Leita í fréttum mbl.is

Á skarfaveiðum fyrir norðan hníf og gaffal

Loksins gáfu veðurguðirnir  mér tækifæri til að halda til veiða. Um miðja vikuna fyllti ég jeppann af veiðidóti, nóg af skotum og byssum, harðfiski, heitreyktum gæsabringum í nesti og hlý föt. Brunaði norður þangað sem ég geymi hraðbátinn minn og sjókajak. Nú skyldi brúka stærri fleytuna og afla vel af skarfi. Eftir nokkra byrjunarörðuleika og með aðstoð góðs vinar, tókst mér að koma mótornum í gang á Bismark ÍS (lítil fleyta með stórt nafn) og halda til skarfaveiða. Frostið beit andlitið í vindkælingunni á útstíminu. Nokkrar álkur vögguðu á öldunum, múkkinn sveif með vakandi auga fyrir framan bátinn. Skarfarnir sátu eins og herfylking á skeri, tignarlegir og svartir. Þetta lofaði góðu.

Fyrir mér er skarfurinn  besti matfugl sjófugla hér við land. Ungur toppskarfur er sérlega ljúffengur og einstaklega gott hráefni í matargerð. Byssan virkaði vel þrátt fyrir frost og dálitla ágjöf yfir mestu Skarfaveidar feb 2008 nr 1öldutoppana. Saltstorkin og ísköld, skipti hún haglaskotunum örugglega út og uppí skothúsið. Skarfarnir féllu í sjóinn og flutu hreyfingarlausir. Háfurinn skilaði sínu hlutverki með sóma. Veiðin gekk vel og ég fann hvernig blóðið rann ákaft um æðarnar. Tilfinningin að vera úti á sjó að veiða fugl í soðið er gríðarlega góð og sterk. Ferskt sjávarloftið lék við mig og báturinn skilaði mér hvert sem ég vildi fara. Ég fann hversu lifandi ég var á þessum febrúardegi. Sólin skein og það glytti í heiðbláan himininn. Sunnan vindsperringur og 5-6 m/sek var ágætis veiðiveður. Best er þó að hafa enga sól því hún blindar mann þegar skotið er á fugl.

Veiðiferðinni lauk  eftir fimm tíma en þá hafði ég veitt vel af skarfi og á landleiðinni náði ég í 10 spikfeita svartfugla sem var ágætis viðauki. Allt gekk upp og ég var ánægður með daginn. Mestur 477949158_d3b0175dcc_bparturinn af aflanum var toppskarfur (á sjöunda tug) en aðeins fimm dílaskarfar. Í gærkveldi tók ég nokkrar vel valdar og ferskar toppskarfabringur, kryddaði með pipar og salti úr kvörn, snöggsteikti á heitri pönnu og lét svo í nokkrar mínútur í 180 gráðu heitan ofn. Lét svo bringurnar standa á borði í 10 mín áður en ég skar þær í þunnar sneiðar. Síðan setti ég dass af BBQ Caj P olíu yfir sneiðarnar og ristaðar furuhnetur. Með sykursteiktum trompsveppum og strengjabaunum, rifsberjasultu og pönnusteiktum kryddkartöflum bragðaðist toppskarfurinn einstaklega vel. Sósan rammaði máltíðina algerlega inn og úr varð veislumatur með góðu frönsku villibráðarrauðvíni.

Í forrétt bauð ég uppá  heitreykta gæsabringu á salatbeði með Mangósósu, ristuðum furuhnetum og rifsberjasultu. Hún klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Þegar maður situr við matarborðið með gott rauðvín og villibráðina sem ég sótti á sjóinn tveimur dögum áður, fylltist hugur minn af gleði. Líf mitt hefur ætíð snúist um veiðar frá unga aldri og ég nýt þeirra samverustunda með fjölskyldu og vinum þegar setið er við matarborðið eftir uppskeru margra veiðiferða. Ég þakka veðurguðunum fyrir að gefa mér veiðifrið og skila mér heilum heim. Ég þakka veiðigyðjunni fyrir bráðina sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það er gott að vera veiðimaður þegar vel gengur.

Góðar stundi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Skemmtileg og lifandi lesning að vanda!

Sigrún Jónsdóttir, 24.2.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband