Leita í fréttum mbl.is

Snjórinn færir gleði og sorg

Var að tala vestur í Súgandafjörð við vin minn Sigurþór Ómarsson sem flaug þangað fyrir helgi til að skella sér á þorrablót. Öfunda hann mikið. Ég spurði hvort væri mikill snjór? “Ja, mér finnst dálítið af snjó hér en Arnari frænda finnst lítið af snjó núna. Við erum búnir að gleyma því þegar við bjuggum hér Leigubíll tekur við farþegum snjóbílsins ÍsafjarðarmeginRobbi. Það sást ekki í sum húsin fyrir sköflum, manstu?” segir Sigurþór og hlær. Já, Vestfirðingar vita vel hvað snjór er og einnig þegar snjóar mikið. Reyndar hefur mikil breyting orðið á hvað varðar snjóþyngsli líkt og var sem mest hér um árin. Fyrir 1950 voru snjóþyngslin jafnvel meiri en á árunum 1965-1990. Það er varla fyndið að segja frá því hvað mikill snjór var í Súgandafirði sum árin. En við púkarnir elskuðum snjóinn. Klifruðum uppá atvinnuhúnæðin, stukkum þar framaf gargandi af spenningi og skaflinn gleypti okkur. Bara lítil og dimm hola niður í skaflinn. Oft þurfti að grafa upp einn og einn sem fór djúpt. Menn fóru heljarstökk, flikk flakk, út og suður. Bara ef mikill snjór var fyrir neðan. En það var vont að lenda þegar olíutunnurnar voru þar undir! Snjómælingatækin okkar púkanna voru víst ekki nægjanlega þróuð í þá daga.

Trillurnar sem stóðu í röðum á kambinum við sandfjöruna breyttust í sjóræningjaskip og skipt var í lið. Flugeldaprik breyttust í glansandi beitt sverð, brotin kústsköft urðu að kraftmiklum rifflum, ómerkileg plaströr breyttust í örvaboga og bara til öryggis og vara, þá mátti glytta í eina og eina teygjubyssu í rassvösum sumra púkanna. Í einu trillustríðinu, þegar eitt áhlaupið stóð sem hæst, féll einn fyrir borð. 47023Hvorki hákarlskjaftur né hyldjúpt hafið varð honum að meini. Heldur frosin og grjóthörð möl. Það greip um sig þögn um stundarkorn. Þarna stóðum við þrælvopnaðir og horfðum niður á fórnarlambið.  Skerandi öskur bergmálaði frá Hádegishorninu yfir í Norðureyrargil. Jú, það fór ekki á milli mála. Við erum einum færri í okkar liði. Vopnahlé! Sá slasaði var fluttur heim á sleða. Hann reyndist illa fótbrotinn. Nefnum engin nöfn. Hann skrifar kannski í gestabókina mína von bráðar um þetta atvik ef hann man eftir því!

Snjórinn er og hefur alltaf verið hluti af tilverunni fyrir vestan. Flestir sætta sig við hann, taka honum eins og sjálfsögðum hlut. En stundum tekur snjórinn mannslíf og þá hvílir sorgin ofaná sköflunum. Veðurguðirnir skammast sín og hljótt er til fjalla. Samkenndin verður mikil í litlu þorpunum eftir gríðarlega blóðtöku náttúruaflanna. Fátt er um svör og mennirnir moka.

En það birtir með hækkandi sól og dagarnir lengjast. Æðurin úar á lognsælum firðinum og hljómfagur hávellusöngur berst varlega uppí fjörugrjótið. Mávarnir sveima og syngja  yfir höfninni. Trillurnar strika út fjörðinn með frosna bala. Krummi situr á ljósastaur og krunkar. Lífið heldur áfram og það fennir yfir 56002sorgina. Bros færast yfir rjóð barnsandlit með skólatöskurnar á bakinu. Þau hlaupa inn götuna og gamli skólinn tekur þeim opnum faðmi. Sjóræningjaorrustur á fjörukambinum og stökkvandi púkar af húsþökum er nú horfin tíð. Áherslurnar lagðar á tölvuleiki og sjónvarpsgláp til dægrastyttingar. Horfinn er stórbrotinn ævintýraheimur sem við kveðjum með söknuði. En minningin lifir og gleður hugann þegar hann snjóar úti. Það var gott að vera púki í Súgandafirði.
 

Meðfylgjandi myndir tók Sr Jóhannes Pálmason á árunum 1950.

Góðar stundir



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hljómar kunnuglega ... mig minnir að öskrin hafi bergmálað í fjöllunum í 2 vikur eftir slysið. Ég þarf enn að búa við þetta fjandans hopp.  En fyndið að heyra þetta frá þér, margviðbeinsbrotnum manninum hehe.....

Þetta rifjar upp önnur slys að svipuðum toga  s.s nál sem ætluð var rassinum á mömmu sinni endaði í hnénu á þeim sem setti hana í stólinn og rennt sér á sleða á harðfiskhjall með kinnbeinsbroti ofl...svo að maður tali nú ekki um hjólatúra um miðjar nætur ofl ofl....Lúlla fékk nóg að gera með okkur í sjúkraskýlinu. Man að þegar ég lá þar inni fótbrotinn að þá gaf hún mér smákökur, en kaldhæðni örlagana var sú að á meðan ég beið heima, í tvo daga eftir að komast með snjóbíl til Ísafjarðar í aðgerð. Þá var ég spelkaður og spelkurnar voru..........jú mikið rétt.... FLUGELDAPRIK

Kv Ells, margbrotinn af átakasvæðunum fyrir westan.

Ellert Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 14:15

2 identicon

Elli sprelli... jú, mikið rétt. Það varst þú sem varst féllst niður á milli bátanna og ég man eftir gifsinu þínu, sem var útkrotað, og náði upp fyrir mið læri  Við skulum ekkert tala um mín beinbrot hér. Það yrði langur og strangur sjúkralisti að rita..hmm. Geymi það til betri tíma! Flugeldaprikin voru til margs brúkleg  

Ps. þú þarft að byrja að blogga aftur Elli. Skora á þig.

Kv

Robbi

Robbi Schmidt (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 15:12

3 identicon

Hæ Róbert,

Mikið lifandis óskup er gaman að lesa færslurnar þínar, upprifjun þessara gömlu góðu daga fer á fullt í kollinum á manni!

Myndasmiðurinn var sr. Jóhannes Pálmason sjálfur, Pálmi sonur hans fæddist ekki fyrr en 1952!  Pálmi gerði okkur öllum þann frábæra greiða að færa myndirnar í netformið!

mbk. Sigrún Jónsd.

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 23:56

4 identicon

Sæl Sigrún,

Auðvitað var það Sr Jóhannes Pálmason sjálfur sem tók myndirnar. Smá misskilningur sem leiðréttist hér með. Takk fyrir að láta mig vita

Kveðja

Róbert

Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband