Leita í fréttum mbl.is

Alvöru sviðakjammi...!

 Framundan er hið árlega þorrablót Súgfirðingafélagsins í Reykjavík og sýnist mér að uppselt verði á blótið samkvæmt síðustu tölum. Súgfirðingar hafa alla tíð verið samheldnir og glaðir í góðra vina hópi. Ég ætla meira að segja að bjóða Berglindi dóttur minni með en hún hefur ekki farið á Súgfirðingablót áður sem vonandi verður skemmtilegt. Ég er svo sem ekki mikið fyrir þennan hefðbundna þorramat þ.e.a.s. svidsúrmatinn. Get vel borðað allt sem ekki er súrt og útmigið eða úldið. Sviðin eru góð og það minnir mig á eitt þorrablót heima á Suðureyri en þar koma allir með sitt trog og viskastykki yfir til að hylja góðgætið. Ég hafði veitt mitt fyrsta hreindýr haustið áður og ákvað að taka hreindýrshausinn vestur og svíða. Það tók langan tíma fyrir Leifa Nogga að svíða hausinn stóra sem var af 3ja vetra tarfi. Leifi var alvanur að svíða hausa en þetta var sá stærsti og seigasti, að hans sögn. Hann hélt í hornin og loginn frá gasstútnum sveið hreindýrshausinn af krafti en vegna hversu hreindýrshárin eru þétt, tók aðgerðin vel á annan klukkutíma.

Við Leifi söguðum svo hausinn í tvennt og hann glotti yfir þessum rosalega sviðakjamma sem var líklegast eins og fjórir eða fimm venjulegir kindahausar. Þegjandi samkomulag var á milli okkar Leifa að leka þessu ekki út því ég ætlaði á þorrablótið með stóra sviðahausinn og ekkert kjaftæði. Ég var mjög spenntur þegar ég gekk inní salinn með trogið mitt sem var að venju hulið köflóttu viskastykki. Tíminn leið og menn ræddu saman yfir langborðin og þá var hver og einn með sitt Brennivín, Vodka og bjór. Þegar fólk tók til matar, voru viskastykkin fjarlægð ofan af trogunum og kjammarnir, sulturnar, hákarlinn og harðfiskurinn blasti við með hrútspungum og lundaböggum allt um kring. Ég gleymi ekki svipnum á sessunautum mínum þegar ég tók minn sviðakjamma í hendurnar! Augun störðu á mig og hökurnar sigu niður á bringu. “Hver andskotin, hverslags djöfulsins sviðakjammi er þetta?” var baunað á mig í gríð og erg. “Hva, þetta er bara ósköp venjulegur sviðahaus nema hann er örlítið stærri en ykkar. Af hverju eru ykkar svona svakalega litlir?” -spurði ég og þóttist ekkert skilja í þessu. En svo varð ég að segja sannleikan og ég held að þetta hafi verið fyrsti og eini hreindýrssviðakjammi sem hefur verið étinn á þorrablóti á Suðureyri og hann smakkaðist frábærlega.

Mæli með hreindýrasviðum. Engin spurning.

Góðar stundir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband