Leita í fréttum mbl.is

Rjúpur handsamaðar í svefni

Síðustu vikur hafa verið frekar sérkennilegar þ.e.a.s. næturnar en þegar líður að Rjupa i Heidmork IIrjúpnaveiðitímabilinu, þá hrekk ég í einhvern gír sem fær mig til að tala heilmikið uppúr svefni og draumarnir snúast um lítið annað en rjúpur. Sjálfsagt er það spennan sem gerir mig svona skrýtinn. Það er ekki laust við að maður vakni hvítfiðraður á morgnana, ropandi eins og hæna á priki. Merkilegt þó, að í mörgum draumunum mínum handsama ég rjúpurnar í stað þess að skjóta þær. Kannski er þetta merki um krepputíðina en þá er best að spara skotfærin, ná sem flestum í einu skoti, nú eða handsama þær. En það gerist nú aldrei nema í draumi.

Framundan er fyrsti veiðidagur á rjúpu þ.e. á laugardaginn 1. nóvember. Á föstudeginum rúlla ég vestur í Grundarfjörð og pikka upp vin minn og veiðifélaga Unnstein Guðmundsson og síðan verður ekið áfram á Vestfirðina. Til stendur að eyða þar níu dögum í beit ef veðurguðirnir leyfa. Af þessum níu dögum eru sex veiðidagar og ef allt gengur eftir, þá eru líkurnar meiri að við komum með rjúpur heim en ekki. Ætlunin er að heimsækja systur mína og hennar fjölskyldu í Bolungarvík, einnig frændfólk á Suðureyri og að sjálfsögðu heimafólkið þar líka.

Ný og öflug vetrardekk eru nú komin undir jeppann, negld í bak og fyrir og grófmunstruð. Ég ætti að vera þokkalega undirbúinn fyrir komandi vetur þannig dekkjaður. Fyllti á rúðupissið, ísvarann og olíuna, skóflan og spottinn í skottinu og allt klárt fyrir komandi veiðiferðalag. Tilhlökkunin er gríðarlega mikil en svo hverfur hún eftir erfiði fyrsta veiðidagsins þegar maður vaknar upp morguninn eftir með harðsperrur og stirðleika, með hælsæri og rautt nef. En það er svo merkilegt þrátt fyrir það erfiði sem fylgir því að príla fjöllin í misjöfnu veðri, að þegar heim er komið, þá fer manni að hlakka strax til næsta dags.

Það er ólýsanleg tilfinning að standa efst á einhverju felli með byssuna á öxlinni og virða fyrir sér landslagið og anda að sér hreinu fjallalofti. Lyngbrekkur, snjóföl, steinar, skorningar, lækir og gil, allt þetta og meira til verður á vegi manns í leit að rjúpunum. Margar sleppa með skrekkinn en sumar enda í rjúpnavestinu og breytast í jólamat.

Vonandi mun allt ganga að óskum í þessari ferð og að aflabrögðin verði ásættanleg. Meira um það síðar.

Róbert

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Róbert Guðmundur Schmidt
Róbert Guðmundur Schmidt
Súgfirðingur í húð og "hár" hvert sem það nú fór...!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband