Leita í fréttum mbl.is

Gat í naflann / Samningur

Þórunn Hanna, stjúpdóttir mín,  er sérdeilis frábær stelpa. Hún verður 17 ára í maí og við erum búin að keyra jeppann nokkuð mikið sl mánuði í æfingaakstrinum. Bílprófið bíður handan við hornið og hún hlakkar ekkert smá til. Ég man svo vel þegar Þórunn var 13 ára og vildi fá gat í naflann. Ónei, kemur ekki til greina,- var svarið sem hún fékk. Ekki einu sinni að ræða það.

Mótlætið var talsvert  enda félagslegur þrýstingur frá kynsystrum hennar á sama aldri. “Þú ert bara ekki með aldur til að vera að glenna einhvern naflahring út í loftið. Ekki einu sinni fermd,” sagði ég við hana í ákveðnum tón sem hún skildi. G-strengs dagarnir á undan voru mjög erfiðir. Hún varð að fá að ganga í G-streng eins og hinar stelpurnar, alveg sama hvað tautaði og raulaði. En við vorum nú ekki alveg sammála henni með það. Einu sinni tók ég alla G-strengina og setti í poka og faldi þá um tíma. Mér fannst þetta ekki við hæfi að 12-13 ára stúlka væri með G-streng langt uppá bak í skólanum og á öðrum opinberum stöðum. Síðan bannaði skólinn þessar pjötlur og eitthvað dró úr notkuninni.

Mikið var rætt um naflagatið  og við reyndum hvað við gátum að gera henni grein fyrir ókostunum sem þessu fylgdi. “Ég vil fá gat í naflann,-ég vil fá gat í naflann” hljómaði um íbúðina líkt og Karíus og Baktus vildu fá Fransbrauð og ekkert kjaftæði. Þá brá ég á það ráð að varpa fram þeirri hugmynd að við myndum gera skriflega samning okkar á milli og við samningsrof yrði naflagatið úr sögunni og allir hringirnir teknir úr umferð. Jú, heldurðu að mín komi ekki með útprentaðan samning sem hljóðar eftirfarandi og orðrétt:

Gat í naflann / Samingur     Thorunn Hanna
Af hverju vil ég það...??????
Af því:
1.mér fynnst það flott

Hvernig ætla ég að haga mér...????
Ég ætla:
1.ég geri þetta bara fyrir mig ekki neina aðra

2. ég ætla að haga mér skikkanlega

3. ég ætla að hjálpa til á heimilinu

4. Ég ætla ekki að vera að glenna þetta

5. ég hlýði öllu sem þið segið

6.og geri allt strax

7.verð góð við allt og alla

8.enginn fýla

9.alltaf passa litla róbert

10.verð alltaf góð við ykkur

11.Verð minna inn í herbergi
Og meira hjá ykkur frammi

12.og stend við allt sem ég segi....!!!!!!!!!:)

3/07 2004 Þórunn Hanna

Jahá, svo mörg voru þau orð.  Hljómar eins og Naflagatsboðorðin tólf. En hvernig er hægt að neita svona samningi? Fyrst var settur á aðlögunartími til að sannreyna alvöruna á bakvið boðorðin tólf. Jú, það gekk býsna vel og það var ákveðið að handsala samninginn í votta viðurvist og sú stutta fékk gat í naflann. Það var eins og hún hafi fengið risa vinning í happadrætti. Æi, dúllan litla komin með gat í naflann. En þú manst hvað stendur í samningnum sem hangir á ískápnum Þórunn? Jájá, ég get nú ekki annað. Sé hann á hverjum morgni,- svaraði hnátan.

Árin liðu og í haust fann ég  þennan óborganlega samning aftur og hengdi á ískápinn á ný. Hún brosti og rifjaði þetta upp með okkur. Ég er ekki frá því að hún hafi staðið nokkurn veginn við samninginn þessi elska. En tattó fær hún ekki. Sama hvaða samning hún setur á blað. Og hún veit það. En þetta kennir börnunum að virða skoðanir og gefa eitthvað af sér í staðinn. Reglurnar sem voru settar voru ósköp eðlilegar. Númer eitt; að þrífa gatið vel og vera ekki að glenna hann út í loftið öllum stundum. En ég er líka nokkuð viss um að hún hafi einmitt ekki staðið við fjórða boðorðið eins og lofað var. En það skiptir engu máli núna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þetta og ég vona að ég sleppi við allt svona vesen með mínar þrjár, annars er Tinna komin með kærasta og búin að tilkynna mér að þau séu búin að vera saman í 6.mánuði hvað getur maður gert þegar ég sjálf byrjaði að búa 16 ára gömul en þetta er nú saklaust hjá þeim,ég veit allt um það. En ekki fær hún gat í naflann,aldrei Bið að heilsa Þórunni og gangi henni vel að keyra kv Anna M. Bolungarvík.

Anna María Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband