Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Rjúpur handsamaðar í svefni

Síðustu vikur hafa verið frekar sérkennilegar þ.e.a.s. næturnar en þegar líður að Rjupa i Heidmork IIrjúpnaveiðitímabilinu, þá hrekk ég í einhvern gír sem fær mig til að tala heilmikið uppúr svefni og draumarnir snúast um lítið annað en rjúpur. Sjálfsagt er það spennan sem gerir mig svona skrýtinn. Það er ekki laust við að maður vakni hvítfiðraður á morgnana, ropandi eins og hæna á priki. Merkilegt þó, að í mörgum draumunum mínum handsama ég rjúpurnar í stað þess að skjóta þær. Kannski er þetta merki um krepputíðina en þá er best að spara skotfærin, ná sem flestum í einu skoti, nú eða handsama þær. En það gerist nú aldrei nema í draumi.

Framundan er fyrsti veiðidagur á rjúpu þ.e. á laugardaginn 1. nóvember. Á föstudeginum rúlla ég vestur í Grundarfjörð og pikka upp vin minn og veiðifélaga Unnstein Guðmundsson og síðan verður ekið áfram á Vestfirðina. Til stendur að eyða þar níu dögum í beit ef veðurguðirnir leyfa. Af þessum níu dögum eru sex veiðidagar og ef allt gengur eftir, þá eru líkurnar meiri að við komum með rjúpur heim en ekki. Ætlunin er að heimsækja systur mína og hennar fjölskyldu í Bolungarvík, einnig frændfólk á Suðureyri og að sjálfsögðu heimafólkið þar líka.

Ný og öflug vetrardekk eru nú komin undir jeppann, negld í bak og fyrir og grófmunstruð. Ég ætti að vera þokkalega undirbúinn fyrir komandi vetur þannig dekkjaður. Fyllti á rúðupissið, ísvarann og olíuna, skóflan og spottinn í skottinu og allt klárt fyrir komandi veiðiferðalag. Tilhlökkunin er gríðarlega mikil en svo hverfur hún eftir erfiði fyrsta veiðidagsins þegar maður vaknar upp morguninn eftir með harðsperrur og stirðleika, með hælsæri og rautt nef. En það er svo merkilegt þrátt fyrir það erfiði sem fylgir því að príla fjöllin í misjöfnu veðri, að þegar heim er komið, þá fer manni að hlakka strax til næsta dags.

Það er ólýsanleg tilfinning að standa efst á einhverju felli með byssuna á öxlinni og virða fyrir sér landslagið og anda að sér hreinu fjallalofti. Lyngbrekkur, snjóföl, steinar, skorningar, lækir og gil, allt þetta og meira til verður á vegi manns í leit að rjúpunum. Margar sleppa með skrekkinn en sumar enda í rjúpnavestinu og breytast í jólamat.

Vonandi mun allt ganga að óskum í þessari ferð og að aflabrögðin verði ásættanleg. Meira um það síðar.

Róbert

Ný síða www.sudureyri.blog.is

Ég ákvað að opna nýja bloggsíðu www.sudureyri.blog.is þar sem ég mun hlaða inn með tíð og tíma Batahofnin 2 500myndum frá Súgandafirði, Suðureyri og mannlífi ásamt fréttamolum og frásögnum þegar tilefni og tími gefst til. Vonandi fær þessi síða jákvæðar móttökur, ekki veitir af á síðustu og verstu tímum.

Kveðja

Róbert

Sóley Helga á barnið að heita

Á sama tíma og uppáhaldsliðið mitt í ensku deildinni, Liverpool, mætti Chelsea í mikilli viðureign í Soley Helga 2gærdag ætlaði ég að mæta í skírnarveislu til Ingu og Nonna í Kópavogi kl 13.00. Að sjálfsögðu vildi ég ekki missa af skírninni og leiknum en tók fyrri hálfleikinn í skírnina, myndaði í gríð og erg og fékk mér kökur að lokinni athöfn alveg slakur. Svo laumaðist ég út í bíl og brunaði heim og kveikti á sjónvarpinu og sá seinni hálfleikinn. Var reyndar búinn að "semja" við Ingveldi um að hverfa um stundar sakir úr veislunni sem var ekkert mál enda er ég ekki þessi Liverpool-aðdáandi dauðans venjulega nema núna langaði mig til að sjá amk brot úr leiknum. Úrslit leiksins voru jákvæð, Liverpool sigraði 4 ára og 8 mánaða sigurgöngu Chelsea á heimavelli með einu marki gegn engu og braut þar einnig 84 leikja samfellda sigurgöngu Chelsea sem er frábært knattspyrnulið. Mitt lið trónir nú efst í deildinni og ég er ánægður með það.

En litla sæta "frænka" mín fékk mjög fallegt nafn: Sóley Helga (Jónsdóttir). Ég læt hér fylgja nokkrar myndir af litlu prinsessunni sem ég tók í skírninni. Hún var mjög vær allan tímann, svaf að mestu eða hjalaði við gestina. Veislan var fín og tæplega 40 gestir mættu til að Fingursamgleðjast prinsessunni á þessum annars fína degi.


Fleiri myndir má sjá í myndasafninu á síðunni eða smellið á þennan tengil:
http://schmidt.blog.is/album/skirn_soleyju_helgu_okt_2008/

Kveðja

Róbert


Erfitt að byrja í ræktinni

Fyrir ca 8-9 árum síðan fór ég í mikla herferð í þeim tilgangi að auka við þyngd mína. Skráði mig í Robbi og Bubbistrangt æfingarferli hjá einkaþjálfaranum Sölva Fannari í World Class en hann er jafnframt eigandi fyrirtækisins www.heilsuradgjof.is Samningur var gerður við innflytjendur fæðubótarefnis og fjörið hófst fyrir alvöru. Alla daga úðaði ég í mig fæðubótarefnum (prótein og creatín) og borðaði heilan helling af hollum mat og þurfti að hætta í innanhúsfótboltanum til að brenna ekki öllu því sem ég var að vinna mér inn. Ég fékk sem sagt vottorð uppá sófalegu. Til að stytta frásögnina, þá bætti ég á mig tæplega 8 kg af vöðvamassa eftir þrjá mánuði í ræktinni enda var ég eins og tannstöngull á tímabili. Þyngdin fór þá upp í 74 kg og mér leið vel. Svo fór minn nú hægt og sígandi að draga úr ferðum í ræktina, vildi hvíla mig aðeins eftir þessa miklu törn. Ég man eftir því líka að einmitt þá hætti ég fyrir fullt og allt að drekka Coke og hef staðið við það bindindi enn og fer létt með.

Síðan eru liðin 8-9 ár og ég hef alltaf verið á leiðinni í ræktina á ný en hef ekki haft tíma eða verið of latur til að rísa á fætur og setja græjurnar í íþróttatöskuna. Samt er ég sprækur og hleyp um dali og fjöll eins og fjallageit. En ég veit og finn að árin líða yfir og maður verður stirðari og þolið er ekki pict0376endalaust þó svo maður geti hlaupið nokkrar rjúpur uppi einu sinni að vetri. Ég ákvað því að reima á mig hlaupaskóna um daginn og skokkaði hér sæmilegan hring í Kópavogi og kom heim dauðþreyttur eftir 10 mín. Þetta var mikið afrek að mér fannst. Hljóp reyndar hressilega, þoli ekki hlaupara sem þykjast hlaupa en ganga svo alla leiðina. Og svo kom snjórinn og ég nennti ekki út að hlaupa í þessu skítaveðri. Fékk vottorð uppá sófalegu eins og í denn. Ástæðan fyrir því, að nú vill minn fara að hreyfa sig, er sú að í næstu viku hefst rjúpnaveiðitímabilið og ég veit að það er ekkert grín að klöngrast upp snarbrött fjöllin hálf þollaus og stirður. Hef því ákveðið að reyna að hlaupa amk daglega 1-2 hringi til að ná mér í smá form. Svo held ég að tími sé til kominn að skella sér í Sporthúsið sem er í 5 mínútna göngufæri frá heimili mínu.

Já, maður er að eldast, kominn með lesgleraugu, orðinn stirður, þolið hefur minnkað, yfirvegunin er meiri, hættur á djamminu (ekkert farið í allt haust) og börnin gera grín að manni. En samt er gott að vera til og ekki sakar að gera smá grín af sjálfum sér af og til.

Ég er ágætlega sáttur en skal ná mér í form fyrir rjúpuna!!!

Efri myndina tók Gísli Egill Hrafnsson af okkur Bubba Morthens fyrir mörgum árum í Dölunum, skömmu áður en Bubbi náði augnsambandi við rjúpu og frelsaðist, seldi byssurnar og hætti veiðum.

Neðri myndina tók Dúi Landmark á Snæffelsnesinu á síðasta rjúpnaveiðitímabili í grenjandi rigningu en veiðin var ágæt.

Kveðja

Róbert

Gæsaleysi og skírnarveisla framundan

Til stóð að fara í Skagafjörðinn um helgina með hóp veiðimanna á gæsaveiðar en þeirri ferð hefur IMG_3837verið aflýst sökum gæsafæðar á svæðinu sem og snjóstorms sem skellur á landið vestan- og norðanvert seinnipartinn í dag. Mér skilst að öll gæsin sé nú á SA-landinu í nágreni við Eyjafjöll, Vík og Höfn. Enda hafa menn verið að gera fína túra þangað um þessar mundir.

Það er kærkomið að hvíla sig eina og eina helgi. Haustið hefur verið erilsamt og mikil ferðalög að baki og ófáar gæsir skotnar. Ég mun því horfa á Liverpool og Chelsea leika á laugardaginn og skelli mér í skírnarveislu á sunnudaginn. Læt hér fylgja mynd af litlu drottningunni sem á að skíra en hún er dóttir hennar Ingveldar (systir Sæju) og Nonna í Kópavogi. Ég hélt á henni um daginn og hjalaði við hana þangað til hún sofnaði í fanginu mínu. Sérstök og þægileg tilfinning að halda á ungabarni og svæfa það í kyrrð og ró. Gaman að þessu.

Myndin er af þeim frænkum Sæju og óskýrði Jónsdóttur sem er 2ja mánaða gömul.

Kveðja

Róbert

Skopmyndir á kreppukjörum

Ég hef ákveðið að bjóða sérstök kreppukjör á skopmyndum út októbermánuð í ljósi þess að allir Utskriftþurfa að spara. Kreppukjörin hljóða uppá kr. 9.000 fyrir blýants-skopmynd (án kartons og ramma). Fullt verð er kr. 15.000 Tilvalið fyrir þá sem eru á leið í t.d. stórafmæli eða brúðkaup á næstunni. Það sem til þarf er skýr og góð ljósmynd af viðkomandi "fórnarlambi" og helst brosandi og upplýsingar um áhugamál, fatnað ofl sem þarf að skeyta á myndina. Læt hér fylgja með eina blýants-skopmynd sem geta verið mjög líflegar og skemmtilegar.

Allar nánari uppl gefur undirritaður í síma 8404022

Kveðja

Róbert Schmidt
robert@skopmyndir.com
www.skopmyndir.com

Kreppu-krónan

Í gærkveldi þegar yngri sonur minn, Róbert, hafði lokið við að horfa á sjónvarpsfréttirnar settist Robert jrhann við stofuborðið og fór að teikna. Þessi skemmtilega mynd er mjög táknræn fyrir ástandið á landinu í dag. Merkilegt hvað 9 ára gömul börn geta túlkað vel krepputalið sem glymur í öllum fjölmiðlum og frá fólki almennt.

Ps. Sá ánægjulegi áfangi gekk eftir í dag þegar ákveðið var að skeyta ættarnafninu mínu við þann stutta sem heitir núna því skemmtilega nafni: Guðmundur Róbert Schmidt en mitt nafn er Róbert Guðmundur Schmidt. Þá er bara að koma Arnóri af stað með ættarnafnið en hann er byrjaður að skrifa sig sem Arnór Schmidt. Það er erfitt að lýsa ánægju minni yfir þessu.

Kveðja

Róbert

Íslenskur fjallarefur með beikoni, sveppum og púrtvíns-rjómasósu

Ég fékk skemmtilegt símtal í síðustu viku þegar Súgfirðingurinn Jón Vigfús spurði mig hvort ég gæti Refurgefið honum eina góða mataruppskrift. "Og hvaða uppskrift vantar þig Nonni minn"- spurði ég á móti. Mig vantar góða uppskrift af ref. "Já, þú meinar það. Ertu þá að tala um íslenskan ref úr náttúrunni eða búr-ref?" Bara íslenskan ref, langar til að smakka hann og hafa þá góða uppskrift,- svarar Nonni á móti. Hefur þú ekki borðað ref Robbi? "Jú, ég borðaði einu sinni búr-ref sem ég fékk frá Patreksfirði og lét léttreykja hann og Úlfar Finnbjörnsson eldaði refinn fyrir okkur sem smakkaðist eins og saltkjöt, bara mjög góður á bragðið en ég held að það séu fáir í dag sem myndu vilja reykja villtan ref, því miður."

"En ef ég mætti ráðleggja þér Nonni minn, þá myndi ég flá refinn og tálga allt kjöt af honum á pönnu, krydda með salti og pipar og brúna vel í smjöri. Síðan setja sveppi útá ásamt beikonbitum og papriku. Síðan pela af rjóma og láta þetta krauma í smá stund. Og ekki væri verra að setja 1-2 tappa af góðu púrtvíni útá pönnuna í upphafi steikingar. Prófaðu þetta og láttu mig vita hvernig til tekst," sagði ég og sagðist reyndar aldrei verið svo svangur að vilja borða íslenskan villtan fjallaref amk ekki enn sem komið er. En hver veit hvað verður í þessari kreppu? Íslenski refurinn lifir reyndar á góðu fæði.

Kveðja

Róbert

Í snjónum í Skagafirði

Fór norður í Skagafjörð um miðja sl viku til að veiða fleiri gæsir og undirbúa komu veiðimanna á gæs IMG_3847á Vindheima. Ferðin byrjaði ekki vel því Hvalfjarðargöngin voru lokuð nóttina þegar ég rúllaði norður og ég varð því að aka Hvalfjörðinn. Náði þó á svæðið á tilsettum tíma og hafði 16 grágæsir eftir morguninn. Næstu dagar fram að helgi fóru að rembast við að ná fleiri gæsum en það miðaði frekar rólega. En ég var ágætlega sáttur við aflann sem kominn var. Veðurspáin var ekki sérlega góð, NA-rok með snjókomu. Á laugardagsmorguninn var allt hvítt og kalt með hæfilegu roki. Sunnudagurinn var lognsæll og úrkomulítill. Við lágum svo að segja hreyfingarlausir í 6-7 tíma á akrinum í skítafrosti en veiðin var dræm. Gæsirnar greinilega byrjaðar á að færa sig yfir landið á SA-landið áður en hún hverfur yfir hafið til Bretlandseyja til vetursetu.

Á laugardagskvöldið komu Maggi Hinriks og Steinar Péturs í kvöldverð til okkar Sæju í IMG_3880sumarbústaðinn í Varmahlíð ásamt konum sínum, þeim Sonju og Effu. Ég grillaði kjúklingaspjót, höfrungaspjót og gæsaspjót. Marineraði gæsina í hlynsírópi, títuberjasultu og Baily's sem smakkaðist vel. Þar ræddum við félagarnir um fyrirhugaða kajakferð um A-Grænland 2009. Maggi kom með reyktan lunda í forrétt og ég setti heitreykta gæs með á diskinn enda hvortveggja úr Skagafirði.

Kannski að maður reyti eitthvað af þessum spikfeitu grágæsum sem ég veiddi um helgina því feitari geta þær nú varla verið.

Snjor a akrinum

Kveðja

Róbert


Hrikaleg jeppatröll í Fífunni

Ég og Róbert jr sonur minn röltum frá Lautasmáranum yfir í Fífuna í dag á jeppa- og útivistarsýninguJeppi 1 4X4 klúbbsins til að skoða það áhugaverðasta í jeppabreytingum á þessum tímum. Við vorum ekki vonsviknir með sýninguna því þar eru margir glæsilega útbúnir jeppar, bæði í einkaeigu sem og björgunarsveitabílar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er Róbert jr eiginlega kominn undir einn stærsta jeppann á sýningunni sem er með 54" dekk, alveg hrikalegt jeppatröll. Þarna hitti ég helling af dellukörlum og meðal annars Bjarna gröfukall frá Suðureyri og Ragga rafvirkja sem á sínum tíma bjó þar líka. Við Raggi skeggræddum aðeins um Isuzu D-MAX jeppana okkar sem eru eins breyttir 35" sem hreinlega blikna við hliðina á þessum alvöru tröllum.

Fyrir utan Fífuna eru svo nokkrir björgunarsveitajeppar og sérlega falleg og sérstök mótorhjól. LaedanGarmin er með flottan bás á sýningunni þar sem er að finna allt það besta í staðsetningartækjum, hvort sem er í bíla, báta eða fyrir göngugarpinn. Held að ég sé búinn að finna mér jólagjöfina í ár Wink  Ekki má gleyma aðalbílnum á sýningunni sem er Læðan hans Ólafs Ragnars úr Dagvaktinni. Myndin af henni er hér til hliðar.

Hvet alla sem geta að fara í Fífuna og skoða jeppaúrvalið hjá 4X4 klúbbnum. Það kostar 1000 kr inn en svo bjóða þeir uppá 1500 kr helgarpassa en frítt er fyrir börnin. Eftir sýninguna fórum við í fótbolta út í góða veðrið á meðan Sæunn og Þórunn Hanna voru á Villa Vill tónleikunum.

Róbert

Næsta síða »

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband