim í Kópavoginn eftir veruna fyrir vestan í sumar en hún var viðburðarrík og ánægjuleg í alla staði. Ég fór vestur strax eftir páska og vertíðin endaði þar 1. sept sl, þó svo að fáeinir hópar hafi komið til Suðureyrar og Flateyrar fyrstu tvær vikurnar í þeim mánuði. Framkvæmdarstjórn Hvíldarkletts hefur nú færst yfir til Flateyrar en þar stjórnar Jón Svanberg Hjartarson skútunni með sóma. Ég fékk fjölmarga góða gesti vestur í sumar á Skólagötuna og Sæluhelgin var sérlega eftirminnileg. Einnig var yngri sonur minn, hann Róbert jr hjá mér í júní og við feðgar fórum ósjaldan á sjóinn og nutum þess að bralla eitthvað saman.
Síðan skrapp ég í smá sumarleyfi til Spánar með konunni minni og þremur öðrum pörum. Það var kærkomið frí en ég er ekki þessi sólarlandatýpa sem nennir að flatmaga allan daginn í sólbaði. Það getur verið ágætt að hvíla sig á sólbekk af og til en til að krydda ferðina, þá hefði ég viljað skoða betur áhugarverða staði, mannlífið og menninguna í bland. Reyndar fórum við í fjallabæinn Bosat sem er í ca 500 m hæð og þaðan uppí þekktan dropasteinshelli sem er í 700 m hæð yfir sjávarmáli. Sú ferð var fræðandi og góð. Einnig skruppum við í "súkkulaðiþorpið" La Villa Josa og kíktum í eina súkkulaðiverksmiðju sem reyndar var ekki sú rétta. Valor er þekktasti súkkulaðiframleiðandi svæðisins en við náðum þó að smakka á góðum súkkulaðidrykk frá þeim áður en haldið var heim.
Það var stutt stopp í Kópavogi eftir Spánarferðina enda var ég fyrir löngu byrjaður að hugsa um gæsaveiðar og var ekki lengi að koma veiðibúnaðinum í jeppann og brunaði af stað seinni parts mánudags í sl viku norður í Hrútafjörð. Þar veiddi ég vel af gæs og Unnsteinn vinur minn frá Grundarfirði heimsótti mig og veiddi með mér í einn dag en þá fengum við 18 fugla. Á föstudeginum fór ég síðan í Skagafjörð til að gæda fjóra meðlimi úr Byssuvinafélaginu sem ég setti á í fyrra en vegna veðurs í október 2008 urðum við að fresta túrnum. Sem betur fer valdi ég þessa helgi, því það snjóaði þennan föstudag og öll heiðargæsin húrraðist niður á láglendið. Akurinn okkar var fullur af gæs þennan dag og það lofaði góðu fyrir morgundaginn.
Veiðin gekk vel hjá okkur Byssuvinum þessa helgi og voru menn virkilega sáttir með aflann í lok veiðiferðarinnar þrátt fyrir snjókomuna á sunnudagsmorgninum en þá sást varla í gervigæsirnar fyrir snjó. Nú er ég mættur í kotið og er að jafna mig eftir 7 daga gæsaveiði, hálf aumur í hægri öxlinni og stirður eftir allt þetta brölt. Það má því segja að haustið hafi skollið á með snjóhríð og látum víðast hvar um landið. Ég heyrði af miklum þrumum í Súgandafirði um helgina þannig að rafmagni sló út í firðinum. Íbúar vöknuðu flestir við hávaðan og muna menn ekki eftir öðru eins.
Framundan er veturinn með sínu atvinnuleysi en ég er nú eins og svo margir í atvinnuleit eftir mikla vinnu í sumar. Hálf kvíði fyrir vetrinum og aðgerðarleysinu en maður verður bara að vera duglegur að sækja um atvinnu hér og þar. Svo teiknar maður eitthvað á milli og lagar til í geymslunni. Ég hef að mestu hætt bloggi á Suðureyrar-síðunni þar sem of mikill tími fór í hana og engin hefur sýnt henni áhuga eftir að ég hætti skrifum þar, hvorki fyrirtæki eða einstaklingar sem hafa áhuga á að endurvekja fréttasíðu Súgfirðinga með styrkjum. En kannski er maður búinn að koma fólki uppá þessa fríu þjónustu svo lengi að það þykir orðið eins sjálfsagt og veðurfréttirnar í sjónvarpinu.
Maður reynir kannski að skrifa eitthvað hér á síðuna í vetur þegar tími gefst til. Ég hef tekið eftir því að það eru ca 30-40 manns sem fara inn á þessa síðu daglega en á sínum tíma kíktu hér um 100 manns inn daglega. En Suðureyrar-síðan sló nú öll met í sumar en þá heimsóttu yfir 600 gestir síðuna á einum degi með rúmlega 6000 flettingum.
Læt þetta duga að sinni. Kannski nennir einhver að lesa þetta eftir þessa löngu pásu!
Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)